HötturTV komið í háskerpu

Hægt er að fylgjast með heimaleikjum Hattar í körfuknattleik beint í háskerpuútsendingu á netinu. Leikurinn gegn KR verður aðgengilegur á þann hátt. Mikill áhugi er meðal brottfluttra á útsendingunum.


„Það horfðu um 100 manns á fyrstu leikina og það er viðbúið að þeir verði fleiri á leiknum í kvöld. Fyrst og fremst eru þetta brottfluttir en síðan bætast við áhugamenn um körfubolta, svo sem leikmenn annarra liða.“

Þetta segir Jón Magnús Eyþórsson sem borið hefur hitann og þungan af því að koma á útsendingunum. Stofnuð hefur verið rás á YouTube undir nafninu Höttur TV þar sem leikirnir eru sýndir, líkt og mörg önnur íþróttafélög hafa gert. Aðalstjórn Hattar keypti þann búnað sem til þarf og fékk stuðning hjá Nýherja til þess.

Þar með er hann aðgengilegur fyrir allar deildir félagsins en til stendur að senda beint út frá knattspyrnuleikjum í sumar ef betri nettenging fæst í Hettuna. Uppfærð tenging í íþróttahúsið var það sem gerði háskerpuútsendingarnar mögulegar.

„Við komum okkur upp búnaði og prófuðum okkur áfram með útsendingar fyrir áramót en tengingin var flöskuhálsinn,“ segir Jón Magnús.

Enn er eftir að bæta við búnaði, svo sem vél í loftið sem beint er að stigatöflunni. Stefnt er að því að sýna alla heimaleiki, bæði í deild og bikar. Einn þeirra verður gegn Íslandsmeisturum KR klukkan 18:30 í kvöld.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.