Knattspyrna: Leiknir og Huginn skildu jöfn – Fjarðabyggð í úrslitakeppnina

leiknir huginn01Austfirsku knattspyrnuliðin fóru víða um helgina. Það var algjör toppslagur í annarri deild karla á föstudagskvöld þegar að Leiknir og Huginn mættust í Fjarðabyggðarhöllinni, en sá leikur var tilþrifalítill í meira lagi. Kvennalið Fjarðabyggðar tryggði sér annað sæti C-riðils 1. deildar með heimasigri gegn Sindra, en karlalið félagsins gerði svekkjandi jafntefli gegn Selfossi og hefur nú leikið sjö leiki án sigurs.

Fjarðabyggð tók á móti Sindra á Norðfjarðarvelli á föstudagskvöld og þurfti stig til að tryggja sér annað sætið í riðlinum. Það reyndist ekki mikið mál fyrir Fjarðabyggðarliðið, en Brynja Dögg Sigurpálsdóttir kom þeim yfir með marki 23. mínútu og Sigurdís Egilsdóttir bætti öðru marki við á 71. mínútu. Sindrastúlkur náðu að klóra í bakkann þegar tæpar tíu mínútur lifðu leiks, en nær komust þær og ekki.

Fjarðabyggðarliðið mætir ÍA í 8-liða úrslitum deildarinnar, en lið ÍA endaði í öðru sæti A-riðils. Fyrri leikur liðanna fer fram þann 29. ágúst á Norðfjarðarvelli.

Karlalið Fjarðabyggðar fór á Selfoss á laugardag og lék við heimamenn, sem eru í botnbaráttu í 1. deild. Fyrri hálfleikur var markalaus, en Fjarðabyggðarliðið komst yfir á 59. mínútu þegar Brynjar Jónasson skoraði með góðu skoti úr teignum.

Selfyssingar jöfnuðu nokkrum mínútum síðar, en Fjarðabyggð komst svo aftur yfir á 77. mínútu þegar miðvörður heimamanna stýrði aukaspyrnu Viktors Arnar Guðmundssonar í sitt eigið mark. Fjarðabyggð mistókst þó að halda forystunni til enda og Selfyssingar jöfnuðu skömmu síðar.

Mörkin út leiknum má sjá á heimasíðu SportTV.

Löng helgi hjá Einherjamönnum
Einherjamenn stóðu í ströngu um helgina og spiluðu tvo leiki á tveimur dögum á Suðurlandi. Fyrst fóru þeir til Vestmannaeyja á laugardag og höfðu sigur gegn liði KFS, 2-1. Heimamenn komust yfir en Todor Hristov og Daníel Smári Magnússon tryggðu Vopnfirðingum sigurinn.
Í gær fóru Einherjamenn svo á SS-völlinn á Hvolsvelli og mættu KFR. Dilyan Kolev kom Einherja yfir með marki á 52. mínútu en Rangæingar jöfnuðu leikinn á 77. mínútu. Þar var á ferðinni fyrrum leikmaður Leiknis á Fáskrúðsfirði og Newcastle United, Almir Cosic. Lokatölur 1-1 og Einherjamenn koma því með fjögur stig heim úr ferðalagi sínu.

Einherjamenn sigla lygnan sjó í fimmta sæti deildarinnar þegar þrír leikir eru eftir af mótinu.

Hattarmenn töpuðu mikilvægum stigum
Höttur tók á móti Ægi frá Þorlákshöfn á Vilhjálmsvelli á laugardag. Sigur gegn Ægi hefði komið sér afar vel fyrir Hattarmenn og spyrnt þeim vel frá botnliðum deildarinnar. Það hafðist þó ekki og voru það Ægismenn sem fóru heim með stigin þrjú.

Gestirnir komust yfir með skallamarki undir lok fyrri hálfleiks og bættu svo öðru marki við á 64. mínútu. Hattarliðið skapaði sér lítið sóknarlega og átti í miklum erfiðleikum með að brjóta vörn gestanna á bak aftur.

Eftir þetta tap er Hattarliðið nú aðeins þremur stigum frá fallsæti og ljóst að baráttan á botni deildarinnar verður hörð alveg fram í seinustu umferð.

Grannaslagurinn stóðst ekki væntingar
Leiknir og Huginn mættust á föstudagskvöld í toppslag í annari deildinni. Mikil eftirvænting hafði verið fyrir leiknum hjá stuðningsmönnum liðanna og öðrum austfirskum knattspyrnuáhugamönnum enda var þarna um að ræða einn þýðingarmesta leik á milli austfirskra liða í áraraðir.

Leikurinn stóðst hinsvegar enganveginn væntingar. Liðin tvö voru augljóslega meðvituð um mikilvægi þess að tapa alls ekki og varnarleikurinn var í fyrirrúmi.

Fyrri hálfleikurinn var þó mun líflegri en sá síðari. Liðin skiptust á að sækja í upphafi leiks og Julio Martinez átti frábært skot fyrir Leiknismenn eftir um tíu mínútna leik, en Atli Gunnar Guðmundsson blakaði boltanum úr samskeytunum og í horn. Upp úr horninu fékk Almar Daði Jónsson svo algjört dauðafæri á fjærstöng en náði ekki að gera sér mat úr því.

Ingólfur Árnason komst í ágætis skotfæri eftir rúman hálftíma en skot hans fór hátt yfir markið. Skömmu seinna vildu Leiknismenn svo fá vítaspyrnu þegar Björgvin Stefán stakk sér inn fyrir Stefan Spasic og féll eftir samstuð þeirra. Það var þó ekkert dæmt í það skiptið.
Hinrik Atli Smárason átti sennilega bestu tilraun fyrri hálfleiksins, er hann spólaði sig framhjá tveimur varnarmönnum Leiknis og átti skot rétt framhjá markinu.

Síðari hálfleikur fór hægt af stað. Lítið gekk upp hjá liðunum sóknarlega en eftir því sem leið á leikinn færðu Huginsmenn sig örlítið upp á skaftið og stjórnuðu leiknum. Á 69. mínútu átti Fernando Calleja skalla eftir hornspyrnu sem Leiknismenn skölluðu burt á línunni.

Nokkrum mínútum síðar skallaði Rúnar Freyr Þórhallsson svo boltann í netið hjá Leiknismönnum en hann var flaggaður rangstæður. Huginsmenn voru alls ekki sammála þeirri ákvörðun en markið stóð eftir sem áður ekki.

Síðustu mínútur leiksins voru ekki spennandi. Liðin virtust vera búin að sætta sig við að fá eitt stig úr leiknum og leikurinn fjaraði út í rólegheitunum án þess að liðin ógnuðu marki hvors annars.

Heilt yfir var þetta frekar dapur knattspyrnuleikur og liðin sýndu alls ekki þann skemmtilega fótbolta sem þau hafa verið þekkt fyrir í sumar.

ÍR-ingar nýttu sér tækifærið og skutu sér í efsta sæti deildarinnar og nú sitja Huginn og Leiknir í öðru og þriðja sæti, en það er nóg eftir af toppbaráttunni og spennandi verður að fylgjast með því hvernig liðunum reiðir af í næstu leikjum.
leiknir huginn02leiknir huginn03leiknir huginn04leiknir huginn05leiknir huginn06leiknir huginn07leiknir huginn08leiknir huginn09leiknir huginn10leiknir huginn11leiknir huginn12leiknir huginn13


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.