Þungir þankar: Hrófatildur hins íslenska fiskveiðistjórnunarkerfis

sigurjon bjarnason teikningStundum upplifi ég fréttir um kvótann (fiskveiðistjórnunarkerfið) eins og menn átti sig ekki á eðli hans eða uppruna. Rifjum aðeins upp söguna.
Þegar leið á áttunda áratug síðustu aldar bar öllum saman um að stöðva beri ofveiði á flestum eða öllum fisktegundum. Fyrst var tekið upp svokallað skrapdagakerfi, sem ekki virkaði. Þá var bara ein leið eftir, að skammta fiskinn upp úr sjónum.

Spurt var: Hverjir áttu að fá skammtana? Stjórnvöld svöruðu: Þeir sem hafa verið duglegastir að fiska næstu ár á undan fá réttinn í réttum hlutföllum við afla undanfarinna ára.

Þá kom önnur spurning: Ef einhver getur ekki eða vill ekki nýta sér þennan rétt, hvað þá? Svar stjórnvalda: Þá geta þeir sem viljað meira fengið skammtinn hans.

Þriðja spurning: Á að borga þeim sem sleppir réttinum, hver á að borga og hversu mikið? Svarið kom eftir litla umhugsun. Já, en við tökum upp „frjálst framsal" það er þeir útgerðarmenn sem bjóða hæst fá hinn afsalaða rétt.

Það er við þriðja svarið sem ég hef alltaf haft efasemdir. Sá sem úthlutar réttinum (ríkið) hlýtur að eiga fyrsta rétt ef viðtakandi kýs að skila honum. Frjáls kvótamarkaður hlaut að kosta miklar fórnir og fólkið sem fórnirnar færði (fiskverkafólkið og íbúar þeirra byggða sem misstu réttinn frá sér) hefur enn í dag engu verið bætt þessar gífurlegu fórnir.

Hægt er að hafa fullan skilning á nauðsyn hagræðingar sem vissulega ávannst með hinu frjálsa framsali. En strax í upphafi hefði þurft að takmarka árafjölda sem þessi frjálsa verslun átti að ríkja.

Málið er að réttindin eru ekki auðlind í sjálfu sér, það er fiskurinn í sjónum og þau verðmæti sem hann getur skapað. „Hver fær nú kvótann þegar fiskurinn fer?" syngur Bogomil Font. og svarar: „Þegar fiskurinn fer, kvótinn lendir hjá mér".

Þar með vísa ég á bug þeirri kenningu að ríkið eigi einhvern sérstakan rétt á leigu (veiðigjaldi) af aflaheimildum. Hins vegar tel ég það eiga innlausnarrétt á þeim réttindum sem ekki nýtast á því verði sem sjávarútvegsráðuneytið ákveður hverju sinni og hinir sem þiggja vilja viðbótarheimildir fá þær gegn fyrirfram ákveðnu gjaldi eftir reglum sem hið opinbera setur og eru gagnsæjar og einfaldar.

Það hrófatildur sem búið er að búið er að skapa í kringum réttinn til fiskveiða er búið að blinda svo þjóðarsálina og varla nokkur maður skilur það sem að baki liggur. Bendi þó fólki á að lesa skrif Jóhannesar Björns Lúðvíkssonar og fleiri hugsandi manna sem virðast botna í vitleysunni. Þar má jafnvel nefna Þráin Eggertsson hagfræðing, sem eitt sinn var kallaður einn að frjálshyggjupostulunum, en greina má miklar efasemdir hans í bók hans „Háskaleg hagkerfi".

Sigurjón Bjarnason


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.