Efling landsbyggðar

Áratugum og kynslóðum saman höfum við horft upp á straum íbúa af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Slíkur hefur fjöldinn verið að það mætti ætla að um kerfisbundna fólksflutninga hafi verið að ræða, ef við vissum ekki betur.

Þegar rýnt er í tölurnar koma í ljós ansi sláandi myndir. Víða í byggðum landsins til sjávar og sveita vantar um 50-80% íbúa sem bjuggu þar fyrir um 30 árum. Á Íslandi hefur slök stefna í byggðamálum og framkvæmd hennar verið langvarandi vandamál. Að forminu til hafa ráðherrar byggðamála lagt fram byggðastefnu á fjögurra ára fresti en erfitt hefur verið að festa fingur á í hverju sú stefna hefur falist eða hvort henni hefur verið komið í verk. Það er ávallt tilfinningin sem maður fær að eina byggðastefnan sem er viðvarandi séu duttlungar einstakra stjórnmálamanna viku fyrir kosningar sem tryggi þeim endurkjör trekk í trekk.

Það er ekki vinsælt að tala um byggðamál í dag á landsbyggðinni enda flest mál sem tengjast byggðamálum í landinu tengd Reykjavík og nágrenni, stundum nefnd höfuðborgarstefna. Jú, við heyrum um baráttumál eins og um flugvöllinn í Reykjavík, en á meðan gleymum við að horfa til okkar nærumhverfis. Heilbrigðisþjónustu, samgöngur, fjarskipti, póstþjónustu, námsframboð og allt sem við þurfum varðandi jafnrétti til búsetu á landsbyggðinni. Þar þarf víða að vinna mikið verk til að gera landsbyggðarbúsetu samkeppnishæfa og koma innviðum og opinberri þjónustu í viðunandi horf. Við þurfum skarpa sýn til framtíðar.

Grunnmarkmið byggðastefnu er að byggð í landinu öllu sé tryggð. Þá erum við ekki einungis að tala um búsetu fólks hringinn í kringum landið heldur blómlega byggð með fjölbreyttu atvinnulífi, hagstæðu húsnæði og fullt af tækifærum fyrir unga sem aldna. Grundvöllur byggða er og verður ávallt úrval þeirra atvinnutækifæra sem bjóðast. Það er vissulega vandkvæðum bundið og fjölbreytni í atvinnulífi verður vissulega aldrei eins í Reykjavík og á Vopnafirði. Það er þó vel hægt að heimfæra marga þætti þegar kemur að atvinnu því tæknin í dag gerir okkur það kleift. Það er vel vitað hvaða innviði þarf að bæta eins og nettengingar og rafmagnsflutninga sem víða er ábótavant og er það forgangsmál. Til að liðka fyrir búsetu á jaðarsvæðum á landsbyggðinni má einnig beita sértækum aðgerðum eins og skattaívilnunum til einstaklinga eða öðrum ábata sem hvetur fólk til að búa á landsbyggðinni og fyrirtæki til að veita fólki tækifæri til þess að vinna í heimabyggð þótt starfsstöðin sé á höfuðborgarsvæðinu.

Það þarf að skerpa á okkar sýn varðandi hvernig byggð við viljum sjá á Íslandi, horfa langt fram í óséða framtíð. Við þurfum einnig að læra af okkar mistökum sem gerð hafa verið í fortíðinni og leggja línurnar með samvinnu höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, báðum til framdráttar. Við eigum vel að geta lært af nágrönnum okkar og horft til t.d. Noregs og Skotlands og stuðningi þeirra við dreifðar byggðir. Hefjumst handa við að efla búsetu á landsbyggðinni með stolti. Hlutirnir virðast oft ómögulegir þangað til búið er að framkvæma þá. Það hefur sagan kennt okkur margsinnis.

Höfundar eru frambjóðendur Bjartrar framtíðar í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.