Orkumálinn 2024

„Það verða allir að passa glösin sín“

„Ég er alveg líkamlega búin að jafna mig en sálin er enn voðlega ónýt eftir þessa reynslu,“ segir Margrét Sigurðardóttir, sem var hætt komin eftir að hafa verið byrlað ólyfjan á tónlistarhátíðinni Eistnaflugi um helgina.


Í gær greindi Austurfrétt frá því að hátíðin hefði gengið vel og forsvarsmaður hennar sagði engar stórfelldar uppákomur hafa orðið. Í kjölfar fréttarinnar komu fram athugasemdir við það orðalag þar sem sú lífsreynsla sem Margrét lenti í teldist svo sannarlega stórfelld uppákoma, en hér er hluti af stöðufærslu sem hún skrifaði á Facebook-vegg sinn seinnipart mánudags;

„Nú spyr ég þig kæri brotamaður...

Hvarflaði einhverntímann að þér að ég er 4ja barna móðir með hjartasjúkdóm?

Hvarflaði einhverntímann að þér að þarna hefðir þú getað drepið mig á einu augabragði bara afþví þú settir eina pillu í glasið mitt?

Hvarflaði einhverntímann að þér að þarna hefðir þú getað skilið 4 börn eftir móðurlausa og 2 elstu foreldralaus því faðir þeirra lést fyrir 11 árum?

Hefðir þú getað lifað með því ef verr hefði farið? Ég vona svo innilega að þú sjáir þetta og gerir þetta aldrei aftur, því þú veist aldrei hvað konan er að glíma við, sem þú ákveður að setja pillu ofaní glasið hjá!“

Missti meðvitund og blóðþrýsingurinn hrundi
„Ég er sjálf búin að sækja þessa hátíð í mörg ár og aldrei upplifað neitt vesen. Það sama var í ár, allt gekk smurt fyrir sig,“ segir Margrét, en atvikið átti sér stað aðfaranótt sunnudags.

„Ég var alls ekki drukkin, var á mínum fimmta bjór frá því klukkan tvö um daginn. Maðurinn minn var með mér á hátíðinni og var með mér allan tímann. Ég man eftir því að hafa labbað út af svæðinu, en við vorum að fara heim til vinkonu minnar þar sem ég ætlaði að skipta um linsur, en það er síðasta skýra minningin sem ég á um þetta kvöld. Ég missi svo meðvitund og maðurinn minn, sem sá strax að eitthvað mikið var að, þurfti að halda á mér eins og ungabarni inn á sjúkrahús.“

Eins og segir í stöðufærslu er Margrét hjartasjúklingur og er á sterkum hjartalyfjum.

„Blóðþrýstingurinn féll harkalega niður og var hættulega lágr alla nóttina. Það átti nánast ekki að hleypa mér út morguninn eftir þar sem hann var enn í rugli, auk þess sem ég fékk hjartsláttartruflanir. Þetta hefði getað farið rosalega illa og maðurinn minn hefur aldrei orðið eins hræddur.“

Ætlar að halda áfram að sækja hátíðina
Margrét segist ekkert hafa út á hátíðina að setja. „Þetta kemur Eistnaflugi ekkert við og ég mun svo sannarlega sækja hana áfram. Þó svo einn og einn sauður sé á vappinu, þá er það bara einn hálfviti af þúsundum,“ segir Margrét en forsvarsmenn hátíðarnnar höfðu strax samband við Margréti sem sjálf tilkynnti atvikið til lögreglu eftir helgi.

„Ég fann þó að ég dauðskammaðist mín fyrir að hafa lent í þessu og það eru þau viðbrögð sem virðast koma upp, en við mig hefur haft samband fjöldi stúlkna sem segjast hafa upplifað það sama og skömm í kjölfarið. Hugsanir á borð við; Guð hvað ætli fólk haldi? Ég var þó fljót að hrista það af mér, ég hef akkúrat ekkert til að skammast mín fyrir.“

Umræðan er þörf
Skilaboð Margrétar eru skýr; Það verða allir að passa glösin sín, stelpur jafnt sem strákar. Halda fyrir þau og ekki vera að fá sopa hjá hinum og þessum. Maður er svo barnalegur að hugsa að maður lendi ekki í svona sjálfur.“

Stöðufærslu Margrétar hefur verið deilt yfir 1500 sinnum. „Vá, ég bjóst ekki við því, kannski einhverjum 50-60 deilingum. Það segir mér að umræðan sé greinilega þörf og þessi varnarorð aldrei of oft kveðin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.