Draumabyrjun Einherja: Fullt hús stiga

Einherji er í efsta sæti þriðju deildar karla í knattspyrnu eftir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína og er eina liðið í efstu fjórum deildum Íslandsmóts karla í knattspyrnu sem státar af þeim árangri. Árangurinn er enn merkilegri í ljósi þess að vart er hægt að ná öllum hópnum saman fyrr en um miðjan júní.


„Það er ekki hægt að neita því að þetta er draumabyrjun. Hana má þakka vinnuframlagi leikmanna, góðu skipulagi og þéttum og góðum varnarleik. Síðan hefur Todor Hristov skorað í öllum leikjunum,“ segir þjálfarinn Víglundur Páll Einarsson.

Sigur Einherja á Dalvík/Reyni á Vopnafirði á föstudagskvöld endurspeglaði allt þetta. Liðið hélt hreinu og Todor skoraði sigurmarkið sjö mínútum fyrir leikslok.

„Þeir voru vel skipulagðir og erfitt að brjóta þá niður en við vorum þolinmóðir og agaðir og fengum nógu mörg færi til að skora eitt mark.“

Stöðugleikinn skiptir máli

Hinn þrítugi Todor er að hefja sitt þriðja tímabil með Einherja. Hann hefur spilað 38 deildarleiki fyrir liðið og skorað í þeim 32 mörk. Hann og Dilyan Kolev komu báðir á Vopnafjörð sumarið 2015 og hafa sest þar að.

Víglundur segir það skipta máli að hafa slíkan stöðugleika í leikmannahópnum. „Hópurinn er þunnskipaður, við erum ekki nema 15-16 og liðið kemur ekki saman fyrr en um 17. júní þegar allir eru búnir í skóla.

Þess vegna er mikilvægt að þekkja þá sem maður hefur í höndunum. Það væri erfiðra að þurfa að setja alltaf saman nýtt lið.“

Deildin aldrei jafnari

Undirbúningstímabilið hjá Einherja var snarpt en nýttist vel. Víglundur, sem þjálfaði Fjarðabyggð í fyrra eftir að hafa verið með Einherja í nokkur ár þar á undan, tók við liðinu í lok febrúar, viku fyrir fyrsta leik í deildarbikar.

„Við nýttum æfingaleikina vel og fundum ákveðið leikskipulag sem hentaði okkur vel og spilum á okkar styrkleikum.“

Næsta á dagskránni er útileikur gegn Vængjum Júpiters, sem er í þriðja sæti deildarinnar. Í lok júní kemur Kári í heimsókn en það lið er í öðru sæti. Í huga Víglundar skiptir sætaskipanin ekki öllu máli.

„Ég held að deildin hafi aldrei verið sterkari. Mörg þeirra hafa góða leikmenn sem spilað hafa í efri deildum. Þau berjast öll til síðasta blóðdropa þannig að 2-0 staða í hálfleik finnst mér í raun bara hættuleg. Við tökum hins vegar einn leik fyrir í einu og sjáum hvar við stöndum.“

Færri stig hjá hinum liðunum

Ekki gengur öllum Austfjarðaliðunum jafn vel. Leiknir er á botni 1. deildar með eitt stig og tapaði 1-2 fyrir Fram á heimavelli um helgina. Sigurmarkið kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Jeus Suarez jafnaði fyrir Leikni á 36. mínútu.

Fjarðabyggð er líka neðst í 2. deild með 1 stig en liðið tapaði 2-0 fyrir KV á laugardag. Fjarðabyggð var aðeins með fjóra varamenn og einn starfsmann á leikskýrslu en liðið fékk þrjú rauð spjöld í leiknum í síðasta leik á undan. Það fjórða í tveimur leikjum bættist við þegar Georgi Karaneychev var rekinn út af á 77. mínútu.

Huginn gerði sitt fjórða jafntefli í fyrstu fimm leikjum sumarsins þegar liðið tók á móti Vestra. Gonzalo Leon jafnaði leikinn í 1-1 á 87. mínútu.

Höttur er aðeins ofar í töflunni með einn sigur og þrjú jafntefli úr fyrstu leikjunum. Brynjar Árnason kom Hetti yfir rétt fyrir leikhlé í 1-1 jafntefli gegn Sindra á Höfn.

Í annarri deild kvenna tapaði Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir 1-2 fyrir Völsungi á Fellavelli í gær. Carina Spengler jafnaði leikinn á 73. mínútu en sigurmark gestanna kom fimm mínútum fyrir leikslok.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.