Knattspyrna: Átján ára skoraði þrennu og hélt lífi í vonum Leiknis

Leiknir Fáskrúðsfirði á enn möguleika á að halda sæti sínu í fyrstu deild karla í knattspyrnu eftir 6-0 sigur á Haukum um helgina. Fjarðabyggð vann mikilvægan sigur á Huginn í fallbaráttu annarrar deildar en Höttur flæktist enn frekar í hana. Kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis lauk tímabilinu með góðum útisigri.

„Það er gaman að vinna 6-0 en ég hefði gjarnan viljað dreifa þessum mörkum á fleiri leiki,“ segir Viðar Jónsson þjálfari Leiknis um sigurinn.

Leiknir var 1-0 yfir í hálfleik eftir mark Dags Inga Valssonar um miðjan fyrri hálfleik. Hann bætti við öðru marki fjórum mínútum eftir leikhlé.

Björgvin Stefán Pétursson skoraði þriðja mark Leiknis á 60. mínútu. Fimm mínútum síðar varnarmanni Hauka vikið af velli fyrir brot á Degi Inga sem kominn var í upplagt marktækifæri. Það hafði engin áhrif á Dag sem á sömu mínútunni fullkomnaði þrennu sína. Hilmar Freyr Bjartþórsson og Povilas Krasnovskis bættu síðan við sínu markinu hvor.

Vaskleg framganga Dags Inga vekur athygli en hann varð átján ára gamall þremur dögum fyrir leikinn. „Hann fengið nokkur tækifæri í byrjunarliðinu hjá okkur í sumar. Fyrir leikinn sagði ég honum að það eina sem ég vildi sjá hann bæta væri að hann yrði meðal markaskorara leiksins. Hann tók því ágætlega.“

Sigurinn hefði getað orðið stærri

Að mati Viðars var leikurinn jafnari en markatalan gefur til kynna. „Leikurinn var jafn þar til við skoruðum annað markið. Þeir skutu í slá úr dauðafæri í lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni bjargaði markvörðurinn okkar frábærlega.

Mér fannst þeir gefa eftir þegar við skoruðum aftur. Eftir rauða spjaldið yfirspiluðum við þá gjörsamlega og sigurinn hefði hæglega getað orðið stærri.

Enn er möguleiki en ekki mikill

Með sigrinum náði Leiknir í sinn fyrstu stig og sigur síðan 24. júní. Líkurnar á að liðið haldi sér uppi en þó enn fjarlægar. Liðið þarf að vinna báða leikina á eftir og treysta að auki á hagstæð úrslit til að snúa markatölu upp á 13 mörk.

Aldrei skal þó segja aldrei um Leikni eftir ævintýralega björgun liðsins í fyrra. Liðið mætir næst ÍR á útivelli, liðinu sem þarf að ná. Í síðustu umferðinni á Leiknir svo heimaleik gegn Þór Akureyri.

„Markmiðið var að vinna Haukaleikinn til að hafa einhverju að keppa í síðustu leikjunum, að fara inn í leikina og vita að það væri möguleiki þótt hann væri ekki mikill. Fyrst við skoruðum þessi mörk opnar það betri möguleika en það er langt í frá að við séum komnir í örugga stöðu.“

Höttur einu stigi frá falli

Í fallbaráttu annarrar deildar vann Fjarðabyggð mikilvægan sigur á Huginn 1-0 á Eskifirði. Zoran Vujevic skoraði markið á 19. mínútu.

Höttur var hársbreidd frá að vinna Magna á heimavelli en gestirnir jöfnuðu úr aukaspyrnu í uppbótartíma. Þeir höfðu reyndar komist yfir 1-0 en Hattarmenn snéru við blaðinu og voru 2-1 yfir í hálfleik. Annað markvið var sjálfsmark en Kristófer Einarsson skoraði hið seinna. Hrafn Aron Hrafnsson skoraði þriðja mark Hattar á fimmtu mínútu seinni hálfleiks en hann kom inn á í hálfleik.

Eftir helgina er KV í fallsætinu með 21 stig þar sem liðið tapaði fyrir Tindastól en Höttur er með 22. Fjarðabyggð er með 24 stig og Vestri einnig eftir sigur á Aftureldingu. Höttur tekur á móti Fjarðabyggð um næstu helgi.

Einherji vann Fjallabyggð 2-0 á Vopnafirði í þriðju deildinni í gær. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði úr víti strax á annarri mínútu og Todor Hristov bætti við öðru á sjöttu mínútu. Bjartur Aðalbjörnsson fékk rauða spjaldið á 70. mínútu, hans þriðju í sumar.

Sterk vörn, veik sókn hjá Einherja

Í annarri deild kvenna vann Fjarðabyggð/Höttur/Leikni Völsung á Húsavík í lokaumferðinni. Halla Helgadóttir, Jóhanna Lind Stefánsdóttir, Elma Sveinbjörnsdóttir og Adna Mesetovic skoruðu mörkin. Einherji tapaði hins vegar 0-3 fyrir Fjölni.

Höttur lauk tímabilinu í sjöunda sæti af níu með 18 stig og markatöluna 26-32. Einherji varð í áttunda sæti með 9 stig með markatöluna 9-24. Auðvelt er að benda á að sóknarleikurinn var fjötur liðsins í sumar en vörnin var með þeim betri í deildinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.