Um fjölmiðla, stjórnmálamenn og óvenjulega ósvífni

stefan_bogi.jpgÁ bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð í liðinni viku skýrði Valdimar Hermannsson, bæjarfulltrúi og formaður SSA, frá því að athugasemdir hefðu verið gerðar af hálfu austfirskra sveitarstjórnamanna við fréttaflutning RÚV. Óskað hefði verið eftir því að tekið yrði jákvæðara sjónarhorn á fréttir en verið hefði og einnig hefði fjölmiðlum verið sendur listi af áhugaverðu efni sem verðskuldaði umfjöllun. Síðan þá geta austfirskir sveitarstjórnarmenn varla kvartað yfir skorti á athygli. 

 

Fréttastjóri RÚV hefur tjáð sig um málið í umfjöllun agl.is og eyjan.is. Pistill sem Esther Ösp Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð skrifaði kollegum sínum í sveitarstjórnum Austurlands til háðungar hefur ratað víða og er birtur í heild sinni á vefnum herdubreid.is. Sigmar Guðmundsson ritstjóri Kastljóss deildi greininni á síðu sinni á Facebook-vefnum og forveri hans í starfi, Þórhallur Gunnarsson gaf merki um að honum líkaði efni greinarinnar. Ekkert af þessu þarf að koma á óvart í ljósi þess að málið snýst um uppáhalds umfjöllunarefni íslenskra fjölmiðla, sem eru einmitt íslenskir fjölmiðlar.

Skipað gæti ég væri mér hlýtt


En af hverju þessi hörðu viðbrögð fjölmiðlastéttarinnar? Ég hef fullan skilning á mikilvægi þess að verja sjálfstæði fjölmiðla. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í gangverki lýðræðisins, eins og þeir þreytast reyndar ekki sjálfir á að benda okkur á. Þegar mikið liggur til eru fjölmiðlar kallaðir fjórða valdið, í samhengi við framkvæmda-, löggjafar- og dómsvaldið. En öllu valdi verður að fylgja ábyrgð og aðhald og valdhafar verða að þola gagnrýni. Mér þykja viðbrögð fjölmiðlamanna benda til þess að sú skoðun sé við lýði að fjölmiðlamenn séu eina stétt þessa lands sem sé hafin yfir gagnrýni og ábendingar.

Þá finnst mér merkilegt að Óðinn Jónsson segir á agl.is annars vegar að það sé óvenjuleg ósvífni að halda að RÚV taki við leiðbeiningum frá nokkrum manni en hins vegar að fréttamenn fái ýmsar ábendingar um efni. Er það þá svo að austfirskir sveitarstjórnarmenn eru þeir einu sem RÚV tekur ekki við ábendingum frá? Í allri þessari umræðu er mikilvægt að hafa í huga að austfirskir sveitarstjórnarmenn hafa nákvæmlega ekkert meira vald yfir starfsmönnum RÚV en aðrir íbúar hér í fjórðungnum. Það vita nefnilega allir að RÚV er stjórnað frá Reykjavík. Svo mikið er orðið sorglega ljóst eftir ákvarðanir þeirra sem snúa að starfsstöð RÚV hér á Austurlandi, niðurlagningu svæðisútsendinga og fækkun starfa.

Ég held að Óðinn Jónsson mætti líta örlítið í eigin barm áður en hann fer að tjá sig meira um óvanalega ósvífni. Hann eins og aðrir fjölmiðlamenn þurfa að þola það að vera gagnrýndir og að vera tilbúnir að taka ábendingum. Það er a.m.k. alveg ljóst að einn starfsmaður á erfitt með að komast yfir að vita allt um allt sem fréttnæmt er hér eystra.

Jákvæðni og neikvæðni

Það verður að viðurkenna að það er erfitt að meta hvenær frétt er jákvæð og hvenær neikvæð. Frumskylda fjölmiðla er að segja fréttir og eiga ekki að breyta þeim einum eða neinum til hægðar. En það að segja fréttir felur líka í sér ákveðna skyldu til að gæta hlutlægni og jafnvægis. Vandinn er sá að þegar búið er að skera niður starfsemi fjölmiðla hér í fjórðungnum með þeim hætti sem gert hefur verið þá getur verið erfitt að uppfylla þessa skyldu, þ.e. að segja frá málum þannig að allar hliðar þess komi fram. Og því miður hefur maður á tilfiningunni að í samkeppninni þá séu það neikvæðustu fréttirnar sem hafi vinninginn. Því dekkri mynd sem dregin er upp, þeim mun líklegra sé að fréttin fáist birt og sé lesin. Þetta er miður og þetta er það sem verið er að gagnrýna.

Það er alvarlegt mál fyrir fjórðunginn í heild ef framsetning frétta er með neikvæðari hætti en tilefni er til og það er beinlínis hlutverk sveitarstjórnarmanna að vekja athygli á því ef svo er. Með ákalli um jákvæðari sýn fjölmiðla er verið að gera þá kröfu að allar hliðar máls fái að njóta sín í umfjöllun, ekki bara sú sem söluvænlegust er.

Fyrirgefningin

Ég geri mér grein fyrir því að það eru ekki allir sammála mér um þetta allt saman. Um það vitnar best greinin sem Esther Ösp Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi ritaði á bloggsíðu sína og ég vitnaði til hér að framan. Þar færir hún fram ýmis sjónarmið sem eiga fullan rétt á sér. En sumt annað sem hún skrifar kallar á viðbrögð. Það er í fyrsta lagi gjörsamlega óskiljanlegt hvernig bæjarfulltrúinn getur gefið sér það að þessi umræða sé öll í boði stjórnar SSA.

Það er nákvæmlega ekkert sem gefur tilefni til þess og ástæða til þess að spyrja hvað Esther gengur eiginlega til með þessu? Í framhaldinu telur hún sig þess umkomna að væna stjórnarmenn um sofandahátt, kaffiþamb, eða þaðan af verra, og tekur að sér að fyrirgefa okkur misgjörðir okkar.

Tónninn í þessum skrifum er þess eðlis að ég hef hálfpartinn ekki geð í mér til að svara þessu. Það hefur vitaskuld enginn listi verið samþykktur á fundum stjórnar SSA, en þar eru málefni fjölmiðla á Austurlandi rædd eins og önnur sameiginleg hagsmunamál. Ég hef sjálfur rætt við fjölmiðlamenn, bæði til að hrósa, gagnrýna og benda á skemmtileg umfjöllunarefni. Því ætla ég ekki að hætta, ég tel það hluta af starfi mínu sem sveitarstjórnarmaður.

Hvað varðar fyrirgefningu Estherar er þetta að segja: Ég þigg mína fyrirgefningu frá Jesú Kristi, ekki bæjarfulltrúum í Fjarðabyggð. Er þá alveg sama hversu merkilega þeir telja sjálfa sig vera.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.