Út af með dómarann

gunnarg_web.jpgHæstiréttur staðfesti nýverið dóm héraðsdóms yfir Árna Mathiesen um að hann hefði brotið lög þegar hann skipaði Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara á Norðurlandi eystra og Austurlandi í byrjun árs 2008 og umsækjanda um embættið voru dæmdar bætur. En er hann sá sem raunverulega ætti að fá bætur? Er það ekki almenningur á dómssvæðinu sem verðskuldar hinar raunverulegu bætur?

 

Ég var langt í frá sá eini sem setti stór spurningamerki við skipan Þorsteins í embættið á sínum tíma. Ég var líka uggandi sem íbúi á seinna svæðinu. Fljótlega var Austurlandsumdæmið undanþegið þjónustu hans.

Nú hafa sem sagt íslensku dómsstigin tvö komist að þeirri niðurstöðu að skipunin hafi verið ólögmæt og gengið hafi verið fram hjá hæfari umsækjendum. Þeim sem höfðaði málið eru dæmdar miskabætur. Ég reikna með að hann sé enn í starfi sem lögmaður og vona að hann hafi það gott þar.

Eftir stendur að íbúar á Norðurlandi eystra efast um hæfi dómarans sem þeir sitja uppi með og og sérfræðingar segja að hafi alls ekki verið hæfastur.

Fólkið þar þarf að leita réttarins við úrlausn sinna mála. Miðað við dóminn í dag virðist ekki öruggt að það geti treyst á að fá bestu hugsanlegu úrlausn sinna mála. Traustið á héraðsdómi er verulega skaddað.

Almenningur sér dóm um að maðurinn hafi ekki verið hæfastur. Þá spyrja menn hvort þetta hafi verið pólitík? Dómarinn er sonur fyrrum forsætisráðherra, var aðstoðarmaður ráðherra, sem er pólitísk staða og valinn í starfið fyrir þá reynslu af settum ráðherra. Allt úr sama flokknum. Almenningur veit ekki hvaðan á hann stendur veðrið og á erfitt með annað en að efast um hlutleysi dómarans. Þessi efi og þetta vantraust yfirfærist síðan yfir á dómstólinn og dómstólakerfið í heild sinni.

Hátíðarræður um þrískiptingu ríkisvaldsins og sjálfstæði dómstóla eru ekki nóg. Þeim þarf að fylgja eftir með skipunum sem erfitt er að draga í vafa.

Af þeim ástæðum sem fyrr hafa verið taldar er mjög einfalt að efast um að fyrrnefnd skipun hafi verið sú besta sem völ var á. Af sömu ástæðum er auðvelt að draga sjálfstæði dómstóla og þrískiptingu íslenska ríkisvaldsins í efa. Það mun taka dómskerfið, sem sjaldan hefur verið undir jafn miklu álagi og ásökunum og nú, tíma og erfiði að ávinna sér traustið sem glatast hefur. Traustið sem ráðherra ríkisstjórnar Íslands ákvað að það væri í lagi að kasta á glæ.

Miskabætur fólksins eru engar. Þorsteinn Davíðsson verður áfram dómari. Ráðherrann sem framdi verknaðinn skilur sjóð þjóðarinnar eftir með tjónið. Bæði hinar dæmdu miskabætur sem er beint fjárhagslegt tjón og svo hitt tjónið sem felst í löskuðu dómskerfi. Það er varla hægt að meta til fjár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.