Fortitude: Handritið er einhverjum að kenna

sigga lara fortitude„Vá, hvað Fortitude var leiðinlegt," er það eina sem ég hef séð sagt um málið á Facebook.

Mér þykir fjarskalega leitt að játa að ég er pínu sammála. Mér þykir það leitt vegna þess að auðvitað vildi ég að þættirnir sem teknir voru upp „hér fyrir austan," allir Austfirðingar léku í og einhverjir unnið við, væru góðir. Helst alveg fjarskalega góðir. En á þessu stigi málsins er ég alveg ferlega hrædd um að svo sé bara... ekki.

Tökum þetta aðeins í sundur. Í fyrsta þætti fengum við svipmyndir af mörgum persónum. Og undarlega samsettu samfélagi. Sem var reyndar m.a. samsett úr Eskifirði, Reyðarfirði og einhverjum jökli sem átti að vera skammt frá, en það truflaði mig nú ekkert lengi. Tvennt truflaði mig meira.

A) Myndavélahristingur. Tíundi áratugurinn hringdi og vill fá áhöldnu dogmastælana sína til baka.

B) Persónusköpun. Nú ætla ég alveg að halda áfram að horfa, aðallega vegna þess að ég VIL að þetta verði eitthvað en við fyrstu sýn er of margt í mixinu. Minnst af því hafði komið fram í stiklunni sem er búið að sýna milljónskrilljón sinnum. Þar var teiknuð mynd af nokkuð einföldum glæpaþáttum. Þessi þáttur átti ekkert skylt við það módel. Mjög hafði gerst hjá mörgu persónunum áður en kom að glæpnum sjálfum. Og mér er alveg innilega sama um allt þetta fólk. (Ennþá?)

Það var samt enginn að leika illa. Mér fannst ganga ágætlega að móta þennan bæ og mynda umhverfið. Þó svo að í febrúar sé Íslendingurinn í mér orðinn þreyttur á myrkrinu og öllum þessum úlpum. En það er ekki við þáttagerðarmenn að sakast. Handritið er hins vegar klárlega einhverjum að kenna. Ef allir þessir endar eiga að fléttast saman og meika sens þarf eitthvað verulega snjallt að gerast mjög fljótlega... og áður en allir missa áhugann.

Þættirnir eru tólf. Ég ætla að halda áfram að leyfa þeim að reyna að krækja í mig. En eftir þennan fyrsta finnst mér að persónufjöld á við The Wire, undarlegheit eins og í Twin Peaks, myndatökurugl The Shield, í blöndu sem ku eiga að vera breskt svar við skandinavísku krimmunum ekki vera að virka neitt sérstaklega vel. Undarlegt kaldlyndi í persónusköpun er vandmeðfarið og ekki á færi nema fárra snillinga. Það sem á eftir að koma í ljós er hvort handritsgerðarmenn hafa færst of mikið í fang.

Ég ætla að halda áfram að horfa. Gá hvernig Eskireyðarfjörður heldur áfram að þróast, hvort við sjáum meiri hvítabirni... í einhverri stiklunni sá ég úlf... hræið af hverju þetta var sem krakkarnir fundu, hvernig litla stráknum með kaldlyndu/þjáðu foreldrana reiðir af... Halda áfram að halda með Fortitude.

En mér er sama hver kálaði vísindamanninum.

Framhald í næstu viku.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.