„Hann stefnir á að vinna mig fyrir sumarlok“

„Þorsteinn er farinn að nálgast mann skuggalega mikið og hann stefnir á að vinna mig fyrir sumarlok, sem er alls ekki fjarlægur möguleiki,“ segir Haraldur Gústafsson, bogfimiþjálfari, um frábæran árangur Þorsteins Ivans Bjarkasonar, sem bætti íslandsmetið í bogfimi verulega á Íslandsmóti innanhúss undir 15 ára í Reykjavík um helgina.



Þrír keppendur frá SKAUST (Skotfélagi Austurlands) kepptu á mótinu, Þorsteinn í unglingaflokki, sem og Haraldur og Guðný Gréta Eyþórsdóttir í opnum flokki, 21 árs og eldri. Öll unnu þau til verðlauna en Guðný Gréta Eyþórsdóttir sigraði í opnum flokki ólympískum sveigboga kvenna. Haraldur Gústafsson vann bronsverðlaun í opnum flokki ólympískum sveigboga karla.

Haraldur og Guðný Gréta hafa unnið sér inn rétt til þess að keppa á Smáþjóðaleikunum sem haldnir verða í San Marino í vor, en það gerðu þau með því að hafna í einu af þremur efstu sætunum í stigakeppni á Íslandsmeistaramóti utanhúss í fyrra. Þar munu þau keppa bæði í einstaklingskeppni og liðakeppni á 70 metra færi.

 


Efnilegur frá fyrstu æfingu

Þorsteinn var hástökkvari mótsins og sló fyrra íslandsmet frá árinu 2013 með miklum mun, eða 30 stigum sem er mjög mikið í þessari grein. Í frétt um mótið á heimasíðunni Archery.is segir að tvisvar sinnum hafi þurft að skipta skífunni hans út í mótinu þar sem hann sleit tíunni svo fljótt.


Haraldur segir Þorstein hafa verið efnilegan frá því á fyrstu æfingu fyrir einu og hálfu ári síðan. „Hann fór strax að skjóta mjög vel og hefur verið á stöðugri uppleið eins og sýndi sig um helgina þegar hann bætti fjögurra ára gamla metið verulega,“ segir Haraldur.


„Þetta er hálfgerð hugleiðsla“

Sjálfur hefur Haraldur stundað bogfimi frá því 2013, en hann er stofnandi bogfimideildarinnar innan SKAUST. Aðspurður að því hvað heilli segir hann: „Allt. Þetta er mjög tæknileg íþrótt sem krefst mikillar nákvæmni og sjálfsaga. Mér finnst það mjög heillandi og maður hverfur hálfpartinn inn í sjálfan sig á meðan, þetta er hálfgerð hugleiðsla. Það hentar mér afar vel þar sem ég er sjúklingur og get ekki verið á hlaupum eða í einhverjum látum.“

Haraldur segir að þó svo hann hafi aðeins stundað íþróttina í fjögur ár hafi hann alla tíð haft áhuga á íþróttinni. „Maður bjó sér til boga og örvar úr rörum og dóti í æsku en ég fann áhuganum ekki farveg fyrr en þarna.“

Hér má lesa allt um mótið og úrslitin. Hér er Facebooksíða bogfimideildarinnar.

Þorsteinn Ivan Bjarkason

Harldur og Guðný Gréta Eyþórsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.