Knattspyrna: Fögnum innilega þessum þremur stigum

Fjarðabyggð náði í þrjú dýrmæt stig í fallbaráttunni í annarri deild karla með 3-1 sigri á Knattspyrnufélagi Vesturbæjar á laugardag. Þjálfarinn er bjartsýnn fyrir lokasprettinn í deildinni.


„Þessi sigur var mjög mikilvægur. Þótt við séum ekki komnir upp úr fallsæti erum við í fyrsta sinn síðan í byrjun jafnir liðunum fyrir ofan okkur að stigum.

Því fögnum við innilega þessum þremur stigum. Þetta eru frábær úrslit eftir erfitt sumar,“ segir Dragan Stojanovic, þjálfari Fjarðabyggðar.

Hafsteinn Gísli Valdimarsson kom Fjarðabyggð yfir á fimmtu mínútu en gestirnir jöfnuðu úr víti eftir hálftíma leik. Í seinni hálfleik tryggðu Morten Levinsen og Georgi Karaneychev Fjarðabyggð sigurinn.

„Ég talaði um það í klefanum fyrir leik að byrja af krafti og það gerðum við með marki, sem var frábært. Stundum gerist það í fótboltanum að lið gefa eftir þegar þau byrja vel, það gerðist hjá okkur og þá jafnaði KV. Í seinni hálfleik tókum við aftur tökin á leiknum og kláruðum frábærlega.“

Fjarðabyggð styrkti sig talsvert í júlí og þá komu meðal annars Hafsteinn og Morten til liðsins. „Leikmennirnir sem við fengum þá hafa spilað mjög vel og fallið vel inn í hópinn. Þeir hafa gefið okkur mikla trú fyrir það sem framundan er.“

Fjarðabyggð er enn í fallsæti þegar sex umferðir eru eftir en með 17 stig líkt og KV sem er ofar á markamun. Þá er Tindastóll aðeins stigi ofar.

„Ég er mjög bjartsýnn á það sem eftir er af deildinni. Ég hef trú á að við getum klárað hana flott og vel,“ segir Dragan.

Fátæklegt hjá öðrum liðum

Höttur er aðeins fjórum stigum frá Fjarðabyggð. Liðið lagði Sindra á föstudag en Hornafjarðarliðið á aðeins eftir að falla formlega. Jóhann Valur Clausen og Nenad Zivanovic skoruðu mörkin í 2-1 sigri.

Huginn er í þriðja sæti með 28 stig eins og Víðir en þremur stigum frá Magna sem er í öðru sæti. Huginn gerði markalaust jafntefli í gær við Vestra. Aðeins tveir leikmenn voru á varamannabekk Seyðisfjarðarliðsins í leiknum á Ísafirði.

Staðan batnar ekki hjá Leikni í fyrstu deildinni sem tapaði 3-2 fyrir Fram í gær. Jesus Suarez skoraði tvö mörk fyrir Leikni sem var 1-2 yfir í hálfleik. Tvö mörk Frammara í byrjun seinni hálfleiks breyttu stöðunni.

Vonir Einherja um að gera tilkall til þess að fara upp úr þriðju deildinni í sumar eru að hverfa. Liðið tapaði 2-1 fyrir Dalvík/Reyni um helgina. Mörkin komu öll á fjögurra mínútna kafla í leiknum og var það Dilyan Kolev sem jafnaði fyrir Einherja.

Austfirsku kvennaliðin snéru stigalaus heim úr þremur leikjum syðra. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tapaði 4-1 fyrir Álftanesi á föstudag þar sem Elma Sveinbjörnsdóttir skoraði mark Austfjarðaliðsins í uppbótartíma. Í gær tapaði liðið 1-0 fyrir Augnabliki. Það urðu einnig úrslitin í leik Einherja gegn Aftureldingu/Fram.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.