Körfubolti: Höttur úr leik í bikarnum eftir framlengingu

Höttur féll úr leik í bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir 96-85 ósigur gegn Breiðabliki í framlengdum leik í gærkvöldi. Hattarmenn fengu alls fjórar villur fyrir óíþróttamannslega framkomu á lokasekúndunum þegar úrslitin voru orðin ljós.

Breiðablik er í fyrstu deild en Höttur í úrvalsdeild. Það sást hins vegar ekki á liðunum í gær. Leikurinn var afar jafn, alls skiptust liðin 14 sinnum á forustunni og 15 sinnum var jafnt.

Jeremy Smith var nokkuð laus hjá Blikum í fyrri hálfleik og skoraði 17 stig en í þriðja leikhluta héldu Hattarmenn honum alveg niðri. Þá losnaði hins vegar um aðra leikmenn og segja má að heimamenn hafi átt öllu stóru skotin í leiknum og þeir virtust alltaf hitta á þau þegar á þurfti að halda.

Stirður sóknarleikur

Þótt varnarleikur Hattar hafi gengið þokkalega virtist sóknin alltaf fremur stirð. Mirko Virijevic átt einn sinn daprasta dag í sókn Hattar, nýtt fimm skot af 15 og Blikar virtust nokkurn vegin með það á hreinu hvernig átti að hægja á honum, en á móti tók hann 17 fráköst.

Bandaríkjamaðurinn Kelvin Lewis skoraði 16 stig. Í jöfnum leikjum sem þessum þyrfti Höttur að fá meira framlag frá honum á ögurstundu.

Á átta mínútna kafla, frá miðjum öðrum leikhluta fram í miðjan þriðja leikhluta, skoraði Höttur aðeins fimm stig. Þá tók liðið hins vegar við sér og vann upp sjö stiga forustu Breiðabliks á tveimur mínútum.

Stórar körfur Blika

Um miðjan fjórða leikhluta var Höttur með vænlega stöðu, 70-75 en þá kom ein þriggja stiga karfan frá Ragnari Jósef Ragnarssyni, sem skoraði mikilvægu körfurnar fyrir Blika í gær.

Önnur stór karfa kom frá Jeremy þegar rúm mínúta var eftir en með henni komst Breiðablik í 79-77. Bergþór Ríkharðsson, sem átti fínan leik fyrir Hött í gær, jafnaði þegar 18 sekúndur voru eftir og Hattarmenn stöðvuðu síðustu sókn Blika til að komast í framlengingu.

Vendipunkturinn í framlengingunni var þegar ein og hálf mínúta var eftir. Í stöðunni 87-85 náðu Hattarmenn að vinna boltann í vörninni. Í stað þess að jafna voru þeir í vandræðum með að komast fram yfir miðju og fengu dæmdar á sig átta sekúndur. Blikar skoruðu úr næstu sókn og voru þar með komnir í kjörstöðu.

Síðustu sekúndurnar voru heimamenn á vítalínunni eftir að Hattarmenn misstu hausinn. Lewis fékk tvær tæknivillur fyrir kjaftbrúk og þar með útilokun, aðstoðarþjálfarinn Oddur Benediktsson fékk eina í viðbót og loks var dæmd óíþróttamannsleg villa á Nökkva Jarl Óskarsson fyrir grófan leik.

Skref í vitlausa átt eftir góða leiki að undanförnu

Höttur þarf því að bíða lengur eftir að komast í fyrsta sinn í undanúrslit bikarkeppninnar og þjálfarinn Viðar Örn Hafsteinsson var fremur súr eftir leikinn.

„Leikur okkar var of kaflaskiptur. Við gerðum of mikið af aulafeilum sem við höfum ekki séð í lengri tíma. Það er hundsvekkjandi að ná ekki að fylgja eftir góðum leikjum að undanförnu. Á sama tíma gerðu Blikarnir vel og skutu niður stórum skotum.

Mér fannst við ekki rétt stemmdir. Við pirruðum okkur fullmikið á hinu og þessu fullsnemma og það var sem við héldum að það kæmi eitthvað af sjálfu sér.

Okkur virðist vanta andlegan styrk og sjálfstraust til að klára leiki. Þegar búið er að vera erfitt er erfitt að stíga yfir hjallann og mér fannst það skína í gegn undir lokin.

Tæknivillurnar endurspegla ákveðið hausleysi, þarna voru óþarfa brot. Það falla dómar hér og þar sem pirra okkur en við verðum að einbeita okkur að því sem við getum haft stjórn á. Krafturinn og einbeitingin fór ekki á rétta staði.“

Síðasti leikur Hattar í úrvalsdeildinni er í Njarðvík á fimmtudagskvöld. „Við tökum tvær léttar æfingar fyrir þann leik. Menn eru einskis nýtir í þann leik ef þær ætla að hanga yfir þessum úrslitum.“

Þróttur á toppnum

Öllu jákvæðari fréttir af austfirskum íþróttaliðum eru frá Norðfirði því kvennalið Þróttar er í efsta sæti Mizuno-deildar kvenna. Liðið vann Völsung 0-3 um síðustu helgi eða 17-25, 18-25 og 21-25 í hrinum.

Liðið tekur á móti Þrótti Reykjavík í síðasta leik sínum fyrir jól á föstudagskvöld. Það hefur eins stigs forustu á Aftureldingu í deildinni en liðin hafa bæði spilað átta leiki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.