Ríkisútvarp allra landsmanna

Jónína Rós GuðmundsdóttirMikið hefur verið rætt og skrifað um fyrirhugaðar sparnaðarleiðir útvarpsstjóra.  Þær eru eðli málsins samkvæmt umdeildar og erfiðar, uppsagnir fjölda reyndra starfsmanna um allt land valda usla og í raun sorgarviðbrögðum ekki síst á minni stöðum þar sem hvert starf er svo mikilvægt.

 

Þegar lög um Rúv eru skoðuð til að finna eiginleg markmið starfseminnar má sjá:

Í 3.gr. laga um Ríkisútvarpið segir að hlutverk Ríkisútvarpsins ohf. sé rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu og svo er það skilgreint frekar í 13 liðum:
 

   1. Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
   2. Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um    kring. Enn fremur að birta valda hluta efnis síns, breytta eða óbreytta, ásamt öðru þjónustuefni í breyttu eða óbreyttu formi með öðrum miðlum, þ.m.t. að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.
   3. Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni.
   4. Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.
   5. Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
   6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.
   7. Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.
   8. Að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs.
   9. Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.
   10. Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins.
   11. Að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps.
   12. Að eiga eða leigja, sem og að reka, hvers konar búnað og eignir, þar á meðal tæknibúnað og fasteignir sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi félagsins.
   13. Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.

Í þessarri markmiðsgrein kemur greinilega fram að lögum samkvæmt á að vera aðstaða til útvarpsútsendinga og dagskrárgerðar utan höfuðborgarinnar og að flytja á fréttir af Íslandi öllu og búa til þætti þar sem sérstaða landshluta endurspeglast.

Þessi markmið verður að halda fast í um leið og við stöndum föst í fætur og viðurkennum þörfina fyrir niðurskurð og sparnað, meiri hjá RÚV en í velferðar- og menntakerfinu.

Alvöru hagræðing í samræmi við markmið stofnunarinnar er það sem landsmenn eiga að fara fram á og veita aðhald við framkvæmd á.

Ég vil sjá tölur sem sýna mér að lokun svæðisstöðva og það að hætta svæðisbundnum útsendingum spari í raun það sem um er talað – er tekið tillit til auglýsingatekna, nýtingar á skuldlausum tæknibúnaði og fleiri slíkra atriða?

Fáum við faglega, skriflega útfærslu á því hvernig, hvenær og hversu mikið á að flytja fréttir og þætti frá stöðum utan Suðvesturhornsins og fáum við yfirlýsingu um breytta skipan þegar úr kútnum réttist?

Þannig verðum við að vinna úr erfiðri stöðu á niðurskurðartímum – muna að ástandið er tímabundið og aldrei gleyma því að Ísland er stórt, dreifbýlt land með búsetu um allt land – og það er einmitt það sem gerir það spennandi búsetukost – við þurfum öll að fylgjast með hvað er að gerast á öllu Íslandi – þar gegnir RÚV lykilhlutverki.

Jónína Rós Guðmundsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.