„Þetta var svolítið poppað“

„Við erum í það minnsta fámennasti skólinn sem tók þátt í riðlinum, þannig að þetta er alveg frábært,“ segir Stefanía Malen Stefánsdóttir, skólastjóri Brúarásskóla, um sigur skólans í Austurlandsriðil í Skólahreysti og verður skólinn fulltrúi Austurlands í lokakeppninni sem verður í Laugardalshöllinni þann 26. apríl.



Níu skólar kepptu í riðlinum en lið Brúarásskóla skipa þau Arna Skaftadóttir, Hólmar Logi Ragnarsson, Sigríður Tara Jóhannsdóttir og Styrmir Freyr Benediktsson, varamenn voru Arney Ólöf Arnardóttir og Mikael Helgi Ernuson. Fengu þau 40 stig samtals og Arna Skaftadóttir gerði flestar armbeygjur í Austurlandariðli í ár, eða 45.

Verður þetta að teljast glæsilegur árangur í ljósi þess að aðeins eru 39 nemendur í skólanum. Átta þeirra eru á þeim aldri sem gjaldgengur er í keppnina, þ.e nemendur í 9. og 10. bekk, en hvert lið er skipað fjórum einstaklingum og tveimur varamönnum.


Óraði ekki fyrir sigri

Brúarásskóli hefur verið með í keppninni frá árinu 2013. „Það hefur verið allskonar, hefur alveg farið niður í það að vera aðeins með þrjá nemendur í níunda bekk til dæmis. Markmiðið okkar hefur þó alltaf verið að verma ekki botnsætið og við höfum verið að hanga í svona fimmta, sjötta sæti hingað til.

Þetta var því auðvitað rosalega skemmtilegt. Þau unnu aðeins eina grein en voru „jafngóð“ út í gegn. Þjálfarinn þeirra var búinn að segja að þau yrðu líklega í „topp fjögur“ en sjálfri þótti mér það afar bjartsýnt og ég held að engan hafi órað fyrir að þau stæðu uppi sem sigurvegarar – þetta var svolítið poppað.“



Hefði kostað hálfa milljón að fljúga

Stefanía Malen segir að mikil gleði hafi að vonum brotist út eftir sigurinn og alla nemendur skólas dreymi um að komast suður á lokakeppnina. „Við erum svo fá að allir nemendur skólans hafa fengið að fara á Austurlandsriðilinn til þess að hvetja okkar lið. Við áttuðum okkur fjótt á því að ekki myndi ganga að fara með alla suður, aðeins unglingadeildina, 8.-10. bekk.“

Stefanía Malen segir ekkert annað í stöðunni en að keyra suður. „Ég skoðaði það að fljúga með hópinn og það gerðu tæplega 500 þúsund krónur þannig að við getum gleymt því. Við munum því leigja bíl og skólastjórinn keyrir, það er ekki flóknara en það.“



„Allir geta náð langt“

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Skólahreysti, segir að keppnin fari sífellt vaxandi og dæmi sem þetta sé það sem geri vinnuna við hana sérstaklega ánægjulega.

„Ég held ég geti fullyrt að Brúarásskóli er að koma inn í úrslitinn með minnsta hóp nemenda sem hefur átt kost á því að keppa. Það er alltaf horft til stóru skólanna, en þetta bara sannar að það geta allir náð langt, það eina sem þarf er að standa saman og æfa vel,“ segir Andrés.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.