Enn kemst Seyðisfjörður á lista yfir fallegustu þorpin

Seyðisfjörður hefur, alls ekki í fyrsta sinn og væntanlega ekki heldur það síðasta, verið settur á lista ferðasérfræðinga um fallegustu smábæi Evrópu.

Að þessu sinni er það þýski ferðavefurinn Reisereporter sem tekið hefur saman lista yfir 15 evrópsk þorp.

Í samantektinni er meðal annars talað um að þrátt fyrir að aðeins búi um 700 manns á Seyðisfirði sé þar samt fjölbreytt þjónusta í mat, drykk og gistingu, ferja gangi til Danmerkur með viðkomu í Færeyjum auk þess sem rétt utan við bæinn sé skúlptúrinn Tvísöngur sem einnig sé hljóðlistaverk.

Textanum fylgir mynd sem sögð er lýsandi fyrir staðinn en sýnir þó að aðeins vanti upp á staðþekkingu þar sem Bláa kirkjan við enda Regnbogastrætisins er sögð hvít.

Seyðisfjörður nær því að vera fámennasta þorpið á listanum með 659 íbúa samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það munar ekki miklu, Folegrandos, sem reyndar er smá grísk eyja með þremur þorpum, er með 765 íbúa og Pyrgi á annarri grískri eyju, Kíos, er álíka fjölmennt. Að sama skapi telst þýski bærinn Füssen, með um 15.000 íbúa, vart neinn smábær á íslenskan mælikvarða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.