Hvað höfum við Austlendingar lært?

Ívar IngimarssonÉg er alinn upp á Stöðvarfirði og mér þykir mjög vænt um þann stað. Því miður hefur átt sér stað mikil fólksfækkun þar eins og á svo mörgum öðrum stöðum fyrir austan.  Eitt sinn var allt fullt að fiski og fólki og næga vinnu að hafa. Sjálfsagt hafa flestir talið að svo myndi verða um alla tíð og staðurinn gæti haldið áfram að vaxa of dafna án þess að þurfa á öðrum að halda. Því miður var raunin önnur og hefur Stöðvarfjörður átt undir högg að sækja á síðustu árum.  Ekkert lítur út fyrir að við förum að sækja sjóinn og veiða sama magn af fiski og áður og því þarf að velta fyri sér hvað getur komið í staðinn að einhverju leyti.

Við erum búin að fá álver og þó það hafi nú ekki skapað öll þau störf sem talað var um, þá verður ekki hjá því litið að margir hafa beina og óbeina vinnu við það, en því miður á meðan byggingu þess stóð, tapaðist mikið af störfum af svæðinu og kannski hefði þau ekki öll þurft að fara ef menn hefðu ekki verið svo vissir um að allir myndu hvort eð er vinna við álið. Svo staðan er þannig núna nokkrum arum eftir byggingu álvers að við Austlendingar erum viðlíka  margir og fyrir álver eða, um 12000 talsins.

Hvað ætlum við nú að gera? Hvar eru næstu möguleikar Austurlands? Ekki förum við að veiða fisk eins og áður og annað álver fáum við ekki.   Ætlum við (hver og einn staður) bara að treysta því að allt verði í lagi og svo muni eitthvað „stórt“ koma og bjarga öllu, eða eigum við að snúa bökum saman og reyna að vinna að hag Austurlands sem heildar með því að vinna betur úr því sem við höfum nú þegar.

Kem ég þá að því að ég ákvað að skrifa þessa grein en það er umræðan um byggingu Axarvegar. Hjómar það kannski skringilega miðað við það sem ég hef skrifað hér á undan en gefið mér smá tækifæri og vonandi tekst mér að útskýra það betur seinna í greininni.

Umræðan um Axarveg finnst mér oft á tíðum einkennast af hreppapólitík en ekki hagsmunum heildarinnar. Ég skil vel að menn vilji sér og sínum sem best og ekkert er að því nema þegar það hefur slæm áhrif á aðra og hugsanlega eru betri leiðir færar fyrir alla.

Eins og þetta lítur út fyrir mér þá er verið að stytta veginn svo Djúpavogsbúar geti sótt sína þjónustu með betri hætti í Egilsstaði og Egilsstaðabúar geti verið fljótari að fara suður. Þetta er svo líka stutt þeim rökum að hringvegurinn skuli vera sem stystur og hann muni verða á endanum færður yfir Öxi þegar búið verður að eyða 5000 miljónum króna í hann. Rök sem ég skil ekki, því ef menn vilja hafa hringveginn sem stystan gætu menn allt eins haft hann í kringum Reykjavík og nágrenni. Fyrir mér á hringvegurinn að nýtast sem flestum Íbúum Íslands á sem bestan máta.

Það eru gríðarlegir möguleikar í ferðamennsku á Íslandi, ef það gengur eftir að við munum tvöfalda ferðamannafjölda hinngað frá því sem nú er á næstu 10 árum, erum við að tala um 1.000.000 ferðamenn.  Erum við Austlendingar tilbúnir að taka á móti þeim? Erum við að vinna saman að því að gera Austurland að einum heilstæðum valmöguleika fyrir ferðamanninn til að dvelja hér, njóta þess sem Austurland hefur upp á að bjóða og eyða peningum sínum í byggðum fjórðungsins? Ég held ekki og alls ekki ef menn telja að það sé best að eyða 5000 milljónum í að breyta Axarveginum í ferðamannaveg og að endingu gera hann að Þjóðvegi 1 sem mun beina stórum hluta ferðamanna frá flestum byggðum Austurlands.

Ef menn skoða dæmið þá hlýtur það að henta Egilsstöðum að firðinir séu sterkir og fólk þaðan geti farið upp á Hérað, náð sér í þjónustu og borgað fyrir hana, og það hlýtur að vera gott fyrir firðina að meiri og betri þjónusta byggist upp á Héraði svo ekki þurfi að fara þeim mun lengra til að ná í hana.

Þess vegna vill ég miklu frekar sjá að sem flestir staðir fyrir austan séu tengdir saman með góðum vegasamgöngum svo það myndist betri tengsl milli staðanna og að við getum nýtt okkur þann möguleika sem er í ferðamennsku. Vegurinn um firðina er lífæð þessara staða og við eigum að vinna í að gera þann veg betri svo ferðamaðurinn komi við á sem flestum stöðum og kaupi sér afþreyingu, þjónustu og mat.

Við eigum svo að vinna að því saman að fá göng undir Berufjörðinn og nota peningana sem ætlaðir eru í Axarveg í þá framkvæmd og stytta leiðina fyrir Djúpavogsbúa upp á Hérað þá leið, alveg eins og við eigum að vinna að því að fá betri göng yfir á Norðfjörð.  

Axarvegur er og mun alltaf vera fjallvegur. Hann mun verða lokaður yfir x margar vikur á veturnar og það mun kosta x margar miljónir að reyna að halda honum opnum.  Þegar svo ber við, mun fólk þurfa að fara firðina og allir þungaflutningar munu halda áfram að fara um firðina.  Þannig að þegar menn setjast niður og skoða málin og ýta burtu öllum sérhagsmunum, þá held ég að flestir viðurkenni að vegurinn um firðina megi ekki lokast en það getur Axarvegur, jafnt sem Breiðdalsheiði.

Við eigum ekki endalaust af peningum og þá peninga sem við eigum finnst mér að við eigum að nýta til að byggja upp sameinað Austurland, bygga upp góðar samgöngur sem nýtast flestum íbúum fjórðungsins, mun ýta undir og byggja upp sterka grein í ferðamannsku í fjórðungnum.

Við eigum að vinna að því saman að fá skemmtiferðaskip inn á Seyðisfjörð, Eskifjörð, Djúpavog og  aðra staði í fjórðungnum. Við eigum að hafa samstaf um að sem flest skip geti lagt að í fjórðungun á hverju ári. Við eigum að byggja upp heilstætt plan fyrir þetta fólk sem og aðra ferðamenn sem koma hingað og sýna þeim allt það sem Austurland hefur upp á að bjóða. Við eigum að hugsa um leiðir til að nýta okkur alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum. Til að geta unnið þetta vel saman þá skiptir máli að hafa góðan heilsarsveg sem tengir sem stærstan hluta Austurlands saman og gerir ferðamanninum fært að ferðast þægilega um fjórðunginn.  

Ef við gerum þetta vel og notum þá peninga sem okkur standa til boða í að byggja upp eitthvað varanlegt, eitthvað sem nýtist öllum, þá eigum við góða möguleika á því að Austuland dafni. Ef við eyðum 5000 miljónum í Axarveg þá er ég hræddur um að við séum að henda frá okkur frábæru tækifæri sem stendur okkur til boða í ferðamennsku.

Afhverju er ég að fara yfir þetta?  Jú, því mér finnst við Austlendingar ekki hafa  mikið lært af stöðum eins og Stöðvarfirði sem einu sinni héldu að þeir gætu verið sjálfum sér nógir.  Það var reynt að sameinast, en hrepparígur stóð í vegi fyrir slíku - hrepparígur sem hefur aldrei gert neitt nema að vera til trafala og eyðileggingar.  Þótt okkur hafi nú tekist að sameina sveitarfélög, verðum við að reyna nú að fara upp á hærra plan og gera það sem rétt er fyrir fjórðunginn.

Að lokum vill ég segja þetta.  Ef það á að fara í svona framkvæmdir á annað borð þá á að láta sérfræðinga Vegagerðarinnar ráða því hverning uppbyggingu vega er háttað eða í það minnsta að hlusta á þeirra ráð og skoðanir. Til hvers að hafa sérfærðinga og borga þeim fyrir þekkingu sína ef ekki er hlustað á þá.

Bestu kveðjur,
Ívar Ingimarsson
Stöðfirðingur
En fyrst og síðast Austlendingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar