Hreyfivika: Rykið smúlað af rykugum reiðhjólum fyrir stelpuhjólatúr

Um fjörtíu konur mættu í hjólaferð sem skipulögð var í tilefni Hreyfiviku UMFÍ á Egilsstöðum í gærkvöldi. Þær voru afar ánægðar með ferðina í lokin.


„Þetta var frábær ferð í góðu veðri og flottum og nærandi félagsskap,“ segir Linda Pehrsson.

Farið var frá sundlauginni og inn Velli. Í boði voru tvær leiðir, 17 og 10 km áður en hjólað var til baka og endað í tískuvöruversluninni River. „Það var smá vindur á móti í byrjun en blessunarlega snéri hann sér ekki á meðan við hjóluðum,“ segir Jóhanna G. Hafliðadóttir.

Konurnar segjast hafa mætt í ferðina á misjöfnum forsendum. „Vinkona mín sendi mér auglýsinguna. Hún er alls ekki hér en ég kom og er ógeðslega ánægð,“ segir Sigurrós Sigurðardóttir.

„Ég hef ekki hjólað síðan í fyrra. Það þurfti að smúla hjólið áður en ég kom því það var svo rykugt en ég gat þetta og er ægilega ánægð.“

Þær voru ánægðar þegar til baka var komið. „Ég var næstum búin að gleyma hvað það er gaman að hjóla. Það fylgir því frelsi að hjóla. Ég hjólaði mikið áður en hef ekki mikið gert það að undanförnu,“ segir Jóhanna.

„Ég hjóla reglulega og fannst tilvalið að taka þátt í þessum samfélagslega viðburði þar sem konur komu saman til að hjóla saman,“ segir Linda.

Dagskrá Hreyfivikunnar á Austurlandi má finna með að smella hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.