Sparisjóðurinn 100 ára í dag

Haldið er upp á það í dag að 100 ár eru liðin síðan Sparisjóður Norðfjarðar, sem frá árinu 2015 hefur borið heitið Sparisjóður Austurlands, hóf starfsemi. Hann er einn fjögurra sparisjóða sem eftir eru í landinu en þeir urðu flestur rúmlega 60 talsins um 1960.

Fyrsti austfirski sparisjóðurinn og þar með peningastofnunin var Sparisjóður Múlasýslna. Hann var stofnaður á Seyðisfirði árið 1868 en varð ekki langlífur. Fyrsta bankaútbúið opnaði þar í bæ 1904 frá Íslandsbanka.

Landsbankinn opnaði síðan á Eskifirði árið 1918. Norðfirskir kaupmenn stunduðu viðskipti við bæði útibúin og þurftu oft að senda menn eftir peningunum. Þannig fóru sendlar á skíðum yfir Oddsskarð á veturna.

Lagt inn á 43 sparisjóðsbækur

Ferðirnar voru erfiðar og stundum jafnvel hættulegar. Norðfirðingar fengu því eðlilega áhuga á stofnun peningastofnunar í heimabyggð. Á fundum Málfundafélagsins Austra þar í bæ kom fram áhugi að koma á fót sparisjóði og var sett á fót nefnd til að vinna málið áfram.

Safnað var ábyrgðarmönnum sem ábyrgðust tiltekna upphæð fyrir væntanlegan sparisjóð. Alls ábyrgðust þeir 15.800 krónur. Þar með var hægt að halda áfram og var stofnfundur sjóðsins haldinn 2. maí 1920, um ári eftir að vinnan fór af stað.

Sjóðurinn tók svo til starfa þann 1. september sama ár. Það var í húsinu Adamsborg, í miðju Neskauptúni, sem einnig hýsti símstöðina. Opið var eina klukkustund í hverri viku. Fyrsta starfsdaginn var lagt inn á 43 sparisjóðsbækur, allt frá 2 krónum upp í 1250 krónur, alls 4039,5 krónur.

Í fyrstu lögum sjóðsins kom fram að sjóðurinn væri stofnaður til að ávaxta og geyma peninga fyrir íbúa Norðfjarðar. Þótt hann geymdi einnig fé fyrir utansveitarfólk var kveðið á um það í lögunum að stjórnendur hans skyldu búa í Neskauptúni.

Eina útibúið í Neskaupstað

Sjóðurinn óx smám saman enda lengi eina bankaútibúið á Norðfirði. Skömmu eftir stofnun hafði hann tekið að sér þjónustu þar fyrir Landsbankaútibúið á Eskifirði. Þetta breyttist árið 1974 þegar Landsbankinn opnaði í Neskaupstað, en áður hafði bankinn skoðað yfirtöku á sparisjóðnum. Sjóðurinn svaraði aukinni samkeppni með að efla þjónustu sína. Fyrsta útibúið, og reyndar það eina, utan Norðfjarðar var opnað á Reyðarfirði árið 1998 og var það opið til 2012.

Sparisjóðurinn hefur gengið í gegnum ýmislegt á þeirri öld sem hann hefur starfað. Kreppan á fjórða áratugnum var erfið en betri tíð fylgdi eftir síðari heimsstyrjöldina. Síðasti áratugur 20. aldarinnar var afar góður.

Sterk staða í dag

Á góðærisárum íslenskrar bankastarfsemi, 2006 og 7, ásældust fjárfestar sjóðinn en stofnfjáreigendur höfnuðu öllum tilboðum. Eins og aðrar fjármálastofnanir varð sjóðurinn fyrir miklu höggi í bankahruninu 2008 en með mikilli vinnu tókst að bjarga honum frá hruni. Að því verki komu bæði fyrirtæki í Neskaupstað og sveitarfélagið Fjarðabyggð auk íslenska ríkisins.

Árið 2015 var nafni sjóðsins breytt í Sparisjóður Austurlands enda litið á fjórðunginn allan sem starfssvæði hans. Reksturinn hefur gengið vel síðustu ár, hagnaður hefur verið af rekstrinum síðustu átta ár, þar af fimm sinnum yfir 50 milljónir.

Samkvæmt lögum um sparisjóði ber þeim að veita hluta af hagnaði sínum til samfélagsstyrki og hefur Sparisjóður Austurlands síðustu átta ár greitt um 25 milljónir í slíka styrki, utan ýmissa framlaga í ákveðin verkefni.

Sparisjóðsstjórarnir hafa verið sex að tölu, Tómas Zoëga var fyrstur en Vilhjálmur G. Pálsson gegnir starfinu í dag og hefur gert síðan 2004. Flestir urðu starfsmenn sjóðsins 12 en nú eru stöðugildi hans 6,4.

Til stóð að halda upp á afmælið með samsæti í útibúinu í Neskaupstað í dag og tónleikum laugardaginn 12. september. Af því verður þó ekki vegna samkomutakmakana.

Adamsborg, þar sem Sparisjóður Norðfjarðar hóf starfsemi 1. september 1920. Mynd: Sparisjóður Austurlands


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.