Mottumars

Marsmánuðurinn er tileinkaður árvekni um karla og krabbamein. Bleiki litur októbermánaðar hefur alltaf verið meira áberandi en nú sem aldrei fyrr er þörf á mála bæinn bláann.

Tölfræðin á Íslandi varðandi greiningu krabbameina er að 1 af hverjum 3 karlmönnum greinist með krabbamein einhvern tíman á lífsleiðinni. Nú greinast árlega um 940 karlmenn á ári með krabbamein. Í lok ársins 2022 voru á lífi 7.900 karlar sem hafa fengið krabbamein. Tölfræðin er ekki falleg því spár gera ráð fyrir að krabbameinstilfellum fjölgi um 50% til ársins 2040 en á móti á þeim sem lifa það af að greinast með krabbamein eftir að fjölga um 10.000 á þessum árum svo getum gert ráð fyrir að árið 2040 verði um 18.000 karlar á lífi sem greinast hafa með krabbamein.

Rannsóknir hafa sýnt að hreyfing dregur úr líkum á ákveðnum krabbameinum sem og mörgum öðrum sjúkdómum. Regluleg hreyfing hefur einnig jákvæð áhrif á fólk sem greinist með krabbamein. Bæði virðast þeir sem eru í góðu formi við greiningu þola meðferðirnar betur og eru oft fljótari að jafna sig eftir meðferð. En það sem gerist svo samhliða því að hreyfa okkur reglulega er það að við tökum frekar skynsamlegri ákvarðanir gagnvart öðrum heilsutengdum þáttum.

Í ár er kallaútkall og áhersla mottumars á gildi hreyfingar sem forvörn gegn krabbameinum


Við erum að tala um að það er hægt að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum með heilsusamlegum lífstíl. Þá er átt við hreyfingu, mataræði, forðast áfengi og tóbak og nota sólarvarnir og fleira.

Það að greinast með krabbamein er áfall eitt og sér. Í flestum tilfellum grípur heilbrigðiskerfið okkur hvað varðar beina meðferð við krabbameininu sjálfu. En allt annað er á höndum þess sem greinist og á hans ábyrgð að sækja sér þjónustu og þar koma krabbameinsfélögin sterk inn.

Þrátt fyrir að læknast af krabbameini getur fólk verið að glíma við langvinnar og síðbúnar afleiðingar krabbameina sem skerða lífsgæði verulega. Þetta er eittthvað sem þarf meiri vitundarvakningu um því þrátt fyrir að eiginlegri krabbameinsmeðferð sé lokið er langt í langt fyrir viðkomandi og sumir ná sér aldrei. Það þarf líka vitundarvakningu meðal almennings því margir halda að um leið og síðustu lyfjameðferð er lokið eða síðasta geislameðferð búin að þá séu einstaklingar bara klárir í að taka við keflinu þar sem frá var horfið. Krabbameinsgreindir í bata upplifa oft ákveðna fordóma bæði varðandi það að vera ekki búnir að ná fyrri heilsu eða að krabbameinið hafi verið svo lítið að það hafi nú varla haft svona mikil áhrif. Það er miður að samfélagið hafi neikvæð áhrif á þessa einstaklinga sem þrá ekkert heitar en að ná fullum bata og þeirri heilsu sem það hafði fyrir.

Blaður um fótbolta og pólitík


Eins mikið og karlar geta talað um fótbolta, veður og pólitík eru þeir flestir ekki sérlega góðir í að tala um málefni sem snerta þeirra eigin heilsu og líðan og þá sérstaklega þá andlegu.

Sem betur fer er vitundarvakning varðandi andlega líðan og hvað fræðsla, viðtöl og jafningjastuðningur geta hjálpað mikið, því enginn á að þurfa að takast á við það að ganga einn í gegnum krabbamein. Það er því tilvalið að setja hér meðfylgjandi erindi sem birtist í tímariti Krafts – félags ungs fólks með krabbamein, sem ber heitið frá körlum til karla. Það fjallar um hvað karlar sem greinst hafa með krabbamein vilja segja öðrum sem eru að hefja þetta ferli eða hafa aldrei klárað að vinna sig út úr því að hafa greinst og læknast eða vera að glíma við ólæknandi sjúkdóm.

Frá körlum til karla:

• Það gerir okkur karlmönnum afar gott að hitta aðra karlmenn í sambærilegri stöðu, tala saman, hlusta á aðra, deila eigin reynslu og opna okkur.
• Það er mikilvægt að heyra sögur annarra og heyra hvað aðrir upplifa.
• Tjá tilfinningar og tala um málin.
• Þú ert ekki einn í baráttunni, sæktu þér stuðning.
• Komdu þér út úr hellinum.
• Jafningjastuðningur milli stráka reyndist mér strax vel og mun gera það áfram.
• Nýttu þér allt sem er í boði til að styrkja sjálfan þig.
• Get sjálfur ekki hugsað út í þetta ferðalag án stuðnings og jafningjaumhverfis. Það hefur gert svo mikið fyrir mig.
• Það er svo hollt fyrir sálina að koma á stráka/karlakvöld, fræðandi og skemmtilegt. Það hjálpar mjög mikið að fá skilning á þessu.
• Því meiri þátttaka okkar karla, því meira stuðningsnet er hægt að byggja og betra utanumhald er hægt að sækja í.
• Ég hélt að ég þyrfti að vera sterkur fyrir alla í fjölskyldunni.
• Ég er rétt að byrja að vinna úr áfallinu núna löngu eftir að hafa lokið meðferð – það munar öllu að leyta sér hjálpar.
• Koma sér af stað, ekkert kjaftæði, prófaðu allt, taktu afstöðu og haltu þeirri þjónustu sem þér líkar.

Að lokum hvetjum við ykkur til að kynna ykkur starfsemi Krabbameinsfélags Austfjarða og þá aðstoð, stuðning og þjónustu sem félagið veitir. Að því sögðu óskum við ykkur gleðilegra páska og hvetjum alla til hreyfingar og útiveru.

Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða.
*Krabbameinsfélag Austfjarða er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélags Íslands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.