Stal körfuknattleiksdeild Hattar tímum af fimleikadeildinni?

hottur karfaTilefni þessa bréfs er grein eftir yfirþjálfara fimleikadeildar Hattar sem birtist á Austurfrétt á dögunum. Með þessari grein langar okkur að leiðrétta þær rangfærslur og ásakanir sem þjálfarinn setur fram og einnig að skýra frá okkar hlið á málinu.

Allt síðasta leiktímabil var leikið á föstudögum líkt og nú er gert. Þegar leikið var á fimmtudögum var þrýstingur á deildina að færa leiki yfir á aðra leikdaga. Það var ekki einhliða ákvörðun Hattar að leika á föstudögum enda ræður Höttur ekki yfir leikskipulagi deildarinnar. Skipulagning er í höndum Körfuknattleikssambands Íslands. Það er hægt að leggja fram ósk um að breyta dagsetningu á einstaka dögum en þá verður slík ósk að koma fram með góðum fyrirvara. Ósk barst frá stjórn fimleikanna um tilfærslu á leikdögum eftir tvo fundi um æfingartöflu og sendi körfuknattleiksdeildin erindi til KKÍ um tilfærslu á leikdögum og var ein af fjórum beiðnum samþykkt en hinum var hafnað. Staðhæfing um að ÍA leiki alla sína leiki á fimmtudögum og sunnudögum er röng t.d. fór leikur ÍA. – KFÍ fram föstudaginn 19. desember.

Líkt og áður er æfingartafla vetrarins samþykkt að hausti og fékk fimleikadeildin líkt og aðrir drög að æfingatöflu svo að hægt væri að koma með athugasemdir. Strax í upphafi lá fyrir að leikið yrði á föstudögum eins og á fyrra leiktímabili. Núverandi æfingartafla var samþykkt af fulltrúum allra deilda og getur fimleikadeildin því ekki haldið því fram að ekkert samráð hafi verið um gerð æfingartöflunnar. Það kom stjórnarmönnum í opna skjöldu þegar þeir voru sakaðir um frekju og svo lygar þegar komið var fram í nóvember. Stjórn körfuknattleiksdeildar Hattar harmar þessar ásakanir og telur þær með öllu rangar.

Þær vangaveltur sem þjálfarinn hefur um viðbótarkostnað eru á veikum grunni byggðar. Það er ekki hægt að tala um viðbótarkostnað þegar vitað er frá upphafi hvernig skipulagið í íþróttahúsinu er fyrir veturinn. Með sömu rökum mætti segja að út frá drauma tímauppröðun körfuknattleiksdeildarinnar væri hægt að spara 300-400.000 kr. vegna hagræðis. Hver á að borga það?

Þegar yfirþjálfarinn hefur lokið sér af í ásökunum um lygar þá vindur hún sér út í popúlisma og reynir að höfða til samkenndar almennings. Sé horft til sanngirni í útdeilingu tíma má sem dæmi nefna að 16-18 ára strákar í drengjaflokki sem keppa á íslandsmóti fá fimm tíma á viku í æfingar á meðan stúlkur í fimleikum á svipuðum aldri fá rúmlega níu tíma. Báðir flokkar eru að skila einstaklingum í unglingalandslið og eru að standa sig vel á Íslandsmótum. Annað dæmi er að tólf ára gömul börn í körfuknattleik fá þrjá og hálfan tíma í æfingar á viku á meðan börn í fimleikum fá níu tíma og því má spyrja hver víkur fyrir hverjum. Þriðja dæmið er að æfingatími stráka í þriðja til fimmta bekk er á mánudögum milli sjö og átta á kvöldin. Það er óheppilegt að börn átta til tíu ára séu að æfa eftir kvöldmat á meðan aðrar deildir fá að hafa börn á þessum aldurbili á dagtíma og mætti telja til fleiri dæmi.

Hvergi í máli yfirþjálfarans kom fram að körfuknattleiksdeild Hattar hefur boðið fimleikadeildinni að nýta tíma sem karfan hefur til ráðstöfunar á laugardögum frá 13-15 sem reyndar mætti nýta til kl 16 þar sem húsið er opið til 17:00 á laugardögum. Með því að þiggja þetta boð mætta vinna upp meintan glataðan æfingartíma þar sem fimleikarnir eru að æfa á laugardagsmorgni.

Það er augljóst að fimleikadeildin, sem er með helming allra tíma í íþróttahúsinu lendir í því frekar en aðrar deildir að missa tíma vegna leikja í íslandsmótum. Það er rétt hjá henni að aðstæður eru ekki fullkomnar til íþróttaiðkunar en hún verður að gera sér grein fyrir því að það eru fleiri íþróttir stundaðar í íþróttahúsinu. Yfir 50% af æfingartíma í húsinu er eyrnamerktur fimleikadeildinni og þurfa aðrar deildir að líða fyrir það sem er óásættanlegt.

Sú umræða sem sprottið hefur fram í kjölfar greinarinnar er að það halli á hlut stúlkna. Sannleikurinn er samt sem áður sá að það er bara alls ekki rétt eins og dæmin hér að ofan sýna. Enda snýst þetta alls ekki um stelpur á móti strákum.

Að lokum viljum við hrósa fimleikadeildinni með frábæran árangur og sem Hattarmenn erum við stoltir yfir því að hafa átt þrjá fimleikamenn í landsliðinu. Eins er árangur fimleikanna aðdáunarverður m.v. það aðstöðuleysi sem allar deildir Hattar þurfa að búa við.

F.h. körfuknattleiksdeildar Hattar
Stefán Þór Hauksson, Viðar Örn Hafsteinsson og Þórhallur Harðarson.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.