Krakkar - svona gerum við ekki!

oli hr sig sfk pixladurÞað er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blanda sér í umræður um yfirvofandi flutning á móttökuhöfn ferjunnar Norrænu frá Seyðisfirði til Eskifjarðar en nú nenni ég ekki að horfa upp á þetta bull lengur og finnst reyndar mér bera ákveðin skylda til að blanda mér í málið, sem fyrrverandi bæjarstjóri Seyðfirðinga og hafnarstjóri Seyðisfjarðarhafnar.

Ekki er annað að sjá en ennþá sé árið 2007 í Fjarðbyggð, því hvernig dettur mönnum í hug að fara að leggja út í gríðarlegan kostnað við að búa til aðra ferjuhöfn á Austurlandi? Lauslega sýnist mér að framreiknaður kostnaður við ferjuhöfnina á Seyðisfirði sé langt á annan milljarð. Höfnin á Seyðisfirði er sérbyggð til að þjónusta þessa ferju. Kostnaðurinn af þeirri framkvæmd féll á ríkið að stærstum hluta en um 20% á Seyðisfjarðarhöfn.

Til að standa undir hlut hafnarsjóðs var gerður sérstakur samningur árið 2000 við Smyril-Line. Í þá gildandi hafnarlögum var engin heimild fyrir gjaldtöku af farþegum og ökutækjum sem um höfnina færu og var því slíkur samningur nauðsynlegur. Verði af flutningi ferjunnar á Eskifjörð verður þessi frábæra ferjuhöfn afskrifuð enda nánast eingöngu nýtt af ferjunni og skemmtiferðaskipum.

Hver borgar hafnarframkvæmdir á Eskifirði?

Miklar breytingar þarf að gera á hafnaraðstöðu á Eskifirði og það verður ekki gert nema með mörg hundruð milljón króna fjárfestingu. Hvernig ætla menn að réttlæta þann fjáraustur? Og til hvers er leikurinn gerður? Af hverju telur hafnar- og bæjarstjórn Fjarðabyggðar að sér bera einhver skylda til að elta duttlunga núverandi stjórnarmanna Smyril-Line? Eða liggja einhverjir aðrir hagsmunir undir í Fjarðabyggð og af hverju segja menn þá ekki bara alla söguna? Það stendur hvergi í hafnarlögum að höfn beri skylda til að leggja í stórkostleg fjárútlát til að þjónusta skipafélag. Hvaða endemis bull er þetta eiginlega?!

Vítt og breytt um landið hefur verið ráðist í hafnarframkvæmdir með gríðarlegum tilkostnaði á þessum sömu bulluforsendum. Til að þjónusta fyrirtæki sem telja sig svo engum skyldum hafa að gegna við viðkomandi bæjarfélag og hafa rokið í burtu með sína starfsemi eða farið lóðbeint á hausinn skömmu eftir að hafnarframkvæmdum hefur lokið. Eftir standa skuldsettar hafnir með engar tekjur. Svona minnisvarða höfum við því miður um allt land. Offjárfestingar í höfnum landsins eru gríðarlegur baggi á mörgum sveitarfélögum og aðeins örfáar hafnir eru sjálfbærar.

Fjarðabyggðahafnir eru gríðarlega vel settar með álvershöfn, stórskipahöfnum og góðum fiskihöfnum. Framtíðartekjur eru tryggar og því þurfa menn ekki leggjast svo lágt að taka þátt í svona skrípaleik. Rekstur Seyðisfjarðarhafnar stendur og fellur með Norrænu og er illt til þess að vita að þeir sem við höfum hingað til talið góða granna og samstarfsfélaga í austfirskri samvinnu skuli ekki einfaldlega svara Smyril-Line á þann máta að það sé ferjuhöfn á Seyðisfirði og þar hafi hún verið síðan 1974. Geti Norræna ekki lengur notað þá ferjuaðstöðu þá verði þeir að greiða þann tilkostnað sem til fellur við nýja ferjuhöfn á Eskifirði.

Smyril-Line bjargað með fé frá Seyðisfirði

Þar með hefði málið verið dautt, þar sem þessi „klúbbur" sem Smyril-Line er hefur alveg frá því að nýja skipið kom barist í bökkum. Margsinnis er búið að færa niður eða afskrifa hlutafé og á örfáum árum hefur fyrirtækið skipt nokkrum sinnum um eigendur. Ekki er lengra síðan en 2009 að það þurfti að afskrifa allt hlutafé í Þrándi í Götu en það félag var stofnað með þátttöku Austfars, Seyðisfjarðarkaupstaðar og nokkurra annara fyrirtækja og sjóða til að taka þátt í að bjarga Smyril Line frá gjaldþroti og endanlegu skipbroti þessara ferjusiglinga til Ísland. Þetta voru tugir milljóna auk stórs láns frá Byggðastofnun, sem Þrándur í Götu tók og þurfti líka að afskrifa að fullu.

Í minni bæjarstjóratíð voru nú ekki mínar áhyggjur þær að þessi ferja færi eitthvað annað heldur snérust þær um það hvort Smyril-Line færi endanlega á hausinn og hætti siglingum. Enda voru sérstök ákvæði sett í samninginn góða frá 2000 um skaðabætur til handa Seyðisfjarðarhöfn ef siglingar Norrænu til Seyðisfjarðar legðust af. Þannig var hafnarsjóður varinn fyrir sinni fjárfestingu frá upphafi og var það gert að kröfu þáverandi fjármálaráðherra Geirs Haarde sem neitaði að skrifa undir gerð hafnarinnar fyrr en þessi samningur lægi fyrir. Við lok samnings sem var til 15 ára var tryggt að höfnin væri búinn að fá inn fyrir sínu framlagi til hafnargerðarinnar.

Ríkisframlagið verður þá það sem afskrifast, verði af flutningi ferjunnar til Eskifjarðar. Þá bætist þetta bara í „Hrunapakkann" sem skattgreiðendur á Íslandi þurfa að leggja út fyrir. Kannski munar ekkert um þessar upphæðir í samanburði við allt hitt kjaftæðið. Nei! Árið 2014 getur enginn leyft sér að fara svona með opinbert fé. Ekki einu sinni sterkríkar Fjarðabyggðahafnir.

Óþarfi að fara á taugum út af Fjarðarheiði

Smyril-Line lætur í veðri vaka að þetta sé allt vegna Fjarðarheiðar. Bara eins og hún hafi allt í einu sprottið upp úr sléttlendinu í vetur. Auðvitað koma erfiðir dagar á fjöllum og þeir eru vissulega búnir að vera óvenju margir síðustu tvo vetur. En menn þurfa nú ekki fara á taumgum þess vegna. Fjarðarheiði er vissulega einhver illvígasti fjallvegur landsins og hefur reynst farartálmi þegar kemur að vetrarsiglingum ferjunnar. En það hafa þó engin stóróhöpp orðið á Heiðinni og ég vil benda mönnum á að rútur og stórir bílar hafa verið að fjúka út af bæði á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og suður með fjörðum síðustu vetur og reyndar líka á Fagradal.

Almennilega búin ökutæki hafa komist sinna ferða um Fjarðarheiði án teljandi óhappa og illa búnir bílar stranda strax í neðstu brekkum sem er bara fínt því þar drepur sig enginn. Stórum bílum stafar mest hætta af hálum vegum og hvössum vindum ekki snjósköflum og snjóruðningum. Þessi vandamál verða síst minni með flutningi ferjunnar á Eskifjörð og þau rök halda hvorki vatni né vindi.

Allt tal um að við séum hugsanlega að missa ferjuna úr fjórðungnum er bull þeirra sem ekkert hafa kynnt sér málið. Lengri siglingaleið en nú er myndi raska öllum forsendum fyrir siglingum ferjunnar en í sumaráætlun er meira að segja alltaf verið að stytta stoppið á Seyðisfirði til að láta áætlun ganga upp. Staðreyndin er sú að Norræna er ferja en ekki skemmtiferðaskip og lengri siglingatími þýðir einfaldlega færri farþega og meiri olíukostnað. Þetta kom m.a. í ljós þegar siglt var um tíma á Esbjerg.

Svona geta menn ekki unnið

Ég held að Smyril-Line ætti að líta sér nær, en óstöðugleiki í vetrarsiglingum ferjunnar hefur ekki verið vegna Fjarðarheiðar heldur miklu frekar af vandræðum sem ferjan lendir í vegna veðurs í Færeyjum, Danmörku eða slæms sjólags í Norðursjó og á úthafinu. Ferðir hafa því oft fallið niður hjá þeim af þessum sökum með tilheyrandi vandræðum fyrir alla og þó sérstaklega fiskútflytjendur sem þurfa að sinna sínum viðskiptavinum niður um alla Evrópu.

Aldrei hefur sú staða komið upp að ekki væri hægt að koma fólki og flutningi í ferjuna yfir Fjarðarheiði, þó að vissulega hafi það stundum tekið á og ferjan jafnvel þurft að seinka brottför um einhverjar mínútur. Vegagerðin hefur staðið sig frábærlega og allir hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar á ferjudögum þar á meðal björgunarsveitin Ísólfur og margir fleiri.

Um samskipti Seyðisfjarðarhafnar og Smyril-Line ætla ég ekki fjalla að þessu sinni enda er það efni í annað og lengra mál en þetta. Þau sam- og viðskipti hafa oft á tíðum verið sérkennileg og ef ekki hefði verið fyrir milligöngu Austfars hefði þau verið enn verri. Nýjasta útspil stjórnar Smyril-Line kemur mér svo sem ekki á óvart og í stíl við annað. Samskipti við skipstjórnarmenn Norrænu og áhöfn hafa hins vegar alltaf verið hin ánægjulegustu.

Vonandi átta þeir sig sem stjórna Fjarðabyggð á því að svona geta menn ekki unnið, bæði hvað varðar fjármuni og þá ekki síður samvinnu Austfirðinga.

Austurlandi allt!

Höfundur er fyrrverandi bæjarstjóri Seyðfirðinga.
Millifyrirsagnir eru Austurfréttar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.