Náttúruspjöll á Eskifirði

Nú er nýlokið framkvæmdum við Hlíðarendaá hér á Eskifirði. Þær hófust í júlí 2015. Þarna var reistur stór og mikill steypuveggur ofarlega og margra metra há grjóthleðsla á löngu svæði neðar. Áin var sakleysislegur lækur sem elstu menn muna ekki til að hafi farið yfir bakka sína. Nefni til gamans að nýlega hefur krakki misst rauða fötu þarna niður og þangað kemst enginn nema vera með útbúnað til klettaklifurs.


Ég sendi fyrirspurn til Umhverfisráðuneytis um hvort þeir hefðu ekkert að segja um náttúruspjöll í þéttbýli. Fékk það svar að svo væri ekki,málin alfarið í höndum sveitastjórna.Undirritað af Hafsteini Pálssyni. Hissa varð ég þegar ég las stuttu seinna í blaði að Hafsteinn hefði verið hér á fundi þar sem lögð voru á ráðin um framkvæmdir i Ljósá, sem er næsti fallegi lækur hér í útbænum.

Mun standa til að reisa þar tvo steypuveggi og grjóthleðslur líka þeim í Hlíðarendaá. Líklegt má telja að þessar framkvæmdir kosti háar fjárhæðir, að hluta greiddar af bæjarsjóði. Hönnuðir og verktakar eru ugglaust fegnir þeim tekjum sem þarna koma í þeirra hlut.

Verra en kostnaðurinn er þó sá skaði sem unninn er á umhverfinu, fallegir lækir hverfa fyrir manngerðum þróm og jafnframt er mokað hlössum af uppgreftri í fjörurnar.En þetta tvennt ,lækir og fjörur, eru hvað mesta prýði staða eins og Eskifjarðar. Vil ég mælast eindregið til að Ljósá verði látin í friði,og sömuleiðis Mjóeyrarvík þar sem uppi eru hugmyndir um húsgrunna og bílastæði.

Frá framkvæmdum við Hlíðarendaá. Mynd: Krstinn Þór Jónasson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar