Orkumálinn 2024

Sjötíu ár frá því að El Grillo var sökkt: Allmikill dynkur er skipið hvarf í djúpið

ElGrilloSjötíu ár eru í dag síðan þýskar orrustuflugvélar sökkti olíubirgðaskipinu El Grillo á Seyðisfirði en flak þess liggur á um 45 metra dýpi. Olía úr skipinu hefur valdið töluverðum spjöllum á lífríki Seyðisfjarðar í gegnum tíðina.

El Grillo sigldi inn á Seyðisfjörð haustið 1943 og lagðist á „Kringluna" skammt fram undan síldarbræðslunni, um 400 metra frá landi.

Skipið var smíðað í Newcastle í Englandi árið 1922 en gert út frá Liverpool. Það var 134 metra langt og 17,5 metra langt og rúmaði 10.000 smálestir af olíu. Að því lögðust herskip bandamanna og kaupskip til að fá olíu. Síðdegis þann 9. febrúar hafði ný sending komið með olíubirgðaskipi. Það fór strax aftur og var á burt daginn eftir.

Það var um klukkan ellefu fyrir hádegi fimmtudaginn 10. febrúar sem þrjár þýskar flugvélar dembdu sér yfir Seyðisfjörð. Þær komu nokkuð að óvörum en þó hafði tekist að koma nemendum í barnaskólanum í skjól og láta yfirmann hersins vita.

„Gerði mér enga grein fyrir alvörunni"

„Nú sáum við flugvélarnar þrjár í mikilli hæð. Þær komu úr austnorðaustri og stefndu á höfnina. Það nam engum togum að í þessum svifum hófst skothríð á þær frá olíuskipinu og byssustæðum á landi," er haft eftir Hjálmari Níelssyni í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1992.

Ég sá þegar sprengjurnar féllu. Þær voru fimm, engin þeirra hitti olíuskipið El Grillo en fjórar mjög nálægt því. Mér fannst þetta eins og í bíó. Gerði mér engra grein fyrir alvörunni, að þarna varð ég sjónarvottur að stríðsátökum þar sem mannslíf voru í veði á báða bóga,"

Hins vegar hafði boðunum ekki verið komið um borð í El Grillo. Skipstjórinn sat á spjalli við háseta í brúnni þegar lætin byrjuðu. Þeir héldu fyrst að um væri að ræða skotæfingu Bandaríkjamanna, sem búið var að boða en áttuðu sig fljótt á alvarleika málsins.

„Eftir sprengingarnar var sem ekkert gerðist drykklanga stund. Flugvélarnar hurfu á brott; það hafði orðið lítið um varnir gegn þeim enda erfitt um aðvaranir þar sem þær flugu beint af hafi inn yfir Loðmundarfjörð og Seyðisfjörð," segir í grein í Samvinnunni árið 1952.

Ein af sprengjunum hæfði hins vegar framenda skipsins og sökk hann á um tuttugu mínútum. Tæplega 50 manna áhöfn skipsins komst hratt og örugglega í land en hún hafði reynt að grípa til varna gegn flugvélunum enda skipið ágætlega vopnum búið.

Afturendinn stóð upp úr þar til Seyðfirðingar höfðu borðað kvöldmatinn. „Bæjarbúar heyrðu allmikinn dynk, er skipið hvarf í djúpið," segir í Samvinnunni. Eftir því sem næst verður komist voru það Bretar, sem áttu skipið, sem létu sökkva því, meðal annars til að forðast frekari árásir.

Olíuplágan

Mikil olía lak úr skipinu og barst víða um fjörðinn. Í Samvinnunni er talað um „olíuplágu" sem legið hafi á Seyðfirðingum í 2-3 ár á eftir. Meðal annars raskaði hún æðavarpi í Loðmundarfirði.

Seyðfirðingar vildu bætur úr höndum Breta en við því var ekki orðið. Málalyktir urðu þær að þeir afsöluðu sér skipinu og olíunni um borð til innlendra aðila.

Árið 1952 var olíu dælt úr skipinu að undirlagi Olíufélagsins. Olía hrelldi menn af og til og að auki áttu veiðarfæri báta það til að festast og skemmast í flakinu. Eins höfðu menn áhyggjur af sprengjum um borð en alls hafa um 500 sprengjur verið fjarlægðar úr því. Einni fallbyssu hefur verið lyft upp og stendur hún sem minnisvarði á Seyðisfirði í dag.

Á ný fór að leka úr skipinu um aldamótin og árið 2001 var ráðist í umfangsmiklar hreinsunaraðgerðir til að reyna að ná þeirri olíu sem eftir var úr skipinu.

Í dag er svæðið sem El Grillo liggur á sagt hreint. Vinsælt er að kafa niður að flakinu en til þess þarf nokkra reynslu enda liggur það djúpt. El Grillo nafnið kemur víða fyrir í menningu Seyðfirðinga. Bjór staðarins heitir eftir skipinu og sömuleiðis Lego-lið grunnskólans.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.