Bókadómur: Við eftir David Nicholls

vid david nichollsMeð smávægilegum hléum hef ég verið áskrifandi að Neon-klúbbi bókaútgáfunnar Bjarts frá upphafi og ég efast í raun ekki um þá staðhæfingu þeirra að þetta sé besti bókaklúbbur í heimi. Bækurnar eiga það sameiginlegt að vera áhugaverðar og að hafa vakið athygli í heimalandi höfundar sem og víðar. Bækur höfunda eins og Paul Auster, Ian McEwan og Haruki Murakami hafa verið gefnar út á Íslandi undir merkjum Neon og ég á mér þó nokkrar uppáhaldsbækur úr þessum frábæra bókaflokki. Það má því með sanni segja að ég hafi verið hálfhissa þegar ég fann bók David Nicholls „Við" í póstkassanum. Þetta er metsölubók um víða veröld eins og ástarsaga hans „Einn dagur" sem kom út á íslensku fyrir nokkrum árum. Bók sem mér myndi aldrei detta í hug að lesa að fyrra bragði. Engu að síður hefur Neon komið mér á óvart oftar en einu sinni og það var því sjálfsagt að gefa þessari bók séns.

Í bókinni er það hinn 54 ára lífefnafræðingur, Douglas Peterson, sem er sögumaður. Sonur hans er fara í háskóla og eiginkonan virðist ætla að nota tækifærið og binda enda á hjónabandið. Hjónaband sem hann taldi í ágætu ásigkomulagi. Douglas elskar enn eiginkonu sína og einsetur sér að nota áður ákveðna fjölskyldu- og menningarferð um Evrópu til að bjarga bæði hjónabandinu og sambandinu við soninn, sem er vægast sagt stirt. Ferðalagið hefst og óhætt að segja að fyrirætlanir hans gangi ekki sem skyldi. Sögumaðurinn Douglas rifjar svo upp ævisögu sína á meðan á ferðalaginu stendur og lesandinn fær smátt og smátt betri mynd af persónum og ástæðunum fyrir því að ástandið er eins og það er.

Í grunninn er persónurnar hálfgerðir karikatúrar. Óframfærni, seinheppni, lífefnafræðingurinn, listatýpu eiginkonan, erfiði unglingurinn og við fáum meira að segja fyrrverandi kærastann, sem vill svo til að er sjarmerandi kvennabósi sem fer illa með kvenfólk. Nicholls gerir þó vel í að lita persónurnar fleiri litum. Það er auðvelt að setja sig í spor allra persóna, og gjörðir þeirra eru yfirleitt skiljanlegar. Bókin verður sterkust þegar kemur að sambandi Douglas við soninn, Albie. Klunnaleg tjáskipti og ólíkt hugarfar leiðir til sprengingar í sambandi þeirra og um miðbikið hættir bókin í raun að vera ástarsaga og verður að spennubók, þar sem spennan felst í hvort feðgarnir nái að sættast.

Bók Nicholls er oft á tíðum bráðfyndin, en gengur samt of langt í aulaskap. Douglas er nefnilega með eindæmum seinheppinn. Tilraunir hans til að sameina fjölskylduna enda of oft í einhverju „slapstick" húmor sem virkar engan veginn sannfærandi og í raun ýta undir þá tilfinningu að höfundurinn sé að skrifa kvikmyndahandrit að rómantískri gamanmynd. Það er margt annað sem minnir á kvikmynd. Bókin skiptist upp í 180 stutta kafla, og svo ört koma kaflaskiptingarnar að þær verða eins og klippingar milli atriða.

Það skemmtilegasta við bókina eru lýsingar Douglas á borgum Evrópu. Eiginkonan, Connie, hefur með árunum gert Douglas að áhugamanni um myndlist og hann lýsir skemmtilega heimsóknum í raunveruleg listasöfn stórborga Evrópu. Langskemmtilegast fannst mér að lesa um heimsóknir til þeirra borga sem ég hafði sjálfur heimsótt, Barselóna og Amsterdam, og ég var sjálfur á leið til Vínar þegar ég lauk við að lesa bókina, sem var á einhvern hátt mjög viðeigandi.

Á ferðum mínum um flugvelli Evrópu síðustu daga er ljóst að „Við" er metsölubók. Alls staðar er bókinni stillt upp í stöflum, og alls staðar er hún á topp tíu sölulistanum. En það er líka ekkert skrítið, þetta er nefnilega prýðileg bók til að grípa með sér í ferðalagið. „Við" er aldrei leiðinleg og á köflum bráðskemmtileg og umhugsunarverð. En sem Neon-bók er hún of mikið léttmeti.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.