Vangaveltur á HM-sumri

tota halfdanar juni14Það fer ekki framhjá neinum að Heimsmeistaramótið í knattspyrnu stendur yfir núna og lýkur ekki fyrr en undir miðjan júlí. Stór hópur Íslendinga eyðir daglega tíma sem nemur 8 stunda vinnudegi í að horfa á leikina í sjónvarpi, horfa á spjallþætti um leikina í sjónvarpi, tala um leikina við vini og kunningja, ergja sig yfir dómgæslu, mistökum, framkomu einstakra leikmanna eða þjálfara og svo má lengi telja.

Og samt eru Íslendingar ekki einu sinni með í mótinu, jú reyndar einn sem spilar með bandaríska liðinu, en allir sannir fótboltaáhugamenn tala ekki um hann af því hann sveik lit, hafði val út á sinn tvöfalda ríkisborgararétt og valdi Bandaríkin.

Ég er ekki ein um þá skoðun að það sé illa farið með þá Íslendinga sem ekki hafa áhuga á HM. Aðrir dagskrárliðir eru fluttir til eða felldir niður miskunnarlaust til að hægt sé að senda út beint frá leikjunum eða það sem verra er, blaðra um þá fram og aftur. Sérstaklega finnst mér að fótboltaáhugalausir eldri borgarar og sjúklingar verði fyrir barðinu á þessu. Þeir hafa kannski ekki það val að loka sjónvarpinu og finna sér aðra afþreyingu.

Annað finnst mér ótrúlega ósvífið. Ég horfi oft á DR1, danska sjónvarpið, sem boðið er upp á í þeirri áskrift sem ég er með. Í fyrrakvöld var þessari rás lokað af því að þar var verið að sýna fótboltaleik, sem einnig verið var að sýna í lokaðri dagskrá á Stöð 2! Ekki þar fyrir, mig langaði ekkert að horfa á þennan leik, en það að geta lokað fyrir ákveðið efni á rás sem ég greiði fyrir aðgang að, af því að einkarekin stöð gæti misst af einum áskrifanda !! Er þetta nú hægt?!

Já - því miður virðist allt vera hægt og leyfilegt þegar HM í fótbolta á í hlut.

Hvar er íþróttarás RÚV núna ? Ég væri alveg til í að greiða nokkrum krónum meira í nefskatt til að losna við íþróttirnar út af aðalrásinni. Þar er hins vegar sá hængur á, að RÚV er ekki að standa sig í því að koma efninu til allra þeirra sem borga nefskattinn. Dreifikerfið er snargötótt og óáreiðanlegt og varla hægt að treysta á aðalrásina, hvað þá þessa viðbótarrás sem þeir eru svo montnir af. Hún er ekki fyrir alla – sumir eru jafnari en aðrir þegar kemur að þjónustunni hjá Ríkisútvarpinu.

Við sem búum í dreifðum byggðum landsins, getum ekk notað VOD, ekki notað tímaflakkið á ADSL-inu af því tækjabúnaðurinn í símstöðvunum er frá því fyrir aldamót og sjáum ekki aukarásina hjá RÚV. Við erum aðeins jöfn á einn hátt: Við borgum sama nefskatt og hinir og sama ákriftargjald að ADSL-sjónvarpinu og hinir. Við fáum hins vegar ekki nema brot af þjónustunni.

Ég get alveg horft á einn og einn fótboltaleik og haft gaman af. Það sem mér finnst hins vegar alveg ótrúlega leiðinlegt og tilgangslaust er að hafa þrjá menn í sjónvarpinu fyrir leiki með einhverjar spekingslegar tilgátur um hvernig leikirnir komi til með að spilast, hver hafi nú verið meiddur, töfræðiupptalningar á fyrri úrslitum og hvað annað sem þessu ágæta fólki dettur nú annars í hug. Vangavelturnar eru ótrúlegar.

Mér finnst það reyndar svolítið fyndið þegar leikirnir eru svo búnir, nú eða hálfleikur, þá þurfa þessir ágætu einstaklingar að éta meirihlutann af því sem þeir sögðu fyrir leik, ofan í sig aftur. Það væri virkilegt rannsóknarefni að fara yfir allt sem þarna er sagt og skoða hversu mikið vit er í því. Svona eins og þegar við töku Völvuspána frá janúar í fyrra og förum yfir hvað rættist af spádómunum.

Hvernig væri að hafa bara spjallþátt kl. 3 á daginn, í svona klukkutíma, um alla leiki dagsins – og svo mætti annar vera um miðnættið – eftir leikina ? Þá væri hægt að hafa minni röskun á dagskránni, flýta fréttum um hálftíma í stað klukkutíma. Ég bara spyr?!

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.