Egilsstaðir ekki þekktir fyrir sjávarútveg

Það vakti athygli og umtal að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) skyldu velja Egilsstaði sem eina áfangastað sinn á Austurlandi í hringferð um landið í vikunni.

Egilsstaðir hafa margt til síns ágætis, hafa í gegnum tíðina orðið að miðpunkti og þar með samkomustað Austurlands, en fyrir sjávarútveg verður staðurinn seint þekktur, nema einhver taki upp á að veiða Lagarfljótsorminn. En leiðin hefur vissulega ekki legið upp á við síðan hausaþurrkun Herðis lokaði.

Gagnrýni kom fram í aðdraganda fundarins að verið væri að halda fundinn á Egilsstöðum meðan blómstrandi sjávarútvegur væri í öllum öðrum byggðum. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, ávarpaði þessa gagnrýni strax í byrjun fundar.

„Við höfum heyrt gagnrýni á að við værum bara á einum stað á Austurlandi. Síðast vorum við á Eskifirði og Höfn í Hornafirði. Nú var kominn tími á nýjan stað.“

Því skal haldið til haga að Egilsstaðir eru ekki gersneyddir allri útgerð. Samkvæmt Fiskistofu er einn bátur skráður með heimahöfn á Egilsstöðum, það er Jóhanna Björk NS122. Báturinn hefur reyndar í gegnum tíðina landað á Eskifirði eða Borgarfirði. En það góða var að það var 100% mæting útgerðarmanna á Egilsstöðum á fundinn!

Hvað hafa Rómverjarnir gert fyrir okkur?


En það var meira sem hafa má gaman af eftir fundinn sem bar yfirskriftina „Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir mig?“ Vopnfirðingurinn Konráð Guðjónsson, aðalhagfræðingur Arion banka, líkti þessu í framsögu sinni við atriði úr gamanmyndinni „The Life of Brian“ þar sem spurt er hvað Rómverjarnir hafi nokkru sinni gert fyrir þeirra undirokuðu þjóð.

Sá listi er býsna langur: heilbrigði, menntun, vín, áveitukerfi, vegir og jafnvel friður, kannski ekki óþekkur þeirri upptalningu sem SFS var með á fundinum um hvernig útflutningsverðmæti og skattar af sjávarútveg standa undir ríkisútgjöldum til háskóla, framhaldsskóla, Landsspítalans, löggæslu og öðru hérlendis.

En rétt eins og SFS kalla eftir að umræða um veiðigjöldin sé ekki slitin úr samhengi, bara horft á eina tölu, þá má áfram rifja upp lífshlaup Brians svo það sé ekki heldur slitið úr samhengi. Það er vel þess virði enda um einstaka ádeilu á öll pólitísk öfl að ræða. Varað skal við að eftirfarandi kann að spilla myndinni fyrir þau sem ekki hafa enn séð hana.

Brian er fæddur í næsta fjárhúsi við Jesús. Þegar hann vex úr grasi eykst andstaða hans við meina kúgun herraþjóðarinnar. Hann kemur sér í vandræði þegar hann skrifar slagorð gegn Rómverjunum og til að gera langa sögu stutta þá er hann handtekinn og krossfestur.

En svo langt var samlíkingunni vart ætlað að ná ..!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.