Blak: Bæði liðin töpuðu fyrstu leikjunum

Bæði karla – og kvennalið Þróttar töpuðu fyrstu leikjum sínum í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki um helgina. Karlaliðið þarf því á sigri að halda í kvöld.


Karlaliðið spilaði fyrsta leik sinn við HK í Fagralundi á laugardag og vann Kópavogsliðið eftir oddahrinu. HK vann fyrstu hrinu 25-17 en Þróttur svaraði 19-25.

Aftur vann HK hrinu 25-20 en Þróttur hafði sigur í fjórðu hrinu eftir upphækkun, 24-26. Jafnt var framan af oddahrinunni en HK breytti stöðunni úr 7-6 í 12-6 og vann hana 15-8.

Liðin mætast aftur í Neskaupstað klukkan 19:00. Þróttur þarf að vinna þann leik til að knýja fram oddaleik.

Kvennaliðið spilaði við Aftureldingu í gær og tapaðist sá leikur 3-0 eða 25-18, 25-17 og 25-12 í hrinum.

Liðið var laskað því Ana Vidal og María Rún Karlsdóttir, sem skorað hafa flest stig í vetur, meiddust á æfingu á laugardagskvöld. Ana er snúin á ökkla en María Rún meidd í baki og er óljóst hve miklum bata þær ná fyrir leik númer tvö á Norðfirði á morgun.

Mikið álag er á liðunum í úrslitakeppninni. Þau ferðuðust saman suður um helgina og höfðu æfingaaðstöðu í Fagralund. Liðin komu austur með síðasta flugi í gær og fengu leikmenn karlaliðsins rétt aðeins að skreppa til síns heima áður en þeir mættu á létta æfingu. Fyrir leikinn í kvöld er síðan farið yfir upptöku af andstæðingunum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.