Rokkarnir eru þagnaðir ...

Þótt ekki sé haft hátt um pólitík þessa dagana er öllum ljóst að það verða sveitarstjórnarkosningar í vor. Nokkrir valinkunnir pólitíkusar hafa tilkynnt að þeir gefi kosta á sér til að leiða lista síns félags, en enginn hefur lýst vilja sínum til að vera í öðrum sætum.
Öðru vísi er farið með fjóra efstu menn Fjarðalistans, sem er vettvangur félagshyggjufólks í Fjarðabyggð og á núna fjóra menn í bæjarstjórn og myndar meirihluta með Framsóknarflokknum. Að sögn Austurgluggans og svæðisútvarpsins sáluga haf þeir allir tilkynnt að þeir gefi ekki kost á sér á framboðslista í vor. Það eru ekki góðar fréttir að allir bæjarfulltrúarnir skuli hætta samtímis. En hvað veldur? Getur verið að vinnuálag á þá sem sinna sveitarstjórnarmálum í minni sveitarfélögum sé svo mikið eða menn svo önnum kafnir við störf sín að ekki gefst tími til að sinna félagsmálum, eða eru þeir illa skipulagðir? Nei málið er að sveitarstjórnarstörf fara engan veginn saman við vinnu almennra launþega, sveitarstjórnarstörfin virðast því aðeins vera fyrir betur setta, ríkt fólk, sem getur haft þessi störf sem hobbý.

 

elma_gudmundsdottir.jpgBæjarfulltrúar á launum

Það er mikil vinna að vera í sveitarstjórn, það er að segja ef menn sinna störfum sínum af alúð. Það er nefnilega löngu liðin tíð að störf í sveitarstjórnum séu það lítil að það megi sinna þeim með annarri hendi. Það var svoleiðis og þótti nokkur heiður að vera í sveitarstjórn. En það var. Í dag fer ekki saman að sinna þessum störfum og vera í fullri vinnu, reka heimili, sinna börnum og vera með áhugamál. Sólarhringurinn endist ekki fyrir þetta allt og hvað þá allir daga ársins í fjögur ár.
Ég hef reynslu af margvíslegum félagsstörfum og tel að störf að sveitarstjórnarmálum í dag eigi að vera launuð. Ég held að það megi hagræða svo í rekstri Fjarðabyggðar svo dæmi sé tekið, að hægt verði að hafa kjörna bæjarfulltrúa á launum. Og ef ekki á fullum launum þá hálfum.

Fækkum bæjarfulltrúum

Og af hverju held ég það? Jú ég tel að það megi fækka bæjarfulltrúum úr 9 í 7, helst vildi ég hafa þá 5. Það má stórlega fækka silkihúfunum í embættisstörfum sveitarfélagsins og það á að ráða næsta bæjarstjóra á til dæmis sambærilegum launum og alþingismenn hafa. Ekki frían bíl, ekki frítt húsnæði, ekki frían síma og engar aukaþóknanir. Og umfram allt það á að ráða heimamann til starfsins. Mann sem þekkir til svæðisins er i góðum tengslum við íbúana, þekkir sem sagt sína heimabyggð. En miðað við afgreiðslu margra mála tel ég að núverandi bæjarfulltrúar og ráðin bæjarstýra sé úr öllum tengslum við íbúa Fjarðabyggðar.

Úr tengslum við íbúa sveitarfélagsins

Það má vel vera að til starfsins fáist enginn sem mun sætta sig við framantalið enda eru þetta bara hugrenningar íbúa sveitarfélagsins. Íbúa sem hefur áhyggjur af sundrung innan sveitarfélagsins, íbúa sem vill sínu sveitarfélagi alls hins besta, íbúa sem þekkir vel til og veit að þessum hugrenningum deilir hann með fjölmörgum íbúum Fjarðabyggðar.
Það hafa verið gerð mörg mistök við stjórnun Fjaraðbyggðar. Mistök sem erfitt verður að leiðrétta og kannski ekki hægt. En það má reyna. Ég óttast ekki að nýtt fólk sem gefur kost á sér í sveitarstjórn muni gera sitt besta en ég harma jafnframt að hluti þess fólks sem hefur verið í forsvari fyrir sveitarfélagið um árabil, gefi ekki kost á sér til starfans.
Ég skil vel sjónarmið margra þeirra sem segja að í starfið fari alltof mikill tími, tími sem annars hefði farið í fjölskylduna. En mér finnst líka að þeir sem hafa gefið kost á sér til þessara ábyrgðarstarfa megi ekki gefast upp eftir eitt kjörtímabil eða svo.

Erum við ekki svaraverð?

Áslaug Lárusdóttir spyr bæjarfulltrúana í  ágætri grein sem kom í Austurglugganum og Fréttablaðinu nokkurra spurninga. Engin svör hafa fengist frá bæjarfulltrúunum, ekki eitt einasta. Þess vegna spyr ég erum við ekki svaraverð? Hagsmundasamtök Norðfjarðar og Eskifjarðar hafa verið stofnuð og það ekki að ástæðulausu. Samtökin eru stofnuð til að hafa áhrif á bæjarfulltrúana til að koma áfram góðum hugleiknum málum. Því miður hefur ekki verið á þau hlustað.

Koma og fara

Brotthvarf Smára Geirssonar úr sveitarstjórnarmálunum er ekki aðeins missir fyrir Fjarðabyggð, heldur allt sveitarstjórnarstigið. Hann hefur verið frumkvöðull nánast allra góðra mála fyrir Austurland og reyndar landsins alls. En er ekki sagt að það komi maður í manns stað? Það er eðli kjörinna fulltrúa að koma og fara. Það er víst en það verður vandfundinn sá maður sem kemur í stað Smára Geirssonar.

Höfum áhrif

Leggjum okkar af mörkum til betri byggðar og á þeim málefnum sem varða sveitarfélagið okkar. Við viljum ekki misvitra stjórnendur sem láta allt annað en hagsmuni fólksins í sveitarfélaginu ganga fyrir. Ég skora á allt félagshyggjufólk í Fjarðabyggða að sameinast um að bjóða fram öflugan lista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Velja til þess duglegt og hæfileikaríkt fólk af báðum kynjum og öllum aldri, það er nóg af því í Fjarðabyggð. Jafnfram vil ég að listinn bjóði fram bæjarstjóraefni og listinn hafi það að markmiði að bæjarfulltrúarnir hvort sem þeir verða 5 eða 7, verði launaðir. Þó breytingar verði á liði Fjarðalistans og gott fólk hverfi af braut þýðir það ekki að rokkarnir séu þagnaðir.

Elma Guðmundsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.