Helgin: Verður Íslandsmeistari í torfæru krýndur á Egilsstöðum á morgun?

Guðmundur Ingi Arnarson á góða möguleika á að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í flokki sérútbúinna bíla á torfærukeppni sem haldinn verður skammt frá Egilsstöðum á morgun. Fjöldi tónleika er í boði um helgina.


Sautján keppendur eru skráðir til keppni í torfærukeppni Akstursíþróttafélagsins Start sem hefst í Mýsnesgrús klukkan eitt á morgun. Fimm bílar eru í flokki götubíla en tólf í flokki sérútbúinna.

Þeir keyra sex brautir og enda á tímaþraut. Vanalega hefur verið keyrt yfir stóran poll með vatni úr Lagarfljóti í Egilsstaðakeppninni í þrautinni en Ástráður Ási Magnússon úr torfæruráði Start segir hana verða með breyttu sniði í ár.

„Pollurinn er ekki hefðbundinn. Það keyra tveir bílar í tímaþrautinni í einu sem á að gera hana meira fyrir augað.“

Ástráður Ási er meðal þeirra sem unnið hafa við að hanna og leggja brautirnar sem keyrðar verða. Að ýmsu þarf að hyggja þegar það er gert.

„Þær þurfa að reyna á ökuleikni og vera nógu erfiðar. Það er orðið pínu erfitt að leggja brautirnar því bílarnir eru svo kraftmiklir að þeir komast eiginlega allt.“

Fulltrúar Austfirðinga að þessu sinni verða Ólafur Bragi Jónsson á Refnum, Gunnlaugur Helgason á Galdragul og Kristmundur Dagsson á Tímaurnum. Enginn þeirra á þó möguleika á Íslandsmeistaratitlinum en honum getur Guðmundur Ingi Árnason á ljóninu landað.

Verðlaun fyrir keppnina, sem er sú fimmta í röðinni af sex í Íslandsmótinu, verða afhent í grillveislu á Kaffi Egilsstöðum annað kvöld.

Nóg af tónlist

Tónlistarmaðurinn Mugison gerir víðreist um Austurland um helgina en hann byrjar á Eistnaflug í Neskaupstað í kvöld. Á morgun spilar hann í Seyðisfjarðarkirkju, í Fjarðarborg á Borgarfirði á sunnudag og Kaupvangi á Vopnafirði á mánudag. Tónleikar hans hefjast klukkan 21:00.

Að auki heldur Lay Low tónleika á Borgarfirði í kvöld sem hefjast klukkan 21:00.

Síðasta Tónlistarstund sumarsins í Vallaneskirkju verður á sunnudagskvöld klukkan 20:00. Elísabet Þórðardóttir, nýútskrifaður kantor úr Tónskóla þjóðkirkjunnar leikur þar á orgel.

Íþróttir

Fyrir knattspyrnuáhugafólk má benda á botnslag Leiknis og ÍR í fyrstu deild karla í knattspyrnu í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan tvö á morgun. Á sama tíma heimsækir Fjarðabyggð Sindra á Höfn, Huginn Tindastól og Einherji KFG í Garðabæ.

Austfirsku kvennaliðin spila tvo leiki hvort á höfuðborgarsvæðinu. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir mætir Fjölni í kvöld og Gróttu á sunnudag en Einherji heimsækir Augnablik á morgun og Hvíta riddarann á sunnudag.

Þeir sem vilja frekar hreyfa sig sjálfir geta mætt í vatnszúmba klukkan ellefu á sunnudagsmorgun á Egilsstöðum. Sumarhátíð UÍA er einnig í fullum gangi um helgina en keppt er í pútti, boccia, frjálsíþróttum, borðtennis, fjallahjólreiðum og bogfimi.

Ekki má skilja við helgina án þess að minnast á spilakvöld sem haldið verður í Löngubúð í kvöld klukkan 21:00.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.