Orkumálinn 2024

SMS-kerfi almannavarna prófað í Neskaupstað á morgun

Skilaboðakerfi almannavarna verður prófað í Neskaupstað milli klukkan 13 og 13:30 á morgun. Leitað er svara við hvers vegna hluti símnotenda á tilteknum stað fær í sumum tilfellum ekki skilaboð.

„Það er talið að 90-95% SMS-boða komist til skila við rýmingar. Þau eru ekki eina leiðin til að koma upplýsingum á framfæri en það er aukið öryggi í því, bæði fyrir íbúa og almannavarnir, að þau berist öllum,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Bæði þegar skriðurnar féllu á Seyðisfirði í desember 2020 og aftur nú í snjóflóðunum í Neskaupstað í mars komu fram dæmi um íbúa sem ekki fengu skilaboð sem send voru út af almannavörnum, þótt símtæki væri innan þess svæðis sem boðunum væri ætlað að ná til.

Kristján segir að eftir bæði skriðurnar og snjóflóðin hafi verið rýnt í hvers vegna boð bárust ekki en engar óyggjandi niðurstöður fengist. Kenningar hafa verið uppi um að árangurinn geti verið mismunandi eftir hjá hvaða símafyrirtæki viðtakandinn er, eða hvar hann er staðsettur þegar boðin eru send, til dæmis í kjallara húsa.

Til þessa hafa ekki legið fyrir nægilega ítarlegar upplýsingar til að hægt væri að greina betur hvað veldur því að skeytin ná ekki alla leið. Prófunin á morgun er því tilraun með markvissari hætti en áður til að komast að því hvers vegna sumir símnotendur fá boðin en aðrir ekki. Upplýsingarnar verða síðan nýttar á landinu öllu því skeytakerfið er alls staðar hið sama.

Boð verða send út á morgun milli klukkan 13:00 og 13:30 í Neskaupstað, innan póstnúmers 740. „Ástæða þess að Neskaupstaður varð fyrir valinu til prófananna er að svæðið er ágætlega afmarkað landfræðilega og íbúafjöldi hæfilegur fyrir könnun sem þessa. Að auki er þar nýafstaðið almannavarnaástand og íbúum því vel kunnugt um þá annmarka á boðunum sem verið hafa á boðunum, enda hafa þeir bent á þá. Það skiptir kannski mestu.“

Hvað á að gera?


Kristján ítrekar því að góð þátttaka skiptir máli og bæði þeir einstaklingar sem fá boð, sem þeir sem ekki fá boð, séu meðvitaðir um hvað þurfi að gera:

Þeir sem ekki fá prófunarboð í farsíma en eru innan svæðis þegar þau eru send, milli klukkan 13:00 og 13:30 á morgun miðvikudag, eru beðnir um að fara inn á sérstakan vef hjá Neyðarlínunni, 111.is/bodunartilkynning, auk þess sem hægt er að fara á samfélagsmiðla Fjarðabyggðar og lögreglu, smella þar á hlekk undir frétt um prófunina og svara þremur spurningum.

Því skiptir miklu að þeir sem fá boðin haldi því á lofti við vinnufélaga, skólafélaga og svo framvegis að þau hafi borist, þannig að þeir sem ekki fá þau í síma sína fái engu að síður upplýsingar og ábendingu um að þau hafi verið send og viðbragða frá þeim óskað.

Fyrsta spurningin sem upp kemur þegar smellt er á hlekkinn er um símanúmer viðkomandi, þá símafyrirtæki sem skipt er við og að síðustu um staðsetningu þegar boðin voru send. Til að niðurstöður verði afgerandi skiptir því nokkru að svör hvað staðsetningu varðar séu nákvæm. Ekki ætti að taka lengri tíma en mínútu eða svo að fara inn á hlekkinn og svara spurningunum.

Að tilrauninni standa Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Neyðarlínan, Fjarðabyggð og lögreglan á Austurlandi.

Mynd: Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.