Ungmenni frá UÍA taka þátt í samstarfsverkefni í Ungverjalandi í september: Opið fyrir umsóknir

uia.jpgUngmenna- og íþróttasamband Austurlands hefur undanfarnar vikur leitað ungmenna á aldrinum 15-25 ára til að fara til Ungverjalands í september og taka þátt í samstarfsverkefni UÍA við ungverskt ungmennafélag. Verkefnið er styrkt af Evrópu unga fólksins og reiknað er með því að þátttaka verði þátttakendum að mestu leyti að kostnaðarlausu.

Hildur Bergsdóttir framkvæmdastjóri UÍA segir verkefnið spennandi. „Þeir höfðu samband frá Ungverjalandi og höfðu áhuga á að fá tólf ungmenni til sín í samfélag sem mér skilst að sé svona svipað uppbyggt og hérna á Austurlandi, dreifðar byggðir með nokkrum stærri byggðakjörnum,“ segir Hildur í samtali við Austurfrétt.

„Þátttakendur munu ræða um íþróttir sem vettvang til að virkja ungt fólk til samfélagsþáttöku, til þess að stíga upp frá tölvunni eða sófanum og taka virkan þátt í samfélaginu. Einnig er verið að horfa á það hvernig íþróttir geta myndað brú yfir menningarlegan mismun,“ segir Hildur ennfremur.

Tólf pláss eru í boði fyrir ungmenni úr aðildarfélögum UÍA. „Við förum tvö fullorðin út og svo eru tólf pláss fyrir ungmenni. Það er enn hægt að sækja um en við erum þó komin með nokkrar góðar umsóknir.

Við viljum gjarnan fá fólk sem hefur brennandi áhuga á þessu málefni og er t.d. virkt í starfi innan aðildarfélaga okkar, því við viljum að þetta sé reynsla sem nýtist inn í samfélagið okkar þegar heim er komið,“ segir Hildur.

Verkefnið fer fram í borginni Orosháza dagana 8.-15. september en dagarnir 7. og 16. fara líklega í ferðalag.

Hildur hvetur ungt fólk til þess að taka þátt í verkefninu og áhugasömum er bent á að hafa samband við UÍA með tölvupósti á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.