Mengun stórskipa í Seyðisfjarðarhöfn.

Stórskipaumferð um Seyðisfjarðarhöfn hefur aukist á undanförnum árum. Ferjan Norröna kemur nú vikulega allan ársins hring og skemmtiferðarskipum fjölgar ár frá ári. Á þessu ári koma 34 slík skip og 37 skip hafa bókað sig fyrir næsta sumar. Skemmtiferðaskipin stoppa aðeins 6-12 tíma, en yfir vetrartímann (8 mánuði á ári) stoppar ferjan 2 sólarhringa hverju sinni.


Efnamengun

Þessi þróun er auðvitað mjög hagstæð fyrir stórskuldugan hafnarsjóð og fyrir sum þjónustufyrirtæki á svæðinu. En þetta er líka áreiti og álag á íbúa byggðarlagsins, ferðamenn og alla innviði samfélagsins. Þar munar mestu mengun frá ljósavélum skipanna sem ganga allan tímann sem skipin eru í höfn. Mér skilst að koltvísýringsmengun (CO2) frá hverju skipi sé 20 – 40 tonn á sólarhring auk sóts og annarra enn verri snefilefna. Í heildina blása því stórskipin 1800 – 2200 tonnum af CO2 og eiturefnum yfir byggðarlagið á ári.

Hávaðamengun

Hávaði frá ljósavélum skipanna er einnig mikill. Það er mörgum íbúum byggðarlagsins til mikils ama auk þess sem það rýrir mjög upplifun ferðamanna sem heillast af kyrrð og náttúruómi byggðarlagsins. Verst er það þó á veturna þegar ferjan er hér tvo sólarhringa í hverri viku. Drunur ljósavélanna heyrast um allt byggðarlagið og fjöldi fólks, þ.á.m. ég, sefur þá með eyrnartappa. Þá kvarta sumir yfir því að þeir eigi erfitt með svefn meðan ferjan er í höfn.

Mótmæli bæjarbúa

Fyrir nokkrum vikum hélt hópur íbúa, „áhugamenn um heilnæmt loft og frábæra höfn“, fund í félagsheimilinu til að mótmæla ástandinu. Þar var samþykkt samhljóða að senda bæjaryfirvöldum erindi með kröfu um umbætur. Í erindinu er ástandinu skilmerkilega lýst og svo segir „Samkvæmt Evrópusambands reglugerð sem gildir á öllum ESB og EFTA ríkjum, nánar til tekið reglugerð nr.124:2015, skulu öll skip sem leggja að bryggju lengur en tvo tíma tengja sig við rafmagn sé þess nokkur kostur“. Bent er á að nóg rafmagn sé í boði á Seyðisfirði og þess krafist að hafnaryfirvöld fari að lögum og krefjist þess að skip sem hingað koma taki rafmagn ú landi.

Ísland hefur tekið á sig miklar skuldbindingar um samdrátt í losun eitur- og gróðurhúsalofttegunda. Þáttur í þeirri viðleitni er ofangreind reglugerð um losun efna frá skipum. Þar er í 11. gr. fjallað um mengun frá skipum í höfn:

11. gr.
Skip sem liggja við bryggju.
Til að stuðla að bættum loftgæðum og draga úr mengun skulu skip sem liggja við bryggju nota rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis eftir því sem kostur er.
Sé ekki möguleiki á að nota rafmagn úr landi skulu skip sem liggja við bryggju í höfnum landsins ekki nota skipaeldsneyti með meira brennisteinsinnihald en 0,1% (m/m). Gera skal ráð fyrir nægum tíma fyrir áhöfnina til að ljúka öllum nauðsynlegum aðgerðum við að skipta um eldsneyti eins fljótt og unnt er eftir að lagst er að bryggju og eins nálægt brottför og hægt er. Tíminn sem tekur að skipta um eldsneyti skal skráður í dagbók skipsins.
Ákvæði 2. mgr. gilda ekki:
a) ef skip eiga, samkvæmt birtri tímaáætlun, að liggja skemur en tvo tíma við bryggju,
b) um skip þar sem slökkt er á öllum vélum og rafmagn úr landi er notað meðan þau eru við bryggju í höfnum.

Úrbætur

Svar hafnaryfirvalda við erindi okkar var rýrt. Það er óviðunandi. Við krefjumst þess nefnilega að strax verði brugðist við og að ákvæðum reglugerðarinnar verði framfylgt eins fljótt og kostur er. Eftir samtöl við starfsmenn RARIK og Landsnets veit ég að nóg rafmagn er í boði á Seyðifirði en að stækka þarf spennustöð og raflagnir við Bjólfsbryggju til að tengja megi stærri skipin, þ.á.m. ferjuna. Þetta er ekkert stórmál og tekjur hafnarinnar af rafmagnsölu verða það miklar að fjárfestingin mun fljótt borga sig upp. Skipafélögin ættu líka að taka málinu fagnandi enda er ódýrara að taka rafmagn úr landi en að keyra ljósavélar. Þá mun minni mengun og minni hávaði bæta dvöl farþega meðan þeir dveljast í byggðarlaginu.

Það er því sjálfsagt að bæjaryfirvöld hefji strax undirbúning að úrbótum og að bæjarbúum verði kynntar væntanlegar aðgerðir um leið og þær liggja fyrir.

Mengun frá skipum í höfn er ekkert einkavandamál Seyðfirðinga, staðan er svipuð um allt land. Nú er það hins vegar skylda að leysa vandann. Ég skora hér með á hafnaryfirvöld á Austurlandi til að verða í fararbroddi um úrbætur.

Höfundur býr á Seyðisfirði

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.