Gautaborgarleikar: „Frábært að fá að keppa á svona flottum velli“

IMG 0680Alls voru 10 keppendur frá UÍA á Gautaborgarleikunum, alþjóðlegu frjálsíþróttamóti fyrir unglinga sem haldið var fyrr í mánuðinum. Þar af voru níu keppendur frá Hetti og einn frá Leikni. Alls tóku um 4000 unglingar þátt í mótinu og í ár voru íslenskir keppendur rúmlega 100 talsins.

Lovísa Hreinsdóttir, þjálfari hjá frjálsíþróttadeild Hattar, segir ferðina hafa heppnast vel. „Við vorum þarna í viku og keppnisdagarnir eru þrír. Keppnin gekk mjög vel og það var frábært að fá að keppa á svona flottum velli. Það hafa verið haldin stórmót á þessum velli, bæði HM og EM í frjálsum svo þetta eru bara bestu aðstæður sem hægt er að fá,“ sagði Lovísa í samtali við Austurfrétt.

Hitabylgja gekk yfir Evrópu á þeim tíma sem mótið fór fram og á keppnisdögunum var hitinn um 30 gráður og glampandi sól. „Aðstæðurnar voru töluvert frábrugðnar því sem við erum vön og mjög frábrugðnar aðstæðunum á Sumarhátíðinni síðustu helgi, þar sem hitinn fór ekki mikið yfir 5-10 gráðurnar.“

Lovísa segir keppendurna frá UÍA hafa staðið sig vel í keppninni og frídagarnir hafi sömuleiðis verið vel nýttir. „Við fórum í Liseberg skemmtigarðinn og síðan vorum við bara að versla og nutum þess að vera í sólinni.“ 

Einn helsti kostur Gautaborgarleikanna er að sögn Lovísu sá að mótið hentar öllum. „Við vorum með mjög breiðan hóp getulega og það geta allir farið og safnað í reynslubankann, bæði félagslega og íþróttalega.“

Keppendur frá UÍA hafa farið þrisvar sinnum á Gautaborgarleikana og að jafnaði hefur verið farið annað hvert ár. Stefnt er að því að fara aftur eftir tvö ár, enda reynslan af mótinu góð.

Mynd: Keppnishópurinn frá UÍA. /Aðalsteinn Þórhallsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.