Mestu umhverfissóðar jarðarinnar?

gunnarg_web.jpgVið Íslendingar erum einhverjir mestu umhverfissóðar jarðarinnar. Við þá staðreynd verðum við að horfast í augu. Í lokaritgerð sinni í umhverfis- og auðlindafræði seinasta vor reiknaði Sigurður Eyberg vistspor Íslands .

 

Vistspor er mælieining fyrir neyslu þjóðar sem „tekur til neyslu á frumframleiðslu auk innfluttra gæða að viðbættum breytingum á birgðum og frádregnum útflutningi. Yfir 200 vöruflokkar eru teknir inní mælingarnar svo sem kornvörur, búfé, fiskur, timbur o.s.frv. Þá er sérstaklega talin ein úrgangstegund en það er koltvísýringur.“ (Sigurður Eyberg, 2010)

Niðurstöður Sigurðar eru að vistspor hvers Íslendings séu um 56 jarðarhektarar, langt um meira en nokkurrar annarrar þjóðar. Að teknu tilliti til sérstakra aðstæðna í orkumálum og frádrætti á fiskveiðum lækkar talan í 12,77 jarðarhektara á mann. Við höldum samt enn fyrsta sætinu á hinum vafasama lista þar sem Sameinuðu arabísku furstadæmin eru í öðru sæti með 9,46 jarðarhektara. Heimsmeðaltalið er 2,69 jarðhektarar á mann.

Þetta segir okkur tvennt:
a)    Við erum neyslufrekasta þjóð jarðar
b)    Ef allir jarðarbúar höguðu sér eins og Íslendingar þyrfti 6,2 Jarðir undir þá.

En um það er ekki að ræða. Það er ekki önnur Jörð.

Við verðum að spyrja okkur að því hvort okkur finnist þetta í lagi? Og ef ekki hvað ætlum við að gera í því?

Við búum vissulega ekki vel. Við erum lengst norður í hafi, við erum öðrum háð um aðföng. Landið okkar er stórt og dreifbýlt og þurfum að ferðast langar leiðir til að komast á milli staða.

Endurnýjanlegir orkugjafar í farartækin okkar skipta miklu máli. Við getum líka dregið úr aðföngunum með að kaupa innlenda vöru þegar við getum, jafnvel þótt hún sé heldur dýrari úr hillunni. Það skilar sér þegar á heildina er litið.

Við verðum líka að íhuga hvort við getum dregið úr neyslu? Þurfum við að keyra þennan spotta? Þurfum við þetta dót?

Þegar maður sér risapantanir á dýrum tækjum eins og iPad2 og snjallsímum kemst maður ekki hjá því að hugsa: „Kreppa? Hvaða kreppa?“ Það eru enn einhverjir sem eiga, eða telja sig eiga, peninga.

Við megum heldur ekki hugsa þannig að það skipti engu máli hvað við gerum, við séum svo fámenn og lítil. Að við eigum alltaf að fá undanþágur. Við höfum séð hverju það skilar okkur. Vandræðum.

Ef allir hugsa svona verður engum ágengt. Á endanum þjáumst við öll.

Og ef allir myndu haga sér eins og Íslendingar þyrftum við sex Jarðir. En það er ekki kostur. Það er bara ein Jörð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.