Minning frá samstarfsfélögum

Stefán Már Guðmundsson, kennari við Verkmenntaskóla Austurlands, verður borinn til grafar í dag. Samstarfsfólk hans, bæði í VA og Grunnskóla Reyðarfjarðar minnast hans hér.



Stefán Már kom til starfa við Verkmenntaskóla Austurlands haustið 2013. Hann kenndi aðallega íþróttir og trésmíði.

Stefán setti strax mark sitt á skólabraginn og það langt út fyrir kennsluna enda einstaklega hugmyndaríkur og ósérhlífinn. Stefán einfaldlega gaf endalaust af sér og naut starfsfólk skólans þess en ekki síður nemendur hans þann allt of stutta tíma sem hann var hjá okkur. Stefán gekk í öll þau verk sem hann var beðinn um af einurð og var alltaf viljugur að hjálpa.

Stefán reyndist nemendum sem áttu erfitt með nám sérstaklega vel og fyrir það átti hann alltaf sérstakan stað í hjarta þeirra. Eitt af því sem hann gaf okkur voru skemmtilegar sögur. Þessar sögur voru oftast um hann sjálfan þar sem hann gerði grín að eigin hvatvísi, athyglisbresti og klaufagangi. Einnig hóf hann upp raust sína á skemmtunum starfsmanna og fékk þá oftar en ekki allt samstarfsfólk sitt með í fjöruga skátasöngva.

Oft var glatt á hjalla á kaffistofum skólans þegar Stefán sagði frá lífshaupi sínu sem var mjög spaugilegt á köflum en umfram allt þó fullt af kærleika og vináttu. Takk fyrir allar þessar skemmtilegu sögustundir Stefán og bara allt sem þú gafst okkur. Við starfsfólk Verkmenntaskóla Austurlands sendum Vilborgu og öðrum ættingjum og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. starfsfólks Verkmenntaskóla Austurlands, Elvar Jónsson, skólameistari.

 

Kveðja frá starfsfólki Grunnskóla Reyðarfjarðar

Það var mikil gæfa fyrir Grunnskóla Reyðarfjarðar er Stefán Már Guðmundsson ákvað að ráða sig sem aðstoðarskólastjóra við skólann haustið 2007. Honum fylgdi kraftur og lífsgleði sem hafði smitandi áhrif á alla og fyrr en varir elskuðu allir Stefán Má. Með glaðværð sinni og einlægri hjálpsemi vann hann óðara hugi og hjörtu nemenda og samstarfsmanna. Hann var endalaus uppspretta hugmynda og óstöðvandi í að hvetja til dáða.

Þær eru svo margar ógleymanlegu stundirnar með Stefáni Má, stundir eins og þær er hann leiddi nemendur skólans í halarófu á eftir sér og allir sungu hástöfum skátasönginn Hey, Balúba!, Hey, hey Balúba hey! Orí orí, ei! Balú, balú, baggasei! eða þegar hann fangaði hópinn með sögum af sjálfum sér og hópurinn veltist um úr hlátri.

Allir nemendur heilluðust að Stefáni. Hann var þessi bjartsýna fyrirmynd sem alltaf hafði tíma til hlusta og aðstoða. Sérstaka alúð sýndi hann þeim sem áttu við einhvern vanda að stríða. Fyrir þá var hann endalaus hvatning og uppspretta farsælla lausna.

Stefán Már var ekki aðeins leiðandi í skólanum. Hann var forystumaður í Skólastjórafélagi Austurlands og fljótt varð hann lykilmaður í íþróttastarfinu í Fjarðabyggð þar sem hann leiddi m.a. samstarf yngri flokkanna í knattspyrnu.

Haustið 2013 ákvað Stefán Már að hefja störf við Verkmenntaskóla Austurlands, en tengslin héldust áfram bæði í gegnum skólann, í gegnum íþróttastarfið og stjórnun bæjarins. Það var eins og hann hefði ekkert farið, hann var alltaf einn af okkur svo vel ræktaði hann sambandið við bæði nemendur og starfsfólk skólans.

Það var mikil harmafregn fyrir okkur og samfélagið allt er hann svo alltof, alltof snemma var tekinn frá okkur. Það þyrmdi yfir okkur og söknuður fyllti hugann, en efst í huga var þó þakklæti. Þakklæti fyrir að fá kynnast þessum frábæra manni og fá að njóta leiðsagnar hans. Vilborgu og börnum sendum við samúðarkveðju. Megi góður guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Fyrir hönd starfsfólks Grunnskóla Reyðarfjarðar og Íþróttamiðstöðvar Reyðarfjarðar, Þóroddur Helgason fræðslustjóri Fjarðabyggðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.