Þungir þankar: Dreift eignarhald

sigurjon bjarnason teikningMjög er því nú á lofti haldið af æðstu ráðamönnum að mikilvægt sé að lánastofnanir þær sem nú eru til sölu komist í það sem þeir kalla „dreifða eignaraðild".

Af því tilefni er rétt að rifja upp söguna.

Á ungdómsárum mínum starfaði sparisjóður í minni heimasveit. Bændur í sveitinni áttu flestir stofnsjóðsaðild að honum. Ekki hvarflaði að nokkrum manni að versla með hluti þeirra, enda þurfti annað af tvennu að gerast til þess að þeir væru lausir til útborgunar og þá á því verði sem stjórn sjóðsins ákvað en ekki markaðurinn. Skilyrðin voru þessi:

a) Að flytjast úr byggðarlaginu.
b) Að losna frá þessu jarðlífi.

Atkvæðisréttur var að sjálfsögðu bundinn persónu en ekki fjármagni. Sjóðurinn þótti vel rekinn og var traustur bakhjarl íbúa byggðarlagsins. Sparisjóðsstjórinn, Snæbjörn Thoroddsen í Kvígindisdal, gætti hans í 64 ár, geri aðrir betur. Hann var ekki vinsælasti maðurinn á öllum heimilum, lánaði ekki hverjum sem var í hvað sem var. Auðvitað var eigið fé sjóðsins umtalsvert meira en sem nam stofnsjóðnum. Það var mikilvægt til að mæta áföllum og standast skoðun eftirlitsins, sem síðast var í höndum Seðlabanka Íslands.

Í einfeldni sinni og oftrú á markaðinn skiptu gáfuðustu menn þjóðarinnar (eða eru ráðamenn það ekki?) öllu eigin fé slíkra sjóða á milli hluthafa, sem síðan var sett á markað. Þetta átti aldeilis að styrkja stöðu viðkomandi stofnana og gera þær samkeppnishæfar á markaði. Eftirleikinn þekkja allir.

Þeir hafa enn ekki áttað sig á að hlutafélagaformið er ætlað til þess að menn geti verslað með hluti. Þeir vita heldur ekki að sá sem býður best eignast alla fala hluti á tiltölulega skömmum tíma. Þetta veit Bjarni Benediktsson upp á hár en þegir fast þegar þetta ber á góma. Telur sér trú um að hægt sé að setja sérlög til að hindra eigendaskipti sem væri þvert á eðli hlutafélagaréttar.

Nei, Bjarni minn. Það er bara ein leið til að tryggja framtíðardreifingu eignarhalds bankanna. Það er að gefa landsmönnum kost á að leggja hæfilegt fé í stofnsjóð með atkvæðisréttinum einn maður eitt atkvæði. Sjóðsfélagar kjósa stjórn og stjórnin velur bankastjóra og æðstu embættismenn. Stofnsjóðsinneign verður laus við brottflutning af landinu eða í gröfina.

Kemur þetta í veg fyrir samkeppni? Hvernig dettur mönnum það í hug?

Árla á starfsævi minni starfaði ég í ríkisbanka. Hann hét Búnaðarbanki Íslands, blessuð sé minning hans. Þá voru líka starfandi Útvegsbanki Íslands og Landsbanki Íslands. Ég varð ekki var við annað en að þessir bankar væru í bullandi samkeppni. Reglur eigandans voru að vísu stífar og nokkuð íþyngjandi, en það breytti því ekki að starfsmenn voru samtaka um að gæta hagsmuna síns vinnuveitanda. Annaðhvort væri nú.

Þannig að .... ef gamla sparisjóðaleiðin verður ekki fyrir valinu finnst mér að þjóðnýting komi alveg til greina. Samkeppnin spillist ekki hætishót.

Og hvaðan kemur þetta nýyrði „samfélagsbanki"? Eru ekki allir bankar að þjóna samfélaginu, hver sem eigandinn er?

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.