Knattspyrna: Höttur og Fjarðabyggð leita að markvörðum

Austfjarðaliðin Höttur og Fjarðabyggð leita að nýjum markvörðum fyrir seinni hluta Íslandsmótsins í knattspyrnu eftir að hafa misst aðalmarkverði sína í gær. Vika er þar til félagaskiptaglugginn lokar.


Sveinn Sigurður Jóhannesson, sem reynst hefur vel í marki Fjarðabyggðar, fór meiddur af velli um miðjan seinni hálfleik þegar liðið tapaði fyrir Huginn á Seyðisfirði í gærkvöldi.

„Þetta er rifinn lærvöðvi svo hann er frá út tímabilið þannig við þurfum í markmannsleit,“ sagið Víglundur Páll Einarsson, þjálfari Fjarðabyggðar, í samtali við Austurfrétt efir leikinn.

„Þetta er mikill missir því Sveinn hefur verið frábær fyrir okkur auk þess sem hann er yndislegur drengur og mikill karakter. Það eru sex dagar í næsta leik og þá þurfum við að vera komnir með markmann þannig það fer allt á fullt í kvöld.“

Varnarmaðurinn Andri Þór Magnússon fór í markið en Þorvaldur Marteinn Jónsson, sem verið hefur á bekknum í sumar og í markinu á undirbúningstímabilinu, er staddur erlendis.

Höttur leitar einnig að nýjum markverði. Í markinu hefur staðið Sigurður Hrannar Björnsson líkt og í fyrra að láni frá Víkingi. Í vetur hugðist hann spila sem lánsmaður hjá Fram en þegar nýr markvörður kom til félagsins skömmu fyrir mót skipt hann yfir í Hött.

Lánssamningum við Hött hefur verið rift og Sigurður Hrannar fékk leikheimild sem lánsmaður hjá Fram í gær.

Leiknir Fáskrúðsfirði hefur fengið til sín Andres Salas Trenas, 31 árs gamlan spænskan varnarmann sem gjaldgengur er gegn Selfossi á morgun. Hann kemur hingað frá Gíbraltar en hefur nær allan sinn feril spilað á Spáni.

Anton Freyr Ársælsson sem spilað hefur þrjá leiki í sumar með Huginn sem lánsmaður frá Fjölni er farinn aftur í uppeldisfélagið. Huginn leitaði einnig til Gíbraltar og fann þar spænska framherjann Diego Merchan sem skoraði í sínum fyrsta leik með liðinu gegn Selfossi á laugardag.

Karítas Anja Magnadóttir hefur skipt úr Einherja í Hamrana. Karítas var lykilmaður í liði Einherja í fyrra þegar hún skoraði þrjú mörk í tíu leikjum en hefur aðeins spilað tvo leiki í deildinni í sumar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.