Leiðrétting vegna fréttar um starfslok bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs

Vegna fréttar á vefmiðlinum www.agl.is, sem skrifuð er af Sigurði Aðalsteinssyni 23. júní sl. undir fyrirsögninni „Starfslok Eiríks gætu kostað Fljótsdalshérað allt að 15 milljónum“, viljum við undirrituð koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum um biðlaun bæjarstjóra:

 

                Biðlaun 
Dagvinna    644.179
Eftirvinna:    334.490
--------------------------
Samtals:     978.669
Launat.gj. 26%    254.454
Samtals:     1.233.123
Önnur kjör:    151.192
Samtals:     1.384.315
-------------------------------
Samtals 6 mán:    8.305.890

Staðreyndin er sú að starfslok fráfarandi bæjarstjóra kosta sveitarfélagið tæplega sjö milljónum króna minna en Sigurður Aðalsteinsson fullyrðir í frétt sinni.

Laun bæjarstjóra áttu að taka hækkunum samkvæmt samningum Launanefndar sveitarfélaga en þau hækkuðu eingöngu einu sinni eða um 3% áramótin 2007/2008. Öðrum launahækkunum afsalaði bæjarstjóri sér. Á síðast ári voru laun bæjarstjóra skert um fimm daga eins og annarra starfsmanna skrifstofunnar. Önnur kjör bæjarstjóra voru til að mæta kostnaði sem annars lagðist á sveitarfélagið, s.s. akstursgreiðslur vegna alls aksturs sem fylgdu starfi hans, m.a. vegna ferða til Reykjavíkur. Akstursgreiðslum heldur hann ekki á biðlaunatímanum.

Starfsmenn sveitarfélagsins taka laun samkvæmt samningum Launanefndar sveitarfélaga en þar sem engir kjarasamningar eru til við bæjarstjóra var við gerð ráðningarsamnings við fráfarandi bæjarstjóra, tekið mið af kjörum bæjarstjóra í sambærilegum sveitarfélögum. Sumar starfstéttir hjá sveitarfélögum eiga rétt á biðlaunum, allt upp í eitt ár.

Í könnun sem Hag- og upplýsingasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga gerði á kjörum sveitarstjórnarmanna, framkvæmdastjóra sveitarfélaga og greiðslum til nefndarmanna hjá sveitarfélögum í júní 2010, má finna upplýsingar um kjör framkvæmdastjóra í sveitarfélögum með 2.000-4.999 íbúa. Þar segir:

„Í þessum flokki skiluðu öll sveitarfélög svörum. Svörunin var því 100%. Niðurstöður eru birtar hér að neðan:
Framkvæmdastjórn
Í öllum tilvikum er ráðinn bæjarstjóri í þessum stærðarflokki sveitarfélaga.
Greiðslur fyrir framkvæmdastjórn
Launagreiðslur til bæjarstjóra eru í þremur tilvikum á bilinu 600–799 þúsund kr., í sjö tilvikum 800–999 þúsund kr., í einu tilviki 1.000–1.199 þúsund kr. og í einu tilviki yfir 1.200 þúsund kr. Hlunnindi bæjarstjóra eru í fjórum tilvikum undir 50 þúsund kr. á mánuði, í tveimur tilvikum á bilinu 50–99 þúsund kr. á mánuði, í þremur tilvikum á milli 100 og 149 þúsund kr., og í fjórum tilvikum á bilinu 150–199 þúsund krónur á mánuði.
Greiðslur til forseta bæjarstjórnar eru mjög mismunandi í þessum stærðarflokki. Þær eru í einu tilviki lægri en 50 þúsund kr., í þremur tilvikum á bilinu 75–99 þúsund kr., hjá fjórum sveitarfélögum eru þær 100–149 þúsund kr., í einu tilviki 150–199 þúsund kr. og í tveimur tilvikum á bilinu 200–249 þúsund kr.
Biðlaunaréttur bæjarstjóra
Biðlaunaréttur bæjarstjóra í þessum stærðarflokki er í 12 tilvikum sex mánuðir og í einu tilviki er hann ekki til staðar.“

Nánar upplýsingar má finna á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Launakjör bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs í dag eru því í fullu samræmi við launakjör bæjarstjóra í sveitarfélögum af sambærilegri stærð.
Á 37. fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar þann 12. júní 2006 var undir lið 24. kynntur málefnasamningur þáverandi meirihluta. Jafnframt var kynnt ráðning bæjarstjóra, Eiríks Bj. Björgvinssonar sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum.

Í kjölfar fréttar Sigurðar Aðalsteinssonar hafa á vef agl.is fallið ummæli sem við undirrituð tökum nærri okkur en verst eru þau fyrir Eirík og fjölskyldu hans. Eiríkur hefur gegnt starfi bæjarstjóra af trúmennsku, dugnaði og samviskusemi í átta ár. Á þessum tíma hefur sveitarfélaginu vaxið mjög fiskur um hrygg og uppbyggingin verið mikil sem hefur krafist ómælds vinnuframlags af hálfu bæjarstjóra. Þá hefur „hrunið“ kallaði enn frekar á krafta hans og ábyrgð. Gríðarlegt álag fylgdi starfi hans svo og allra þeirra sem starfa bæði í stjórnsýslu og við stofnanir sveitarfélagsins. Undirrituð, sem bæði eru að hverfa af vettvangi sveitarstjórnarmála eftir 12 ára setu þar, vilja nota tækifærið og þakka Eiríki og öllu þessu starfsfólki fyrir vel unnin störf og ánægjulegt og árangursríkt samstarf.     

Baldur Pálsson, fráfarandi formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs.
Soffía Lárusdóttir, fráfarandi forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.