Við þurfum ódýrara innanlandsflug

Innanlandsflug er eitt þeirra mála sem hvílir hvað þyngst á Austfirðingum og íbúum Norðausturkjördæmis alls og undanfarin ár hefur öflug grasrótarhreyfing vakið athygli á málefninu svo eftir hefur verið tekið.

Mér er minnisstæður fundur sem haldinn var á Egilsstöðum fyrir rúmum þremur árum þar sem greinilega kom fram hversu kostnaður við innanlandsflug er íþyngjandi fyrir íbúa og atvinnulíf á Austurlandi. Þetta á við hvort sem fólk þarf að ferðast vegna starfa sinna, til að rækta samband við fjölskyldu, taka þátt í félags- og menningarstarfi á landsvísu eða nýta opinbera þjónustu eins og sérhæfða læknisaðstoð. Þar kom meðal annars fram að kostnaður Heilbrigðisstofnunar Austurlands við flug hafði þá hækkað um 38,8%, á tæpum tveimur árum nam þá tæpum 11 milljónum á ári þrátt fyrir að stofnunin nyti hæsta afsláttar. Einnig kom fram að kostnaður aðildarfélaga UÍA nam árið 2013 tæplega 43 milljónum króna. Það er engin ástæða til að ætla að þessi kostnaður hafi minnkað með árunum.

Skoska leiðin er leiðin áfram

Núna nýverið var haldið málþing í Reykjavík þar sem farið var yfir mikilvægi innanlandsflugsins nauðsyn þess að skilgreina þær sem almenningssamgöngur. Farið var vel yfir það kerfi sem notast er við í Skotlandi þar sem íbúar á tilteknum svæðum njóta helmings afsláttar af flugfargjöldum en ríkið greiðir mismuninn. Gegn því að vera aðili að þessu kerfi gangast flugfélög undir opinbert verðlagseftirlit. Skoska leiðin mun ekki leysa öll vandamál sem Austurland glímir við vegna fjarlægðar frá
höfuðborgarsvæðinu. Hún getur hins vegar verið mikilvægt skref í þá átt að jafna búsetuskilyrði í landinu.

Þetta er sanngirnismál sem ég vil berjast fyrir inni á Alþingi. Til þess þarf ég ykkar stuðning og bið ykkur að setja X við B.

Höfundur skipar 2. sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.