Knattspyrna: Huginn, Leiknir og Höttur sigruðu öll – Fjarðabyggð tapaði heima

QM1T0956Helgin gekk misvel hjá austfirsku knattspyrnuliðunum. Austfirsku liðin í 2. deild karla unnu öll sína leiki en karla- og kvennalið Fjarðabyggðar þurftu að sætta sig við töp á heimavelli auk þess sem Einherjamenn töpuðu sex stiga leik í 3. deildinni með minnsta mun.

Fjarðabyggð mætti toppliði Völsungs í 1. deild kvenna á Norðfjarðarvelli á fimmtudagskvöld. Gestirnir frá Húsavík eru með gríðarlega öflugt lið og voru komnir í 0-3 eftir rúmlega hálftíma leik. Fjarðabyggð náði að klóra í bakkann undir lok leiks, en þar var að verki Freyja Viðarsdóttir. Lið Fjarðabyggðar komst þó ekki lengra og toppliðið sneri aftur á Húsavík með enn einn sigurinn í farteskinu.

Karlalið Fjarðabyggðar tók á móti Grindavík á Eskjuvelli í gær. Þar sneri Tommy Nielsen aftur austur, að þessu sinni sem þjálfari Grindvíkinga, en Tommy lék í hjarta varnarinnar hjá Fjarðabyggð síðustu tvö sumur.

Lærisveinar hans úr Grindavík komust yfir eftir 18. mínútna leik, en þá skoruðu þeir mark beint úr hornspyrnu, með smá hjálp frá vindinum, en vindur og vallaraðstæður gerðu leikmönnum erfitt fyrir á Eskifirði í gær.

Fjarðabyggð náði ekki að svara fyrir leikhlé og róðurinn þyngdist mjög hjá þeim þegar Jóhann Ragnar Benediktsson var rekinn af velli rétt fyrir hlé. Þá átti Jóhann í einhverjum útistöðum við leikmann Grindavíkur þegar boltinn var úr leik og endaði það með því að Jóhann klappaði honum fullfast í höfuðið, samkvæmt heimildum fréttaritara fótbolta.net.

Lið Fjarðabyggðar náði ekki að koma til baka manni færri og Grindvíkingar bættu við tveimur mörkum í síðari hálfleik. Fjarðabyggð tapaði því 0-3, en eru þrátt fyrir það í flottum málum í toppbaráttu 1. deildar. Næsti leikur þeirra er gegn KA á Akureyri næstkomandi fimmtudag.

Einherji tók á móti Kára frá Akranesi á Vopnafirði í gær. Með sigri hefðu Einherjamenn skotið sér upp í þriðja sæti 3. deildar, upp fyrir Kára og því um sannkallaðan sex stiga leik að ræða. Einherjamönnum tókst þó ekki að gera það og voru það Káramenn sem hirtu stigin þrjú. Þeir komust yfir skömmu eftir leikhlé og Einherja tókst ekki að jafna.

Níu stig austur í 2. deildinni
Huginn, Höttur og Leiknir áttu góða helgi og unnu öll sína leiki í 2. deild karla. Leiknismenn skelltu Tindastól 3-0 í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Björgvin Stefán Pétursson, Arek Jan Grzelak og Valdimar Ingi Jónsson skoruðu mörk Fáskrúðsfirðinga, öll í síðari hálfleik. Leiknismenn eru í 2. sæti deildarinnar, einungis stigi á eftir toppliði ÍR, sem hefur hikstað örlítið í síðustu umferðum.

Hattarmenn gerðu góða ferð suður í Njarðvík og unnu heimamenn með tveimur mörkum gegn engu. Brynjar Árnason kom inná sem varamaður um miðjan síðari hálfleik og kom Hetti yfir skömmu síðar. Halldór Fannar Júlíusson bætti svo við öðru marki á lokamínútum leiksins og innsiglaði sigur Hattar.

Huginn mætti Ægi frá Þorlákshöfn á Seyðisfjarðarvelli á föstudag. Huginsmenn byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og pökkuðu liði Ægis hreinlega saman í fyrri hálfleik, þar sem þeir skoruðu 4 mörk gegn einu marki gestanna.

Alvaro Montejo Calleja kom Huginsmönnum yfir eftir einungis þriggja mínútna leik, nánast með sínum fyrstu snertingum í sumar. Hann slapp þá einn í gegn og potaði boltanum framhjá markmanni Ægis. Alvaro lagði síðan upp annað mark leiksins fyrir Fernando Calleja á 14. mínútu.

Ægismenn svöruðu með marki þvert gegn gangi leiksins á 23. mínútu, en Orri Sveinn Stefánsson kom Huginn í 3-1 með marki eftir hornspyrnu þegar rúmlega hálftími var liðinn.

Fernando skoraði svo fjórða mark Hugins á fertugustu mínútu leiksins og var það einkar laglegt. Þá kom hár bolti yfir vörn Ægis og Fernando átti algjörlega stórkostlega móttöku, sem skildi markvörð Ægis eftir varnarlausan á vítateigslínunni og Fernando hljóp framhjá honum og skilaði boltanum í autt markið.

Dómari leiksins eignar Alvaro markið á leikskýrslu en það er þó alveg kýrskýrt að Fernando skoraði fjórða markið. Dómaranum til varnar þá eru þeir félagar frekar líkir og einnig sjást hvítu númerin ekkert of greinilega á röndóttum treyjum Huginsmanna.

En staðan í hléi var 4-1 og Huginsmenn miklu sterkari aðilinn. Þeir slökuðu hinsvegar aðeins á í síðari hálfleik og bættu ekki við öðru marki. Ingólfur Árnason komst næst því er hann átti algjörlega magnað skot utan teigs sem fór í slánna og þaðan í markvörðinn, sem rétt náði að bjarga sér frá því að skora sjálfsmark.

Ægismenn fengu vítaspyrnu á lokaandartökum leiksins, þegar Atli Gunnar Guðmundsson markvörður Hugins braut á sóknarmanni gestanna sem var að komast í ákjósanlega stöðu. Ægismenn skoruðu úr spyrnunni og náðu að laga stöðuna aðeins, áður en dómarinn flautaði til leiksloka.

Huginsmenn sitja því áfram í þriðja sæti deildarinnar, stigi á eftir Leikni og ljóst er að skemmtilegt verður að fylgjast með toppbaráttu deildarinnar á næstu vikum. Næsti leikur Seyðfirðinga er heimaleikur gegn Tindastól næstu helgi.

QM1T0876QM1T0889QM1T0918QM1T0960QM1T0965QM1T0938QM1T1008
QM1T0863

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.