Aðvörunarorð til ungmenna í námi

haskoli islands regnbogaEkki láta plata ykkur, ljúga að ykkur, og síst af fólki sem þekkir til.

Eitt af því besta og næstum því gáfulegasta sem gert hefur verið í menntamálum í landinu á liðnum árum var að opna verknámsfólki og öðru fólki leið inn í frekara nám, þegar fólk hafði mögulega hlaupið af sér hornin. Nú hefur verið ákveðið að skrúfa fyrir það.

Allt „talið" um verknám byggist á því að reyna að fá annarra börn til að fara í, við skulum segja byggingavinnu, eða til sjós. „Mín, okkar", börn fara í bóknám. Þar er auðvitað fyrst til að taka að þau eiga að komast þar á stall sem tekið verði „mark" á þeim, að þau fái tækifæri til að velja úr fjölbreyttum „þægilegum" störfum, þurfi ekki að „vinna í fiski".

Hér ætla ég að leggja til hliðar það fólk sem fer í heilsuverkið. Tökum læknana út fyrir sviga sem verja löngum tíma í að komast þangað að standa blóðugir, „skítugir" og það dag eftir dag, út ævina að fást við parta af okkur og alltaf þá sömu. Þeir þurfa að éta ofan í sig hverja vitleysuna af annarri sem þeim var miðlað af meintum vísindum, mest fyrir það að allt annað fólk, „fjölmiðlafólk", bjó til mýtur úr óljósum athugunum og oft hagsmunatengdum. Ég ætla heldur ekkert að segja um hjúkrunarfræðingana sem taka við veslingunum en koma að vísu nokkru af verkunum yfir á „handverksstéttir". Þetta er allt á leið í „einkavæðingu" en það er notað sem heiti yfir þá aðferð að gera fólki fært að lækka hjá sér skatta og sleppa við útsvar með því að framfleyta sér á arðgreiðslum og þá verður væntanlega verandi í þessu.

Fjölmiðlafólk er einmitt þarna. Þið komist ekki gegnum verknámið til að fjalla um hlutina að gagni í fjölmiðlum, bara gegnum bóknámið. Auðvita nema samkvæmt áformunum um að borga einhverjum fyrir að koma ykkur gegnum stúdentsprófið eftir að þið eruð orðin tuttugu og fimm ára.

Svona girðingar eru ekki nýjar af nálinni. Meistarar iðngreinanna fundu upp á því að sveinarnir sem voru komnir að því að fá meistarabréfið og möguleika á að fara að keppa við sína gömlu húsbændur þyrftu allt í einu að fara í meistaraskóla, nám, og borga fyrir það. Þetta var og er víðáttu vitlaust, að rjúfa skólagönguna til þess eins að gera fólki fjárhagslega erfitt á einmitt viðkvæmu skeiði. Þetta er sá veruleiki sem blasir við iðnnemum og sveinum. Þeir áttu, í fáein misseri, möguleika á að sleppa meistaraskólanum og fara bara í „alvöru" framhaldsskóla í tæknifræði og verkfræði, komast í að selja „Copy / Paste" skjöl og teikningar, „háu" verði, og burðarþolsútreikninga og „eftirlit".
Það sem kannski mestu skiptir samt, mynda tengslanet. En eins og flestir ættu að vera farnir að átta sig á er fátt vænlegra en fjölbreytt virkt tengslanet „uppúr".

Ef þið mögulega getið. - Komið ykkur upp í háskólana, í nánast hvað sem er. Leiðin í handverkið er alltaf fyrir hendi. Leitið allra leiða til, nema svindla, það er eins og lygin sem ekki er einu sinni brúkleg í pólitík. Svo stofnið þið félög og borgið ykkur lítið kaup og mikinn arð.

Sá veruleiki sem stendur ykkur til boða, takist ykkur ekki að komast í gegnum bóknámið, gæti litið einhvern veginn svona út. Líkamlegt erfiði á útboðsmarkaði, undirverktaka, samkeppni við sjómenn úr öðrum heimshornum. Já, nútíma þrælamarkaður, „starfsmannaleiguþý". Allt heilsuleysi verður sjálfkrafa ávísun á bótakerfið og út af vinnumarkaðnum. Þá á ég eftir þetta sem blasir við í launakjörum og tekjum. Eftir því sem þið skuldið meira í námslánum, þ.a.e.s. fagið ykkar eða greinin, hver haus, þess líklegra er að þið getið knúið fram meiri tekjur.

Og bara til að tryggja það að þið haldið ekki að þetta sé tómt iðnaðarmanns bull er hér klausa úr nýlegri grein Ásmundar Stefánssonar, hagfræðings og fyrrum hitt og þetta.

„Hin ráðsetta Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, verður ekki.... með réttu ásökuð fyrir að vera öfgafull vinstrikona. Hún lét þau orð falla í ræðu nú í október að áratuga stöðnun í lífskjörum almennings í Bandaríkjunum samræmdist ekki þeim grunngildum bandarísks samfélags að allir eigi sömu tækifæri í lífinu. Hún vakti athygli á því að misskiptingin aftrar því að allir fái notið sömu tækifæra og þannig magnast ójöfnuðurinn." Einmitt, ég er ekki að tala um staðbundna hluti.

Svo er þetta sem mest er um vert. Ef þið ljúkið háskóla, eigið þið meiri möguleika á að verja afkvæmin ykkar þegar að möguleikum þeirra verður sótt. Svona eins og með hugmyndum um rútuferðir.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.