Ég get ekki meir

diana mjoll sveinsdottirÉg er Íslendingur og mér er bent á það á hverjum degi hvað ég er vitlaus, ég bý á Íslandi. Það er alveg ömurlegt og eiginlega bara hálfvitar sem enn búa hér. Það er annað en þeir ótrúlega gáfuðu og sniðugu einstaklingar sem hafa flutt búferlum, sumir jafnvel skilið mig og aðra eftir með skuldirnar sínar og búa núna í paradís á jörð, sem eins og er virðist heita Noregur.

Við hin sitjum eftir í heimsku okkar og reynum að draga fram líf sem við sjáum aðeins í hillingum og aldrei verður – æ æ aumingja við! Til að toppa þetta allt saman, þá er líka kalt hjá okkur, þannig að nú erum við ekki bara heimsk, heldur er okkur líka kalt.

Ef ég er bjáni, bý enn á þessu guðsvolaða landi og læt mér vera kalt, hvað mega þeir þá segja sem hafa búið erlendis með fjölskyldur sínar og flutt svo aftur heim, þeim er náttúrulega bara engan veginn viðbjargandi.

Ég fór ung sem skiptinemi til Þýskalands og dvaldi einnig í Frakklandi sem au-pair. Þegar heim kom langaði mig aftur og aftur til útlanda og í gegnum tíðina hefur mig jafnvel langað að búa þar. En það var aldrei vegna þess hvað allt var ömurlegt heima hjá mér, heldur til að kynnast heiminum og sjálfri mér betur og ég vissi að fallega landið mitt sem ég ann, myndi alltaf bíða eftir mér og taka vel á móti mér.

Fólk segir að ég sé rosalega mikill Eskfirðingur, eins og það sé slæmt. En ég er Eskfirðingur, hér eru ræturnar mínar, hér er ég alin upp, hér eru grasbalarnir sem ég lék mér á og ég er ótrúlega þakklát fyrir að við fjölskyldan skulum fá að njóta þess að búa hér. En ég er ekki bara rosalega mikill Eskfirðingur, ég er líka rosalega mikill Austfirðingur og hvað haldið þið, ég er rosalega mikill Íslendingur. Ég er þakklát fyrir að hafa alist upp við það að þurfa ekki að lesa það á internetinu á hverjum degi hvað allt sé hræðilegt hér.

Ég er með þykkan skráp og ég vona að börnin mín þrjú fái hann líka. Ég vona að þau ferðist og kynnist heiminum, ég vona að þau verði víðsýn og öðlist reynslu af annarri menningu og þjóðum. Ef þau finna sig annarsstaðar og flytjast búferlum vona ég að þau sýni mér það ekki á hverjum degi á internetinu hvað ég sé vitlaus að búa enn á Íslandi og hvað grasið sé grænt hinum megin við lækinn. Ég vona að þau verði hamingjusöm og þeim gangi allt í haginn og mitt hlutverk sem móður er að búa þau undir það að lífið og hamingjan er vinna. Það er ekki eitthvað sem þú kaupir úti í búð eða vonast eftir. Það eru hæðir og lægðir í lífinu og það hvernig við tökum á aðstæðum okkar sker úr um okkar lífshamingju.

Ég var svo ótrúlega heppin kona að kynnast persónuuppbyggingu fyrir um 13 árum, sem er eitthvað það frábærasta sem ég hef komist í tæri við og uppáhaldsfrasinn minn er: „For things to change, you have to change. For things to get better, you have to get better." (J. Rohn).

Það hefur ekki alltaf verið einfalt að horfa í spegilinn og sýna ábyrgð, en niðurstaðan er alltaf betri en að benda fingri á einhvern annan.

HEIMA ER BEST, hvar svo sem það er!


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.