Finnur Freyr: Guðslifandi feginn að komast í burtu með sigur

Finni Frey Stefánssyni, þjálfara KR, var létt eftir að lið hans marði 87-92 sigur á Hetti í fjórðungsúrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í gærkvöldi. Hann var ósáttur við leik sinna manna.


„Við vorum í bullandi vandræðum hér í dag, líkt og síðasta deildarleik og ég er guðslifandi feginn að komast í burtu með þennan sigur. Hattarmenn gerðu virkilega vel í dag, réðust á okkur og voru yfir þegar stutt var eftir. Auðvitað var ég smeykur þá,“ sagði Finnur Freyr í samtali við Austurfrétt eftir leikinn..

Höttur, sem er deild neðar en ríkjandi Íslandsmeistarar, var yfir 87-86 þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum. Síðustu stigin voru hins vegar gestanna.

„Darri (Hilmarsson) kemur okkur yfir eftir innkastkerfi og svo á Jón Arnór (Stefánsson) stórt skot, loksins náum við að stoppa sókn Hattar og kláruðum leikinn af vítalínunni. Það munaði ekki meiru en það. Þetta hékk á bláþræði.“

Hann hrósaði Hattarmönnum fyrir frammistöðuna en var ekki sáttur við eigið lið.

„Ég er mjög ósáttur við okkar frammistöðu og hvernig við komum til leiks. Við gáfum Hattarmönnum smjörþefinn af því hvernig er að vera yfir gegn okkur í byrjun og þeir gengu á lagið.

Viðar gamli átti stór skot, Hreinn Gunnar, Sigmar og Ragnar hittu vel í byrjun og þegar leið á leikinn stigu Moss og Mirko upp. Við vissum að Hattarliðið væri með sterka skotmenn og Moss væri búinn að vera öflugur.

Það er ekki tilviljun að liðið er á toppnum í fyrstu deildinni og er hér með sterkan heimavöll sem vel er mætt á þannig að það var viðbúið að þetta yrði erfitt.

Varnarleikurinn okkar var sjaldan eins góður og hann á að vera, þótt við kæmumst yfir duttum við alltaf niður og við vorum að klúðra galopnum skotum í lokin sem er til marks um einbeitingarleysi eða eitthvað álíka. Ég er því verulega ósáttur við frammistöðuna þótt ég sé hrikalega ánægður með að vera kominn í undanúrslitin.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.