"Sorgin er nógu einmanaleg fyrir..."

„Jæja, þetta er nú að verða gott. Það varð enn eitt dauðsfallið hérna í gær,“ sagði mamma við mig þegar hún hringdi gersamlega miður sín frá Stöðvarfirði um daginn. 



Verulega hefur verið hoggið í mitt litla, gamla og fallega samfélag að undanförnu en Mæja frænka var sú þriðja í röðinni síðan í vor. Fór að heiman í sína uppáhaldsiðju, berjamó, en komst ekki alla leið því hún varð bráðkvödd við bíl sinn.

„Það er allt gersamlega lamað. Ég hef aldrei séð svona. Fólk stendur í litlum hópum og talar saman í lágum hljóðum. Það trúir þessu enginn, þetta er of mikið,“ sagði móðir mín.

Sjálf hitti ég Mæju í síðustu jarðarför á Stöðvarfirði en þar bað hún mig að koma til sín næst þegar ég væri á ferðinni því hún væri með allskonar „góss“ handa mér sem hefði komið í ljós þegar hún fór gegnum dánarbú gamallar frænku okkar. Ég sagði að það væri auðsótt mál, ég kæmi næst, kyssti hana og fór heim. Ekkert verður úr þessu „næsta skipti“, það er of seint. 

Vegna sérstakra aðstæðna átti ég því miður ekki heimangengt í jarðarförina. Það þótti mér virkilega leiðinlegt en í staðinn hringdi ég í sr. Gunnlaug Stefánsson, sóknarprest á Heydölum í Breiðdal, og bað hann um að bera kveðju mína. 

Gunnlaugur hefur þjónað sóknarbörnum í 30 ár, allt frá því ég var 10 ára gömul og man ég því ekki eftir öðrum presti. Við lentum því á spjalli eins og oft áður. Ég fór að segja honum frá upplifun mömmu á viðbrögðum samfélagsins við síendurteknum áföllum. 

„Já. Það er gefandi að finna hve mikil breyting hefur orðið á viðbrögðum fólks í sorg við missi frá því að ég hóf störf fyrir 30 árum síðan. Nú ræðir fólk opinskátt saman um tilfinningar sínar og hugsanir meðan áður var tilhneigingin til að loka sig af og reyna að taka á erfiðum hugsunum einn og á hnefanum,“ sagði Gunnlaugur. 

Nú er ég hvorki sálfræðingur né sérfræðingur í sorg og sorgarviðbrögðum. Hins vegar hef ég gengið í gegnum mikla sorg við að missa frá mér ástvini, bæði í gröfina og á annan hátt, sem er lítið eða ekkert betra. Ég hef ekki sérstaklega hugsað um hve takturinn í samfélaginu hefur breyst síðastliðin ár en áttaði mig á því í samtali okkar Gunnlaugs. 

Ég man alveg eftir því þegar ég var yngri og áföll dundu á í kringum mig. Þá átti að láta ástvini í friði og leyfa þeim að syrgja. Ekki vera að hringja og hvað þá síður að „abbast upp á þá“ með heimsóknum eða öðrum fígúrugangi. 

Sorgin er nógu einmanaleg fyrir, þó fólk einangri sig ekki líka. Vinir og fjölskylda hjálpa heilmikið með því að gefa sér tíma með syrgjanda. Huggunarorð er kannski ekki endilega það sem þarf, heldur að syrgjandi finni að við erum til taks á erfiðum tímum. Bara það að fá hjálp við að takast á við hversdagslífið, eins og að þrífa, versla og passa börnin, það hjálpar. Líka bara að vera. 

Auðvitað er þetta alltaf einstaklingsbundið. En, við erum á réttri leið. Sem er gott. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.