Vi er unge, vi er klar

gunnarg_web.jpgEitt það athyglisverðasta við nýja ríkisstjórn Danmerkur er yngsti ráðherrann. Thor Möger Pedersen er 26 ára, ráðherra skattamála og varaformaður Sósíalísa þjóðarflokksins. Ríkisstjórnin, undir forsæti Helle Thorning-Schmidt boðar meðal annars breytingar á dönsku efnahagslíf og græna atvinnusköpun sem lausn við núverandi efnahagsvanda.

 

Fyrir rúmu ári var ég í viðtali hjá dönskum/grænlenskum blaðamanni. Sá var að vinna grein um íslenskt stjórnmálaástand og þátttöku ungs fólks í stjórnmálunum. Hann spurði mig um hana og hafði sérstakan áhuga á breytingum eftir hrunið og kosningunum 2009.

 

Ég var hróðugur þegar ég sagði honum frá tveimur af yngstu forsetum bæjarstjórna á landinu í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Þau voru bæði um þrítugt, hafði verið treyst fyrir að leiða sína lista og unnið nokkuð glæsta sigra þar sem listar þeirra bættu við sig mönnum og komust í meirihluta.

 

Blaðamanninum fannst þetta ekki jafn merkilegt og mér. Hann sagði mér frá yngsta bæjarstjóra Danmerkur sem var rétt kominn yfir tvítugt. Spurði síðan hvar unga fólkið væri á Alþingi. Hvar mín kynslóð hefði verið í þingkosningunum árið áður. Hver hefði í raun verið endurnýjunin á þingi. Ekkert hald var í þeim hálmstráum sem ég reyndi að grípa í til að svara honum.

 

Orð hans rifjast upp fyrir mér þegar ég hef fylgst með „fjörinu“ við þingsetninguna og myndun nýju dönsku ríkisstjórnarinnar. Í dag gæti ég svarað spurningum hans um síðustu þingkosningar. Endurnýjunin á Alþingi 2009 fólst í mannabreytingum, ekki kynslóðaskiptum.

 

Inn fór fólk á milli fertugs og fimmtugs, jafnvel sextugt og yfir. Og strákur vestan úr Dölum nýlega búinn með búvísindaprófið. Þótt þetta fólk væri í fyrsta sinn aðalmenn á þingi var það með langan feril í stjórnmálum að baki. Forsetar bæjarstjórna, varaþingmenn, fólk sem hafði tekið þátt í flokksstarfinu árum, áratugum saman. Kosið og unnið með þeim sem hrökklast höfðu frá.

 

„Mesta endurnýjun í sögu Alþingis.“ Della.

 

Elsti þingmaðurinn forsætisráðherra. Nýjar hugmyndir? Ný vinnubrögð?

 

Sama svekkelsið.

 

Ég ætla ekki að halda því fram að þetta fólk búi ekki yfir reynslu. Að það eigi einfaldlega að henda út hinum eldri og skipta inn á hinum yngri. Alls ekki.

 

En við, þessi ungu, höfum ennþá trú á að við vitum allt. Að við getum breytt heiminum því við höfum ekki rekist á allar hindranirnar enn. Að við höfum eitthvað nýtt fram að færa sem ekki hefur enn verið reynt. Við erum bara ekki í stöðunni til þess. Við erum ekki við völd.

 

68 kynslóðin reis upp gegn foreldrum sínum. Hún reis upp gegn kerfinu og kom í gegn mörgum þörfum breytingum. Síðan hefur kynslóðin elst, orðið íhaldssöm. Hún kom sér fyrir í þægindum og varð værukær.

 

En hún ræður enn. Hvort sem er fyrir framan eða bakvið tjöldin. Í gegnum börnin sín „ungu þingmennina.“ Kannski er rétt að fara að lyfta þeim byrðum af henni.

 

Dæmin frá Danmörku sýna ungt fólk sem þorir að taka ábyrgð og er treyst fyrir ábyrgð. Við, þessi ungu á Íslandi, þorum líka að taka ábyrgð. Við eigum að taka ábyrgð. Við getum breytt heiminum. Að minnsta kosti sorglegu stjórnmálaástandi. Það er komið að okkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.