Stefna að byggingu fimleikahúss á næstu þremur árum

hottur fherad fimleikahus vilji webÍþróttafélagið Höttur og sveitarfélagið Fljótsdalshérað undirrituðu í morgun viljayfirlýsingu um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Hún felur í sér að Höttur tekur að sér að leita tilboða og framkvæmdir við nýtt gólf í íþróttahúsinu og byggingu fimleikhúss með fjármagni frá sveitarfélaginu.

„Við vonumst til að finna leiðir til að framkvæma þetta á ódýran hátt í samvinnu við einstaklinga og fyrirtæki. Yfirlýsingin felur ekkert annað í sér en að menn eru tilbúnir að hlusta á okkur og skoða hver útkoman verður," segir Davíð Þór Sigurðsson, formaður Hattar.

Strax í ágúst verður ráðist í að skipta út gólfdúknum, sem orðinn er afar slitinn, fyrir parket. Í kjölfarið verði síðan farið að skoða möguleika á fimleikahúsinu og nýjum búningsklefum.

Lengi hefur verið þrýst á um byggingu fimleikahúss á Egilsstöðum við núverandi íþróttahús. Greinin er afar umsvifamikil og deildir Hattar hafa barist hart um tíma í íþróttahúsinu. Með sérstöku fimleikahúsi er vonast til að hægt verði að létta álagi af aðalsalnum og auka þar með tímafjölda allra deilda.

„Nýting íþróttamannvirkja innanhúss er sprungin og aðstaða fimleikadeildarinnar ekki viðunandi. Með tilkomu sérstaks fimleikahúss mun aðstaða allra deilda innan Hattar batna til muna, fimleikarnir fá aðstöðu sem styrkir og hæfir þeirra starfi betur og aðrar deildir fá aukinn aðgang að núverandi íþróttamannvirki. Við erum að þessu fyrir allar deildir því það hefur ekki verið hægt að anna eftirspurn þeirra."

Ódýrari lausnir rúmast innan fjárhagsáætlunar

Allar þessar byggingar hafa framarlega á framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins en viðkvæðið til þessa, einkum gagnvart fimleikahúsinu, hefur verið að fjárhagurinn leyfi það ekki. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, segir aðkomu Hattar breyta málinu.

„Þeirra hugmyndir, sem við höfum kynnt okkur og sannreynt, eru talsvert aðrar en við höfum haft og þar með er verið að tala um aðrar fjárupphæðir."

Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar rúmist innan fjárfestingaráætlunar sveitarfélagsins á því tímabili sem viljayfirlýsingin nær til, áranna 2015-2018. Ekki sé verið að bæta við fjármagni til nýframkvæmda.

„Í áætlunum okkar er fjárfestingaáætlunin bara ein stór tala sem síðan er bútuð niður frá ári til árs. Þarna erum við að taka ákvörðun um að hluti þeirrar fjárhæðar fari í þessar framkvæmdir. Þetta er í takt við framkvæmdaáætlun en við sjáum fyrir okkur lausnir mun fyrr en gert var ráð fyrir með mun minni fjármunum en við reiknuðum með."

Davíð Þór segir nokkrar hugmyndir þegar komnar fram. Í Hveragerði er uppblásið íþróttahús sem reynst hefur vel og stálgrindarhús gæti verið annar möguleiki. „Við skoðum alla möguleika. Þetta er bara á hugmyndastiginu, það hefur ekkert verið teiknað. Það verður ekki farið í neitt nema hægt sé að gera það á ódýran hátt."

Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið leysi til sín framkvæmdirnar þegar þeim verður lokið og reki þær framvegis. Innan Hattar starfa átta deildir sem bjóða upp á æfingar hjá börnum, unglingum og fullorðnum á Fljótsdalshéraði. Árið 2014 stunduðu rúmlega 900 einstaklingar æfingar hjá félaginu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.