Slíðrið sverðin, Austlendingar!

villhjalmur_einarsson.jpgFyrir nokkrum árum bar fundi okkar Steigríms fjármálaráðherra saman í heita pottinum á Egilsstöðum. Hann, hress að vanda, segir: „Þið eruð nú búnir, Austfirðingar, að afþakka öll jarðgöng!“ Ég vildi vita hvað hann ætti við og það stóð ekki á útskýringunni: „Nú, á meðan þið rífist eins og hundar um það hvar eigi að bora, fáið þið ekki neitt.“

Er sagan nú að endurtaka sig, hvað varðar þjóðveg eitt og Öxi? Vonandi ekki, og í þeirri von að samstaða geti náðst eru þessi orð sett á blað.

 

Breiðdalsvík, Stöðvarfjörður og Fáskrúðsfjörður eru meðal alfegurstu staða sem væru við þjóðveg eitt ef hann lægi þar um. Þeim sem ekki vilja fara útaf malbiki með fína bíla sína, svo og innlendum og erlendum ferðamönnum, sem ekkert liggur á, má mjög gjarna beina þessa undurfögru leið, um Suðurfirðina. Þetta yrði lyftistöng fyrir þá menningarstarfsemi og þjónustu, sem þar er að finna og þeir yrðu áreiðanlega ekki margir, sem hörmuðu þá lengingu hringvegar sem slík breyting hefði í för með sér.

Góður, uppbyggður vegur yfir Öxi er líka mikið hagsmunamál, ekki aðeins fyrir Héraðsbúa. Sá vegur þyrfti ekki að vera með bundnu slitlagi því þeir, sem notuðu sér styttinguna, hafa fram að þessu ekki vílað fyrir sér að fara Öxarveg eins og hann er nú. Góður, malarvegur er auk þess öruggari en vegur með bundnu slitlagi í hálku á vetrum. Þetta veit eg af eigin reynslu úr Hvalfirðinum undir Þyrli, þegar „rúgbrauðið“ mitt fauk til hliðar og hefði runnið niður í sjó ef ekki hefði verið malarröst í kantinum. Þar hygg eg að mölin hafi bjargað lífi mínu og fjölskyldunnar.

Við þurfum enga hraðbraut um Öxi, heldur traustan veg, lausan við snarbrattar brekkur, blindhæðir og lykkjur. Slíkur vegur myndi ugglaust spara tíma og minnka ferðakostnað bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Og talandi um öryggi: gæti fjarðaleiðin ekki teppst til dæms af skriðuföllum, og væri þá ekki traustur vegur um Öxi góð varaleið?

Sá, sem þetta ritar hefur alltaf litið á sig sem „Austlending“, enda fæddur í Fáskrúðsfjarðarhreppi, sleit barnsskónum á Reyðarfirði (og að nokkru á Seyðisfirði) og var orðinn 11 ára þegar flutt var í Egilsstaði.

Austlendingar! Stöndum nú saman: Styðjum allir færslu hringvegarins en leggjum jafnframt sameiginlega allt kapp á að gerður verði sem fyrst góður vegur um Öxi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.