Knattspyrna: El Fjarðíco – Það þarf ekki að hvetja Seyðfirðinga til að mæta og styðja sitt lið

QM1T0956Á morgun fer fram sannkallaður stórleikur í 2. deild karla í knattspyrnu, þegar Leiknismenn taka á móti Huginn í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði kl. 18:30. Liðin skipa tvö efstu sæti deildarinnar fyrir leikinn, Huginsmenn eru á toppnum með 38 stig og Leiknir eru í öðru sæti með einu stigi færra. ÍR-ingar anda ofan í hálsmálið á austfirsku liðunum og hafa jafnmörg stig og Leiknir í þriðja sætinu.

Sex leikir eru eftir af mótinu og ljóst er að liðið sem sigrar á morgun kemst í ansi álitlega stöðu og stígur skref í áttina að því að fara upp úr deildinni. Austurfrétt heyrði í Birki Pálssyni, fyrirliða Hugins.

„Förum bara inn í þennan leik eins og flesta aðra“
„Þetta er bara spennandi, mjög spennandi,“ segir Birkir Pálsson fyrirliði Huginsmanna. „Við förum bara inn í þennan leik eins og flesta aðra í deildinni. Það verður engin breyting á neinu.“

Birkir segir að það sé nóg eftir af toppbaráttunni og að sigur á morgun tryggi engum eitt né neitt. „Það eru sex leikir eftir og það eru þrjú lið í baráttu og reyndar KV líka, aðeins fyrir aftan. Öll liðin eiga eftir að spila innbyrðis og KV á eftir að mæta okkur öllum. Það eru 18 stig í pottinum og það er nóg eftir.“

Það eru allir klárir í leikinn hjá Huginsmönnum, en nokkra leikmenn hefur vantað í liðið í undanförnum leikjum vegna meiðsla og leikbanna. „Annar Spánverjinn okkar er búinn að vera meiddur, en ég held að það sé enginn í leikbanni núna, svo allir aðrir eru klárir í slaginn,“ segir Birkir.

Nú eru skólar að hefjast og nokkrir leikmenn Hugins stunda nám í Reykjavík. „Þetta er svona að detta í það eftir þennan leik að menn séu að fara suður í skóla og fleira, þannig að hópurinn er kannski svona aðeins að skiptast upp aftur. Við erum reyndar með nokkra stráka sem eru bara í bænum að æfa og eru búsettir þar, en hópurinn á aðeins eftir að skiptast meira upp eftir þennan leik.“

Hefði verið gaman að spila á Fáskrúðsfirði
Leikurinn verður spilaður innanhúss á gervigrasi. „Það var alveg viðbúið að leikurinn yrði þar, Leiknir eru búnir að spila alla leikina þar og búið að ganga mjög vel hjá þeim, svo af hverju að breyta einhverju sem gengur vel. Það hefði reyndar verið gaman að spila á Fáskrúðsfirði, það er langt síðan ég hef spilað þar,“ segir Birkir.

Birkir skoraði í seinasta leik Hugins, er liðið vann góðan sigur gegn Aftureldingu. Það er fágætt. „Þetta gerist á 11 ára fresti virðist vera. Gaman að því, extra sætt. Það voru dálítið margir hissa held ég, liðsfélagarnir voru dálítið lengi að átta sig á því að ég hefði skorað og voru tvístigandi við að koma til mín og fagna,“ segir Birkir.

Blaðamaður spurði Birki hvort hann vildi koma einhverjum skilaboðum áleiðis til stuðningsmanna Hugins. Þess sagðist Birkir ekki þurfa. „Seyðfirðingar eru nú alltaf mjög duglegir að mæta á leiki og hvetja liðið sitt svo ég held að það þurfi nú ekkert að vera nein ákveðin skilaboð til þeirra,“ segir Birkir að lokum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.