Stærsta gjöfin er í samverunni, kærleikanum, nærverunni og gleðinni

Erla Björk Jónsdóttir, starfandi héraðsprestur Austurlandsprófastsdæmis, skrifaði hugleiðingu í jólablað Austurgluggans sem gefið var út í síðustu viku. Vel er við hæfi að birta hann hér, nú þegar aðeins þrír dagar eru til jóla. 

 

 

Himneskt ljós lýsir ský.

Það eru að koma jól.

Enn á ný.


Í eftirvæntingu komandi hátíðar kveikjum við loga aðventukertanna og nemum ljósið sem birtir upp skammdegi okkar sem búum í landi náttmyrkranna. Gleðin kviknar innra með okkur og fær okkur til þess að standa þéttar saman sem heild, styðja við og styrkja hvert við annað. Við finnum birtuna frá heilögum jólum fram undan – minnumst spádómsins fyrir fæðingu þess sem færði okkur hugsjón friðarins, minnti okkur á mikilvægi kærleikans og heldur okkur í meðvitund um það ljós sem hvert mannsbarn sannarlega á tilhlutan í. Við heyrum dýrðarsönginn eins og fjárhirðarnir forðum. Finnum kærleikann streyma frá litla barninu. Barninu sem breytti heimssögunni meir en nokkur, eða nokkuð annað.

Börnin eru ljós desembermánaðar. Þau bíða spennt eftir því jafnt sem við fullorðna fólkið að hengja ljós í gluggana. Sjá jólaljósin lýsa upp skammdegið. Finna ilm af greni og bíða komu jólasveina og gjafanna. Við skreytum heimilin okkar, bökum smákökur með fjölskyldunni, sumir skera laufabrauð eftir gamalli hefð, syngja, brosa og finna fyrir gleðinni sem lífið getur boðið upp á.

Jólin búa í hjörtum okkar og geta bæði verið gleðitími og álagstími. Þau geta verið mörgum þungbær alveg eins og þau eru sumum gleðileg. Áföll og sorgir marka upplifanir okkar á jólahátíðinni sem er þrungin tilfinningum, minningum og hefðum. Dagarnir eru oftar en ekki þéttskipaðir og við göngum í skyldur og verk jólanna. Þjónum þörfum og kröfum samfélags sem hefur upp á allt að bjóða. Getum það flest en þó ekki öll.

Í langan tíma hefur sú staða verið uppi í samfélagi okkar Íslendinga að jólamánuðurinn er 15 sinnum meiri úthlutunarmánuður á stuðningi við minni máttar en aðra mánuði ársins. Við finnum þörfina til þess að nálgast hvert annað af kærleika og verðum meðvitaðari um neyð og þörf þeirra sem þurfa á hjálp að halda. Allt er það gott og gilt en auðvitað væri það óskandi að ljós og friður helgrar hátíðar tengdist hugarfarinu meira allt árið um kring.

Kærleikshugsjónin er svo margþætt og sú sem kristin trú boðar okkur er viðleitni okkar til þess að bregðast við sársauka, sorg og þjáningu. Að finna fyrir góðvild, hluttekningu, örlæti og sátt. Hún hvetur okkur til þess að efla hæfileikann til þess að setja okkur í spor annarra og finna til samkenndar með öðrum.

Það langar jú alla að eiga gleðileg jól. Öll viljum við finna fyrir frið innra með okkur. Njóta blessunar og hamingju.

Sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson, sóknarprestur á Norðfirði, orti þessa fallegu jólakveðju:

Þegar Kristur kemur,

þú kýst þér ekkert fremur:

“Minn Kristur kom þú inn.”

Og ljósið hans mun lýsa,

þig langar hann að hýsa:

“Já, vertu velkominn.”

Hann mun þér fögnuð færa,

Hans friður andans næra,

því hátíð helg svo er.

Hann vill þér vaka yfir,

og vissan um hann lifir:

“Æ dvel þú áfram hér.”

Leyfum Jesúbarninu að búa í hjörtum okkar um jólin og endurspeglum kærleika hátíðarinnar með því að vinna í kærleika. Við erum kölluð til góðra verka. Jesús þakkar okkur að lýsa áfram ljósi sínu í verkum okkar og umvefur okkur von með leiðsögn sinni og eilífri nærveru. Gleymum því ekki að jólin búa innra með okkur sjálfum. Leitumst við að finna þau þar en ekki í amstri og streitu veraldlegra hluta. Stærsta gjöfin er gefin í samverunni, kærleikanum, nærverunni og gleðinni.

Megi jólin verða öllum blessunarrík og góð. Gleðilega hátíð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.